Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. maí 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra - stofnun fólkvangs í Bringum í Mosfellsbæ

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við stofnun fólkvangs í Bringum í Mosfellsbæ þann 20. maí 2014.


Góðan daginn Mosfellingar og aðrir góðir gestir,


Það er gaman að fá að vera með ykkur hér í dag til að ganga frá stofnun fólkvangs hér á Bringum í Mosfellsbæ.

Í tilefni af 25 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2012 var ákveðið að friðlýsa þrjá fossa í bæjarfélaginu. Í fyrra voru Álafoss í Varmá og Tungufoss í Köldukvísl friðlýstir og nú er komið að því að staðfesta friðlýsingu þriðja fossins -  Helgufoss - ásamt næsta nágrennis sem fólkvangs. Alls er um að ræða 18,6 hektara svæði sem kennt er við eyðibýlið Bringur. 

Markmið þessarar friðlýsingar er að tryggja vernd svæðisins til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu, en auk náttúruminja eru á svæðinu töluvert af menningarminjum. Mikið er um seljarústir sem er vitnisburður um atvinnuhætti fyrri tíma þegar búfé var haft í seli yfir sumarmánuðina. Örnefni eins og Helgufoss, Helguhvammur, Helgusel og Helguhóll eru talin vera nafn Helgu dóttur Bárðar Snæfellsáss en aðrir tengja nafnið kirkjujörðinni Mosfelli og að upphafleg merking væri hið helga sel. Þá geta þeir, sem glöggir eru, séð að hér í Helguhól er mikil byggð huldufólks.

Bærinn Bringur, sem stundum var nefndur Gullbringur, var byggður sem nýbýli úr landi Mosfells árið 1856 og mun hafa farið í eyði á sjöunda áratug síðustu aldar. Eins og þið sjáið hafa heimatúnin ekki verið víðfeðm en jörðin þótti ágæt sauðfjárjörð enda stutt í afréttarland á Mosfellsheiði. Til að tryggja heyforða sóttu Bringnabændur stundum í slægjuland á Mosfellsheiði. Frá Bringum er útsýni niður yfir Mosfellsdal niður með Köldukvísl, sem er landamerki jarðarinnar við Hraðastaði, allt til sjávar í Leiruvogi, en þar er friðlandið Varmárósar. Handan Köldukvíslar rís hæsta fjall bæjarfélagisns, Grímansfell og Helgufoss er rétt við túnjaðarinn.

Bringur var efsti bærinn í Mosfellsdal á æskuárum Halldórs Laxness hér í sveitinni. Í endurminningarbók sinni Í túninu heima lýsir hann heimsókn með móður sinni að Bringum, en þar segir: 

„Bringnakotið stóð hátt á bersvæði, berskjaldað fyrir vindum. Kálgarðurinn var steingerði utanum ekki neitt; hann hafði ekki einusinni verið stúnginn upp þegar við komum þangað í miðjum sólmánuði, en lá útafyrir sig, án tengsla við kotið. Smáfuglar bjuggu milli steina í garðhleðslunni, dilluðu stéli og súngu ákaft og fagurlega fyrir aungvu káli. Að því ég best vissi voru þá ekki kýr á bænum. Hér var enn eitt moldargólfið. Við sátum þarna óratíma og baðstofan fylltist af móreyk; kannski vorum við að bíða eftir kaffi? Ég er búinn að gleyma því; auk þess var ég of úngur til að drekka kaffi.”

Í seinni tíð hefur í auknum mæli verið bent á mikilvægi náttúrulegs umhverfis fyrir lýðheilsu manna. Augljóst er að við þurfum að gera átak í að hvetja fólk til útiveru og hreyfingar. Þar væri t.d. hægt að benda á hin fjölmörgu verndarsvæði sem friðlýst hafa verið, ýmist vegna sérstaks verndargildis lífríkis eða jarðmyndana og að þar gefist tækifæri á að fræðast um náttúru viðkomandi svæðisins. Hér í Mosfellsbæ hefur einmitt verið lögð áhersla á útivist almennings undanfarin ár. 

Þetta er stórt heilbrigðismál og þessu tengt eru læknar farnir að gefa sjúklingum „hreyfiseðil“ í staðinn fyrir „lyfseðil“ sem byggir á því að læknir metur einkenni og ástand einstaklings og ávísar síðan hreyfingu sem meðferð eða hluta af meðferð. Það má vel vera að í framtíðinni fái sjúklingar göngukort, líkt því sem Mosfellsbær hefur gefið út yfir gönguleiðir í bæjarfélaginu, í stað lyfseðils. 

Í dag bætum við enn einu svæði í flokk verndarsvæða þar sem áhersla er lögð á útivist í fallegu umhverfi þar sem almenningur getur notið náttúrulegs umhverfis. Svæði sem býr yfir náttúrufegurð, sögu um búsetu fyrri tíma og menningarminjum og er steinsnar fá þéttbýli höfuðborgarsvæðisins. Höfum í huga að friðlýsing er ekki boð og bönn, þvert á móti. Stofnun fólkvangs á einmitt að stuðla að aukinni útivist og bættu aðgengi fólks til að njóta og upplifa fegurð landsins. 

Ég óska Mosfellingum til hamingju með þennan áfanga og okkur öllum til hamingju með friðlýsinguna í dag og treysti því að stofnun fólkvangsins á Bringum verði núverandi kynslóð jafnt sem komandi kynslóðum til ánægju og framdráttar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum