Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. júní 2014 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Sjómannadagsræða ráðherra, 1. júní 2014

ATH: Talað orð gildir

SjómannadagsræðaÁgætu tilheyrendur – jafnt hér við Reykjavíkurhöfn og hlustendur útvarps

Ég vil byrja á því að óska sjómönnum öllum og fjölskyldum þeirra hjartanlega til hamingju með þennan hátíðardag íslenskra sjómanna.

Það er slétt ár síðan að ég tók við embætti  sjávarútvegsráðherra og eitt af mínum allra fyrstu embættisverkum var að koma hingað á þennan pall til að halda sjómannadagsræðu.

Ég viðurkenndi það þá - og örlög sín fær víst enginn flúið - að ég er að upplagi landkrabbi enda fæddur og uppalinn á Suðurlandi þar sem að fátt er um hafnir - en þeim mun meira af gróðurríkum bithögum og búsældarlegum túnum.

Og í þessum ræðustól fyrir réttu ári síðan hét ég því að við myndum vinna af alefli til að freista þess að ná breiðari sátt um þessa mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar en verið hefur.

Stundum er gott að koma að málum með ný augu – að vera ekki pikkfastur í átökum og orðaskaki fortíðar. Hættan við flókin úrlausnarefni er oft sú að umræðan getur sogast yfir í tæknileg útfærsluatriði - og fyrir vikið – við misst nauðsynlega yfirsýn. Þegar allt kemur til alls þá snýst spurningin um það hvernig við sem þjóð viljum stýra íslenskum sjávarútvegi fyrst og síðast um fá en einkar mikilvæg grundvallaratriði.

Ég hef allt frá fyrsta degi mínum í embætti lagt á það megináherslu að hlusta vel eftir sjónarmiðum allra þeirra sem eiga lífsafkomu sína undir sjávarútvegi. Ég hef heimsótt fjölda fyrirtækja hringinn í kringum landið, hlustað jafnt á sjónarmið útgerðarmanna, fiskvinnslufólks, almennings og sjómanna og  drukkið með þeim fleiri kaffibolla en tölu verður á komið.

Og eftir öll þessi samtöl - og alla þessa óteljandi tíu dropa - þá standa eftir fjögur atriði sem hvert og eitt gefa mér fullvissu um það að við sem þjóð eigum að geta fylkt okkur um öflugan sjávarútveg sem er í fararbroddi á heimsvísu  - og sem myndar eina allra mikilvægustu grunnstoðina undir öflugu velferðarsamfélagi hér á eyjunni okkar gjöfulu og fögru. 

Í fyrsta lagi þá er fjölbreytileikinn í íslenskum sjávarútvegi eftirsóknarverður í sjálfu sér. Við megum ekki glata þessum dýrmæta fjölbreytileika sem er eitt af megineinkennum íslensks sjávarútvegs og sitja fyrir vikið uppi með örfáar stórútgerðir. Kjölfestan í íslenskum sjávarútvegi hefur verið - og á að vera - fjölbreytt flóra fyrirtækja hringinn í kringum landið. Allt frá trillukörlum og –kerlingum, litlum bátaútgerðum – allt upp í öflug stórútgerðarfyrirtæki sem eru leiðandi í nýjustu tækni og teljast meðalstór á heimsvísu. Fegurðin og krafturinn liggur í fjölbreytileikanum og honum megum við ekki undir neinum kringumstæðum fórna.

Í annan stað vil ég nefna þá mögnuðu nýsköpun sem er að eiga sér stað í öllum kimum sjávarútvegsins hringinn í kringum landið. Þökk sé þessari öflugu nýsköpun og nýrri sóknarhugsun – að fyrir hennar tilstuðlan erum við að ná að stórauka verðmæti þess afla sem að berst á land. Það er ekki langt síðan að við héldum fund í húsakynnum Íslenska sjávarklasans undir yfirskriftinni 2 fyrir 1. Með öðrum orðum þá er það raunhæft markmið að við getum að minnsta kosti tvöfaldað verðmæti sjávaraflans án þess að auka veiðarnar – þökk sé tækniþróun, þróun í líftækni og fullvinnslu afurða. Það sem áður var skilgreint sem úrgangur er nú orðið dýrmætt hráefni í jafnt hátæknivörur til lækninga og verðmæts hráefnis í hátískuvörur. Það er kannski ekki úr vegi að tala um nýjan sjávarútveg.

Og fyrir vikið hefur sjávarútvegur og sjósókn alla burði til að vera eftirsóttur starfsvettvangur fyrir ungt og vel menntað fólk sem vill láta að sér kveða og fá fyrir það góð laun. Það á að vera eftirsóknarvert að vinna í sjávarútvegi.

Sjálfbær nýting og ábyrg hegðun er þriðja grunnstoðin. Við verðum ævinlega að umgangast sjávarauðlindina af virðingu. Sjórinn gefur – en hann getur líka tekið, eins og saga sjósóknar við Ísland geymir allt of mörg dæmi um.

Ég hef lagt á það mikla áherslu – rétt eins og forverar mínir í embætti sjávarútvegsráðherra – að við fylgjum vísindalegum ráðleggingum fiskifræðinga og leggjum okkur fram um að byggja upp sterka nytjastofna til framtíðar. Freistingin er alltaf fyrir hendi að slaka á kröfunum fyrir stundarhag – en við Íslendingar höfum sýnt það í verki að við höfum styrk í okkar beinum og staðfestu í huga til að standa pikkföst á okkar grundvallarsjónarmiðum.

En vissulega reynir stundum á – eins og til dæmis í alþjóðlegum samningum þjóða í milli. En fjöreggið er viðkvæmt og við Íslendingar tökum ekki þátt í öðrum samningum en þeim sem byggja á sjálfbærni, vísindalegri ráðgjöf og sanngirni.

Og þá er komið að fjórða atriðinu sem er svo þýðingarmikið fyrir öfluga sókn íslensks sjávarútvegs til framtíðar. Allt of lengi hefur það þvælst fyrir okkur Íslendingum að komast niður á sanngjarnar leikreglur varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Það er eflaust of-ætlan að halda að það sé til ein töfralausn sem að allir geti fylkt sér um. Ég er hins vegar fullviss um að þegar við skoðum málið af yfirvegun og sanngirni þá sé ekki það ginnungagap á milli fylkinga sem ætla mætti.

Frá því að ríkisstjórnin tók við stjórnartaumunum höfum við unnið hörðum höndum að því að koma fram með frumvarp um fiskveiðistjórnun – sem verður lagt fram á komandi hausti.

Það byggir á nokkrum einföldum og skýrum grundvallaratriðum sem ég ætla að flest okkar geti fylkt sér á bakvið.

Ég ætla að nánast allir séu sammála um það grunnatriði að fiskurinn í sjónum sé sameiginleg auðlind allrar þjóðarinnar. Á þessum grunni leggjum við til samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.

Ég er líka næsta viss um það að almenn sátt sé um það að sjávarútvegurinn skuli leggja sitt af mörkum til samfélagsins í formi sérstaks leigugjalds og gjalda sem að taki mið af afkomu greinarinnar. Áskorunin er að finna skurðarpunktinn hvað teljist rétt og eðlilegt.

Ég endurtek þá skoðun mína að við Íslendingar eigum að geta staðið saman um þá grundvallarhugsun sem að við viljum byggja fiskveiðistjórnunarkerfið á. Grunatriðin eru fá og skýr  -  og snúast um sanngirni og skynsemi.

En svo eru auðvitað fjölmörg úrlausnarefni sem snúast um útfærslur og ýmist gróf- eða fínpússningu á reglum – en til þeirrar vinnu skulum við ganga óverkkvíðin og með uppbrettar ermar.

Það er vor og bjartsýni í lofti - og það blakta fánar um borg og bæ til heiðurs íslenskum sjómönnum.

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum til hamingju með daginn, sjálfan sjómannadaginn.

Til hamingju sjómenn – þetta er ykkar dagur!

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum