Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2014 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á ráðstefnu fiskeldisstöðva, 29. apríl 2014

ATH: Talað orð gildir


Ágætu fundargestir.

Saga fiskeldis hér á Íslandi hefur einkennst af sveiflum á milli mikillar bjartsýni  á uppgangstímum yfir í erfiðleika þegar kreppt hefur að. Á sama tíma og við höfum horfum bjartsýn til framtíðar tel ég mikilvægt að horfa til fortíðar, hvaðan við erum að koma. Þannig áttum við okkur betur á stöðunni í dag svo við getum markað heilbrigða stefnu í þessari atvinnugrein til framtíðar. 

Upphaf fiskeldis á Íslandi hefur verið rakið til ársins 1884 þegar fyrstu tilraunir við klak laxahrogna hófust á Þingvöllum, Reynivöllum í Kjós og Hjarðarholti í Dölum. Eftir 1920 dafnaði þessi starfsemi og voru þá 40 starfandi klakhús á landinu. Á árinu 1953 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur eldi laxaseiða í eldisstöð sem reist var við Elliðaárnar og með tilkomu Laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði 1961 má segja að traustur grunnur hafi verið lagður að framtíð fiskeldis hér á landi. Næstu ár fylgdi uppgangur og bjartsýni þar sem útflutningur hófst á lifandi seiðum til Noregs og Írlands. 

Fyrstu tilraunir með laxeldi í sjókvíum hófust árið 1972 í Hvalfirði og á Fáskrúðsfirði sem fór ekki vel af stað því megnið af fiskinum slapp.

Þegar komið var í lok níunda áratugarins var aftur farið af stað með laxeldi í sjókvíum. Flestir þekkja nú orðið þá sögu þar sem of bratt var farið af stað. Óblíð náttúruöflin, verðhrun á mörkuðum og sjúkdómar leiddu til hruns og svartsýni um framtíð greinarinnar hér á landi. Um þennan tíma er oft rætt sem „fiskeldisbóluna“ á Íslandi og vísað til hans sem víti til varnaðar. Sjókvíaeldi hófst ekki á ný fyrr en um síðustu aldamót með aðkomu stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins.

Góðir fundarmenn:

Fiskeldi er nú á ný í örum vexti hér á landi og nú skal byggt til framtíðar. Reglusetning þarf að einkennast af ábyrgð og festu og þau fyrirtæki sem hefja rekstur að byggja á traustum grunni.

Í dag er þó sjókvíaeldi nær eingöngu stundað á Vestfjörðum og Austfjörðum en úhlutuð leyfi nema um 33.000 tonnum. Um tveir þriðju framleiðslu í fiskeldi í sér eldi á lax og regnbogsilungi rest í þorski. Þrátt fyrir þessa heimild til framleiðslu er hún ekki svona mikil enn sem komið er, var undir 2.500 tonnum í fyrra úr sjókvíaeldi.

Þó svo að slátrað magn sé ekki meira en þetta var í nóvember síðastliðnum níu sjókvíaeldisframkvæmdir til málsmeðferðar hjá Skipulagsstofnun, en þær fela í sér áform um 45.000 tonna framleiðslu, aðallega til eldis á laxi og regnbogasilungi. Þessu til viðbótar er fjöldi umsókna í ferli þar sem sótt hefur verið um starfsleyfi til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga fyrir minna en 200 tonna ársframleiðslu. Á Austfjörðum eru t.d. 15 umsóknir um starfsleyfi í fjórum fjörðum, samtals um 3.000 tonn en þær eru nú til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Þegar tekin eru saman starfs- og rekstrarleyfi til sjókvíaeldis ásamt tilkynningum til Skipulagsstofnunar er búið að úthluta, tilkynna eða sækja samtals um 80.000 tonna framleiðsluheimildir í eldi á laxi, þorski og regnbogasilungi. Það er því ljóst að  fiskeldi er vaxandi atvinnugrein á Íslandi, sérstaklega á afmörkuðum svæðum landsins þar sem skilyrði fjarða eru hagstæð til eldis.

Eins og ég kom inn á hér í upphafi þá hefur saga okkar í þessum málaflokki verið sveiflukennd  bæði sökum ytri aðstæðna og þeirra ávarðana sem teknar hafa verið. Þessu megum við ekki gleyma til að geta nú staðið að uppbyggingu atvinnugreinarinnar með ábyrgum hætti.

Í þessu sambandi vil ég nefna frumvarp sem ég mælti nýverið fyrir á Alþingi en það varðar breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

Við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi er mikilvægt að taka tillit til umhverfisþátta og mögulegra áhrifa starfseminnar á umhverfið.  Eitt af markmiðum löggjafar um fiskeldi á að fela í sér að tryggja ábyrgt  samspil fiskeldisstarfsemi við umhverfið, hið villta lífríki. Til að nefna dæmi þurfum við, með regluverkinu, og góðu samráði og samstarfi á milli hagsmunaaðila, að tryggja gæði búnaðar við sjókvíaeldi með það að markmiði að verja villta stofna fyrir óæskilegri erfðablöndun.  

Þannig má finna þau nýmæli í frumvarpinu varðandi sjókvíaeldisstöðvar að umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja upplýsingar um að eldisbúnaður umsækjanda standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Nánar verður kveðið á um þær kröfur sem þarf að uppfylla samkvæmt þessum stöðlum í reglugerð um fiskeldi. Í þessu sambandi skal sérstaklega hafður til viðmiðunar norski staðalinn NS 9415 sem þykir til eftirbreytni í þessum efnum.

Þannig er þessum ákvæðum ætlað að vera hvati til ítrustu varkárni þessu lútandi, hérna er frumkvæði eldismanna lykilatriði. Verði frumvarpið að lögum er tækifæri hverju sinn með reglugerðasetningu að herða á kröfum sé þess þörf. Með þessum nýmælum er verið að stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis, þ.m.t. slysasleppingum. Einnig er lagt til að skylt sé að  merkja fisk í eldisstöðum með erfðamerkingum þannig að auðveldara sé að rekja það frá hvað eldisstöð eldisfiskur kemur ef til slyss kemur þannig að úr megi bæta.

Þá er í frumvarpinu einnig að finna þau nýmæli að umsókn um rekstrareyfi skuli fylgja burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Þannig er sett sú krafa að áður en fiskeldisstarfsemi hefst þá sé búið að leggja mat á þol umhverfisins fyrir starfsemi á því svæði sem sóst er eftir að starfa á. Með þessu er ætlað að tryggja sem besta nýtingu svæða og hafa sem minnst áhrif á lífríki þeirra. Eldissvæði eru verðmæt, ekki síður gangi uppbyggingar í fiskeldi eftir. Því er ábyrgðarhluti að nýta hvert svæði á sem bestan hátt.

Slíkar rannsóknir eru mjög mikilvægar fyrir uppbyggingu fiskeldis á Íslandi, en þær eru kostnaðarsamar. Því er með frumvarpinu lagt til að komið verði á Umhverfissjóði sjókvíaeldis sem meðal annars er ætlað að fjármagna þessar rannsóknir. Umhverfissjóðurinn verður fjármagnaður með greiðslu árgjalds sem rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi greiða í samræmi við leyfilegt árlegt framleiðslumagn.

Engin gjöld eru í dag greidd fyrir rekstrarleyfi en til samanburðar eru afnot af sjókvíaeldissvæðum í nágrannalöndum okkar nokkuð dýr. Með ákvæðum um Umhverfissjóð er ætlað að auka möguleika þess að tryggja farsælt samspil fiskeldis og umhverfis, með bættum rannsóknum, sem með þessu greiðast af aðilum í leyfisskyldri starfsemi.

Ég vil geta þess að í frumvarpinu er að finna nokkur ákvæði sem ætlað er að tryggja burði og getu þeirra sem að eldi hyggja til þess að fara í starfsemina. Lúta þau meðal annars að fagþekkingu og hæfni umsækjenda eða starfsmanna á hans vegum, upplýsingum í umsókn fyrir leyfisskyldri starfsemi um eigin fjármögnun og rekstraráætlun, sem og ábyrgðatryggingu fyrir því tjóni sem af starfsemi gæti hlotist. Þar er sérstaklega tekið fram að trygging skuli ábyrgjast kostnað sem kann að hljótast af því að hreinsa upp eldisbúnað hætti viðkomandi starfsemi.

Það hefur verið kostnaður fyrir sveitafélög, og í mörgum tilfellum mengun, af tómum eldisstöðvum þar sem ekki er gætt að hreinsun þeirra við starfslok.

Góðir fundarmenn:

Eins og fram hefur komið í máli mínu þá eru framtíðaráform tengd uppbyggingu í fiskeldi þó nokkur og því mikilvægt að skapa greininni einfaldara rekstrarumhverfi og þann fyrirsjáanleika sem kostur er án þess að vega að hagsmunum umhverfis.

Gagnrýni hefur komið fram þess efnis að stjórnsýslan, og þá sérstaklega leyfisveitingaferli og eftirlit með fiskeldi, sé þung og viðkomustaðir margir. Í frumvarpinu er leitast við að bregðast við þeirri gagnrýni á stjórnsýsluna. Þannig er meginmarkmið fumvarpsins einföldun og aukin skilvirkni í leyfisveitingum vegna fiskeldis. Verði frumvarpið að lögum fækkar stofnunum sem sækja þarf um leyfi til og tímamörk sett á afgreiðslutíma umsókna.  Þá er einnig markmið frumvarpsins að ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi og eftirlitsaðilum fækkar.

Með vísan til alls þess sem ég hef nú rakið er það mín von að ný framlagt frumvarp muni stuðla að ábyrgri uppbyggingu og framþróun fiskeldis sem framtíðaratvinnugreinar á Íslandi verði það að lögum. Það eru tækifæri sem fylgja eldi í sjó við Ísland, hann er kaldari þannig að vaxtarhraði fisks er jú einhverju minni en á móti kemur að sjúkdómshætta er að sama skapi minni. Fiskeldi er í nágrannaríkjum okkar öflugur atvinnuvegur sem skilar ríflega til þjóðarbúsins og það er von mín að okkur takist að byggja okkar fiskeldi, á ábyrgan hátt, í það að verða verðmæt og atvinnuskapandi útflutningsgrein.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum