Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. maí 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Afhending Vaxtarsprotans

Ágætu samkomugestir

Á björtum og fögrum snemmsumarmorgni sem þessum, þegar sólin gyllir tún og lyftir geði – þá finnur maður hvernig bjartsýnisstuðullinn rýkur upp. Og þegar við bætist tilefni þessarar samkomu hér í yndislegu umhverfi Grasagarðsins – að veita viðurkenningu sprotafyrirtæki sem hefur náð framúrskarandi árangri og vexti – þá verður bjartsýnin að fullvissu um betri tíð með blóm í haga.

Einhvers staðar segir að stærsta synd sem hægt er að drýgja sé aða sitja með hendur í skauti og aðhafast ekkert.

Það gerist ekkert af sjálfu sér – og til að byggja upp sterkt, kraftmikið og gott samfélag verðum við að treysta á nýsköpun og öflugt frumkvöðlastarf. Við Íslendingar erum fámenn þjóð í harðbýlu - en gjöfulu – landi, og forsenda þess að við náum árangri er að við leggjumst öll á árarnar.

Ég vil elska mitt land,                                                                        

ég vil auðga mitt land,

ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag

Þessi orð Jóns Trausta eiga sannarlega vel við núna þegar við veitum virðurkenningu aðilum sem hafa með dugnaði og hugviti lagt ríkulega sitt af mörkum til að efla íslenskt atvinnulíf.

Til þess að vaxtarsprotar nái að skjóta rótum, vaxa og blómstra er nauðsynlegt að ytri skilyrði séu sem hagstæðust. Í náttúrunni snýst þetta um frjóan jarðveg, næga vökvun og birtu sólar. Og þegar að er gáð eru nauðsynleg skilyrði til vaxtar í atvinnulífinu kannski ekki svo ýkja eðlisólík. Starfsumhverfið þarf að vera frjótt, sem þýðir m.a. að reglur og lög þurfa að vera sanngjörn og skattar réttlátir. Fjármagn er nauðsynleg vökvun, og jákvæðu viðhorfi samfélagsins, sem sýnir sig meðal annars í vel menntuðu og hæfileikaríku starfsfólki má líkja við birtu sólar. 

Það er mikils um vert að við styðjum vel við nýsköpunarfyrirtækin okkar og hvetjum þau til dáða. Til þess er meðal annars Vaxtarsprotinn. Og til þess eru líka ýmis ráð sem að stjórnvöld geta beitt sér fyrir.

Það er mér til að mynda mikið fagnaðarefni að lög um skattaafslátt til fyrirtækja sem leggja stund á rannsóknar- eða þróunarverkefni virðast hafa náð tilgangi sínum. Á þeim tveimur rekstrarárum sem lögin ná til, hafa um 250 verkefni hjá tæplega 140 lögaðilum verið samþykkt sem rannsóknar- eða þróunarverkefni. Það lætur nærri að skattafslátturinn nemi hálfum milljarði króna á ári sem rennur beint til fyrirtækjanna – þar sem þeir nýtast til enn frekari nýsköpunar og rannsókna. Og það gleður mig sem iðnaðarráðherra að öll sólarmerki benda til að þessi upphæð muni hækka fyrir nýliðið ár – en fjármálaráðherra mun upplýsa um það í haust þegar álagningin liggur fyrir.

En snúum okkur þá að því sem allt snýst um hér í dag – hvaða fyrirtæki það er sem að hlýtur Vaxtarsprotann árið 2012.

Það er mér mikil ánægja að tilkynna að Vaxtarsprota ársins 2012 fær fyrirtækið – Valka ehf.

Ég vil biðja fulltrúa Valka að koma hingað og taka við verðlaunagripnum en auk hans fær fyrirtækið sérstakan verðlaunaskjöld til eignar.

Ég vil óska stjórnendum og starfsmönnum Valka innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Á þeim tæpa áratug sem fyrirtækið hefur starfað hefur vöxtur þess sannarlega verið glæsilegur og þegar horft er til þess að velta fyrirtækisins þrefaldaðist á milli áranna 2010-2011, úr 130 milljónum króna í 410 milljónir, þá segir það í raun allt sem segja þarf um frjómagnið sem býr í fyrirtækinu og viðskiptahugmynd þess. Fyrirtækið hefur tvisvar áður hlotið viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir góðan vöxt, og nú er sem sagt kominn tími á aðalverðlaunin.

Það er gömul saga og ný að nákvæm heimavinna og traustur heimamarkaður eru besti grunnurinn til að byggja á sókn á erlenda markaði. Valka er hátæknifyrirtæki sem hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að byggja þróunarstarf sitt á náinni samvinnu við öflug fyrirtæki í sjávarútvegi. Saman vinna þau að því að leysa tilteknar þarfir – og þannig verður til lausn sem verður eftirsótt á alþjóðlegum markaði. Staðan í dag er sú að íslenski markaðurinn telur um  20% og sá erlendi 80% í rekstri fyrirtækisins.

Það er ekki hægt að saka forsvarsmenn Valka um að sitja með hendur í skauti og fyrirtækið er stöðugt að vinna að nýjungum. Nýverið kynnti Valka nýja röntgen-stýrða beinaskurðarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og bætist hún í fjöskrúðuga flóru framleiðsluvara sem spanna allt frá  stökum vogum, innmötunarvélum og flokkurum yfir í heildarkerfi með heilfiskflokkurum, flæðilínum og pökkunarkerfi. Þá er ónefndur RapidFish hugbúnaðurinn sem er öflugt framleiðslustjórnar- og pantanakerfi fyrir fiskvinnslur og sölufyrirtæki.

Það kostar peninga að skapa peninga – og þróun í hátækniiðnaði krefst umstalsverðra fjármuna. Það er gott til þess að vita að forsvarsmenn Valka hafa átt bandamenn í stuðningskerfi atvinnulífsins og má í því sambandi nefna AVS-sjóðinn og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Það eru fyrirtæki eins og Valki sem sanna mikilvægi þess að við byggjum upp öflugt stuðningskerfi sem greiðir sprotafyrirtækjum leið. Samfélagið allt nýtur ávinningsins fyrr en varir.

Það fer ekkert á milli mála að fyrirtækið Valki er sannarlega vel að þessari viðurkenningu komið. Og það blandast engum hugur um að það eru öflug, framsækin og skapandi fyrirtæki á borð við Valka sem munu mynda bakbeinið í sókn okkar Íslendinga til bættra lífskjara.

Ég vil í lokin óska stofnandanum, Helga Hjálmarssyni og öllu starfsfólki Valka innilega til hamingju með frábæran árangur. Ykkar er framtíðin!

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum