Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. desember 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2013

Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp f.h. ráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs þann 5. desember 2013.


Stjórn og starfsmenn Úrvinnslusjóðs, aðrir ársfundargestir.


Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Úrvinnslusjóðs.

Hlutverk Úrvinnslusjóðs er að beita hagrænum hvötum til að stuðla að endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni þess úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.  Það byggist á því að einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög eru hvött til að endurnýta efni og flokka úrgang.  Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina lagt áherslu á að auka endurnýtingu og endurnotkun úrgangs og hefur hlutverk Úrvinnslusjóðs verið að skapa þau skilyrði að þessi markmið náist.

Úrvinnslusjóður hefur að grunni til starfað frá árinu 1996 þegar fyrirrennari hennar Spilliefnanefnd tók til starfa og hefur frá upphafi ríkt góð og breið sátt um starfsemina og hlutverk Spilliefnanefndar og síðan Úrvinnslusjóðs, sem tók til starfa í upphafi árs 2003.

Mikil framþróun hefur verið í úrgangsmálum og meiri áhersla er nú lögð á að koma í veg fyrir að úrgangur myndist en áður var og meira hugað að flokkun úrgangs og endurnýtingu.  Áhugi almennings, sveitarfélaga og fyrirtækja á úrgangsmálum hefur aukist og stuðlar það að aukinni umhverfisvernd og bætir stöðu málaflokksins.  Mikilvægt er að meðhöndlun úrgangs sé markviss og hagkvæm og að úrgangur sem til fellur fái viðeigandi meðhöndlun.  Þá þarf að leggja áherslu á að stuðla að sjálfbærri auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu til að draga úr myndun úrgangs og auka nýtingu hráefna úr úrgangi ásamt því að handhafar úrgangs greiði kostnað við meðhöndlun hans..  Til að stuðla að þessu þarf að breyta þeirri forgangsröðun sem verið hefur.  Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs sem ráðherra lagði fram á Alþingi í gær er kveðið á um að við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum skuli ákveðin forgangsröðun lögð til grundvallar.  

Í forgangi skulu vera ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr magni úrgangs.Næst í röðinni er undirbúningur fyrir endurnotkun, þá endurvinnsla, síðan önnur endurnýting, t.d. orkuvinnsla, og loks förgun. Leitast skal við að velja þá kosti sem skila bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið. Einn liður í frumvarpinu er að undanskilja ákveðin lífræn efni frá frumvarpinu s.s hálm sem tengist landbúnaði eða skógrækt og notaður er við búskap.  Lögin taka enn fremur ekki til aukaafurða úr dýrum að undanteknum þeim sem eiga að fara í brennslu. Þarna skapast aukin tækifæri á endurnýtingu.

Norrænn vinnuhópur um sjálfbæra neyslu og framleiðslu hefur skilað af sér skýrslunni „Bætt stefnumörkun og ákvarðanataka á Norðurlöndum ef goðsagnir um sjálfbæra neyslu eru hraktar“. Vinnuhópurinn er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar en samhliða útgáfunni kemur út samantekt yfir stefnu Norðurlandanna á þessu sviði, þar sem m.a. er fjallað um tíu goðsagnir eða misskilning sem gætir um sjálfbæra neyslu. Skýrsluna má finna á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Í skýrslunni er bent á að markmið Norðurlanda um að vera leiðandi í sjálfbærri þróun séu óraunhæf þegar ákvörðunartaka byggir á misskilningi um sjálfbæra neyslu fremur en niðurstöðum atferlis- og félagsrannsókna. Þetta endurspeglast í þeirri staðreynd að vistspor Norðurlandabúa eru með þeim stærstu í heiminum sé miðað við höfðatölu.

Ein þeirra goðsagna sem fjallað er um í skýrslunni er að græn neysla sé ein af mörgum leiðum til að draga úr auðlindanotkun og umhverfisáhrifum af völdum neyslu.  Staðreyndin er hins vegar sú að græn neysla er mikilvæg en hefur takmörkuð áhrif í þá veru að auka nýtni í framleiðslu, hönnun og sölu á umhverfisvænum og félagslega hollum vörum. Því er mikilvægara að auka nýtni enn frekar en hún dugar ekki ein og sér því „grænar“ vörur hafa einnig áhrif á umhverfið. 

Hátt neyslustig og ósjálfbært neyslumynstur vegur einnig á móti nýtni sem ávinnst við framleiðslu og þróun vöru. Því má segja að græn neysla hjálpi okkur að hægja á umhverfisvandanum en dugir ekki til eins og sér. Sjálfbær neysla og lífshættir verða því að haldast í hendur.Skoða þarf þá möguleika sem eru til að beita í úrgangsforvörnum og um leið endurnýtingu.  Um leið á áhersla að vera á það að einfalda regluverkið sem Úrvinnslusjóður starfar eftir með hagræðingu að leiðarljósi og endurmeta hlutverk hans.  Þá þarf að skoða framtíðarskuldbindingar sjóðsins og taka afstöðu til þess hvað varða uppgjör vöruflokka.

Í október sl. skipaði ég samráðsvettvang um mótun stefnu í úrgangsstjórnun. Vettvanginum er ætlað að efla samstarf á sviði úrgangsstjórnunar og stuðla að virku samráði við hagsmunaaðila við mótun stefnu í úrgangsstjórnun. Með þessum samramráðsvettvangi gefst tækifæri til að ræða úrgangsstjórnun í víðu samhengi og velta upp hugmyndum og tillögum sem nýtast við frekari stefnumótun af hálfu ráðuneytisins á þessu sviði.

Í landsáætluninni er lögð áhersla á að ævinlega þurfi að skoða úrgangsmál í víðu samhengi, enda ræðst úrgangsmyndunin öðru fremur af neyslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þetta kallar á að beitt sé lífsferilshugsun í allri stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga.  Samráðsvettvangurinn er skipaður fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóði, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Fenúr, Umhverfisstofnun, Samtökum iðnaðarins og ráðuneytinu.  

Mikilvægt er að skoða úrgangsmálin í heild sinni til framtíðar. Lagaumhverfið þarf að vera stöðugt til að fyrirbyggja óvissuþætti sem kunna að vera nú í málaflokknum.  Ég bind vonir við að þetta samráð mun stuðla að markvissari og betri stefnu í úrgangsmálum og meiri sátt um málaflokkinn í heild sinni.

Ágætu ársfundargestir.

Ég þakka starfsfólki og stjórn Úrvinnslusjóðs fyrir þeirra góða starf á liðnu ári, fyrir ykkar framlag til úrgangsmála og fyrir ánægjulega samvinnu.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðs ársfundar og vona að þig eigið ánægjulegan dag framundan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum