Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. júní 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Ársfundur Byggðastofnunar

Ávarp á ársfundi Byggðastofnunar, 1. júní 2012, flutt af Kolbeini Marteinssyni, aðstoðarmanni í forföllum ráðherra.

Ágætu ársfundargestir Byggðastofnunar.
Ég vil byrja á að bera ykkur kveðju Oddnýjar Harðardóttur sem því miður gat ekki verið með okkur hér í dag. Fyrir rétt rúmu ári skipaði iðnaðarráðherra nýja stjórn yfir Byggðastofnun.

Sú skipan tókst vel þar sem stofnunin hefur á þessu ári siglt lygnari sjó en oft áður. Stjórnin hefur verið samhent og farsæl í sínum störfum sem einkennst hafa af faglegri nálgun við viðfangsefnin og hafa samskipti þeirra við iðnaðarráðuneytið einkennst af fagmennsku og trúnaði.

Fyrir  Alþingi liggur nú fyrir frumvarp til laga lagt fram af iðnaðarráðherra þar sem kveðið er á um breytingar á lögum um Byggðastofnun.   Þegar Byggðastofnun var komið á fót með lögum nr. 64/1985 var litið svo á að stofnunin væri sjálfstæð ríkisstofnun og að ákvarðanir hennar væru ekki kæranlegar til ráðherra. Með breytingu á lögunum árið 1999 var stefnt að því að stjórnsýsluleg staða stofnunarinnar yrði skýrari, m.a. með þeim hætti að stofnunin hefði stöðu lægra setts stjórnvalds gagnvart ráðherra, og urðu ákvarðanir stofnunarinnar þar með kæranlegar til ráðuneytisins.  Því er lagt til að ákvæði um kæruheimildir verði bætt við lögin þar sem kveðið verði skýrt á um að ákvarðanir Byggðastofnunar um veitingu lána eða ábyrgða séu endanlegar á stjórnsýslustigi og því ekki kæranlegar til ráðuneytis.

Eins og flestum er kunnugt hefur þingsályktun um nýskipan Stjórnarráðsins verið samþykkt á Alþingi. Við það mun ráðuneytum fækka úr tólf í átta - og kemur sú ákvörun formlega til framkvæmda 1. september næstkomandi. Megin breytingarnar felast í því að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis kemur eitt öflugt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Í stað efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis kemur fjármála- og efnahagsráðuneyti og í stað umhverfisráðuneytis kemur umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Markmið breytinganna er að gera stjórnsýsluna skilvirkari og skerpa og skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta. Verkið er þó aðeins u.þ.b. hálfnað því framundan er endurskoðun á skiptingu verkefna á milli ráðuneyta, sem unnið verður að næstu vikur og mánuði. Sú ákvörðun þarfnast ekki samþykkis Alþingis.

Markmið breytinganna er fyrst og fremst að bæta verklag og árangur af starfsemi ráðuneytanna, en ekki síður að auka skilvirkni og þjónustu við viðskiptavini þeirra. Ætla má að heildarhagsmunir verði ríkjandi í starfseminni þótt gætt verði allra sjónarmiða, eins og verið hefur. Í gegnum tíðina hefur verið deilt á hefðbundna skiptingu ráðuneytinna út frá gæslu sérhagsmuna, t.d. einstakra atvinnuvega, án þess að heildarhagur hafi ætið ráðið för. Þetta hefur ýtt undir ágreining á milli atvinnuvega þótt minna beri á honum í seinni tíð en áður var. Skýringarnar var að finna í því að ábyrgð ráðherra var jafn lórétt og verkefni ráðuneytanna báru með sér. Þessi lóðrétta verkaskipting hefur í langan tíma staðið framfaramálum fyrir þrifum. Einfalt dæmi um það eru ýmis málefni líftækniiðnaðarins, sem margir telja vera meðal álitlegustu vaxtargreina atvinnulífsins. Um líftækniiðnaðainn var í mörg ár landlægur ágreiningur á milli þriggja ráðuneyta um forræði og faglegar áherslur sem kom í veg fyrir að heildarhagsmunir nýsköpunar og framfara næðu fram að ganga. Starfsmenn ráðuneytanna hafa fyrir löngu viðurkennt vandann sem leitt hafa af þessum lóðréttu skilveggjum á milli ráðuneytanna. Nú er aftur á móti runninn upp nýr tími nýrra tækifæra.

Þær breytingar sem við stöndum nú frammi fyrir munu leiða af sér betri og skilvirkari stjórnsýslu, sem m.a. munu lýsa sér í nýjum og breyttum áherslum hjá stofnunum ráðuneytanna. Stofnanirnar munu eflast, verkaskipting á milli þeirra verður skýrari og þær fá ný verkefni. Unnt verður að sameina eða samþætta skilda verkþætti, auðvelda aðkomu almennings að þjónustu ríkisins og gera hverskonar stoðþjónustu markvissari í þágu borgaranna. Þjónusta sem áður heyrði undir mörg ráðuneyti má nú fella í einn sameiginlegan farveg svo hlaup á milli stofnana verði úr sögunni. Breytingarnar eru því ekkert annað en tækifæri. Þær eru nú í mótun og of fljótt að segja til um hvernig þær verða endanlega.

Það er áhugavert að á sama tíma og þessi nýskipan stjórnarráðsins er að líta dagsins ljós eru að verða breytingar í stoðkerfi sveitarfélaganna. Tilkoma hins þverfaglega vettvangs Austurbrúar á Austurlandi er í anda þessara breytinga. Þar verður unnið sameiginlega að nýsköpun og atvinnuþróun í þágu efnahagslegra framfara og samfélagsins í heild. Þar verður þungamiðja öflugrar símenntunar, starfsþróunar og starfsfræðslu, ásamt uppbyggingu háskólanáms, rannsókna, menninga, lista og skapandi greina. Slíkar skipulagbreytingar sem hér eru að eiga sér stað munu vafalítið leiða til aukinnar hagræðingar, skilvirkni og almennt enn betri samskipta ríkis og sveitarfélaga.

Stefna stjórnvalda varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga sem endurspeglast í sóknaráætlunum landshluta er af sama toga sprottin.  Þar verða samskipit stjórnvalda við landshlutasamtök sveitarfélaga um einn farveg, sem endurspeglar þá framtíðarsýn að styrkjafyrirkomulag ríkisins við sveitarfélög  s.s. vaxta- og menningarsamninga, atvinnuþróunarfélög og ýmsa þjónustu ríkisins í landshlutum verði sett undir eitt reglugerk sem tengist með beinum hætti sóknaráætlun hvers landshluta og forgangsröðun þeirra í því sambandi. Það er mikilvægt að hafa þessa heildarmynd í huga þegar nýskipan ráðuneytanna er skoðuð til þess að hagræðið og ávinningurinn verði skýrari.

Að sama skapi er rétt að árétta mikilvægi sóknaráætlunar sem grunn að byggðastefnu. Þannig hafa áherslur sóknaráætlanna stefnumarkandi áhrif á fjárlágagerð og að sóknaráætlanir landshluta endurspegli áherslur hvers landshluta sem í framtíðinni samræmist heildarstefnumótun og áætlanagerð ríkisins.
Sóknaráætlanir landshluta skerpa þannig og skýra samskiptaferlið milli ríkis og sveitarfélaga. Með slíkum samskiptaási hafa sveitarfélög landsins í gegnum landshlutasamtökin og stoðstofnanir   aukin áhrif á úthlutun almannafjár og þannig áhrif á forgangsröðun opinberra verkefna í eigin landshlutum hvort sem þau snúa að fjárfestingum eða rekstri.

Iðnaðar- forsætis- innanríkis og fjármálaráðuneyti kostuðu sameiginlega starfsmann til að vinna með Byggðastofnun að sóknaráætlun landshluta til eins árs. Hlutverk þessa starfsmanns er að vinna að eflingu sveitastjórnarstigsins, bæta og einfalda samskipti ríkis og sveiotarfélaga og auka samráð milli ráðaneyta við útfærslu sóknáráætlanna.

Undanfarna mánuði hefur jafnframt farið fram vinna við atvinnustefnu fyrir Ísland í sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti auk iðnaðarráðuneytis. Við mótun atvinnustefnu er stuðst við niðurstöður 2020 Sóknaráætlunar eins og þær birtast í stefnumörkuninni Ísland 2020. Afmörkun verkefnisins felst í því að í atvinnustefnunni verði að finna áherslur stjórnvalda til eflingar fjölbreytts atvinnulífs og atvinnuþróunar í landinu þar sem m.a. verður byggt á samkeppnishæfni, sérstöðu og styrkleikum Íslands. Ljóst má vera að í vinnu af þessu tagi er afar mikilvægt að litið sé atvinnulífs um land allt og að í heildstæðri atvinnustefnu fyrir Ísland endurspeglist styrkleikar landsbyggðarinnar og byggðanna og þau sóknarfæri sem þar má finna. Þau meginmarkmið, áherslur og úrlausnarefni sem tekist verður á við við undirbúning og framkvæmd atvinnustefnu eru þannig sett kynnt til að styðja við verðmætasköpun atvinnulífs um allt land.

Byggðastofnun óskum við í iðnaðarráðuneytinu alls hins besta og megi næsta starfsár vera stofnunni farsælt og árangursríkt. Fyrir hönd iðnaðrráðuneytisins vil ég þakka stjórnarmönnum vel og starfsfólki Byggðastofnunar fyrir vel unnin störf.

Takk fyrir mig 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum