Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. júlí 2014 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Landsmót 2014

ATH. Talað orð gildir.


Ágætu hestamenn, landsmótsgestir,

Gleðilega hátíð. Sjálfur er ég hestamaður og hlakka ávallt mikið til landsmóts, þetta er okkar veisla.  Að fá tækifæri til að rýna góð hross, vita betur en dómararnir og njóta samvista og útiveru með félögum er það sem einkennir þessa viku. Úrtökur undanfarinna vikna hafa verið geysisterkar, kynbótasýningar sem sögur fara af og ekki tilefni til annars en að mæta spennt til leiks.

Hestamennskan, sem íþrótt, nýtur vaxandi vinsælda. Ég þarf ekki að fjölyrða um gildi hennar fyrir okkur, sögulega, menningarlega eða til framtíðar. Því vil ég nota tækifærið hér og  hvetja til þess að við höldum heiðri hestamennskunnar á lofti. Að við hugum vel að ungviðinu og sköpum umhverfi sem er samkeppnishæft við aðrar íþróttir  sem börn stunda. Þar sem boðið er upp á reglulegar æfingar, leitast er við að skapa jöfn tækifæri fyrir alla sem vilja til að þroskast og hlúa að uppbyggingu sterkra íþróttamanna. Samkeppnin um tíma er mikil, en árangur til framtíðar felst í uppbyggingarstarfi nútíðar.

Hestamennska sem atvinnu- og útflutningsgrein felur í sér marga möguleika. Íslenski hesturinn er verðugur sendiherra og á að nýtast okkur sem slíkur. Því þurfum við að vera öflug í sölu- og markaðsmálum. Þar er mikilvægt að við komum fram sem ein heild. Hvort sem um er að ræða sölu á þekkingu, kynbótahrossum, keppnishrossum eða almennum reiðhestum. Markaðirnir eru stórir og líkurnar á árangri felast í sameiginlegri og öflugri sókn. Samstaða hestamanna og ólíkra félaga og sambanda hér innanlands leikur lykilhlutverk. Við þurfum að gæta að sameiginlegum hagsmunum okkar og nálgast samstarf og viðfangsefni með það að leiðarljósi. Ímynd greinarinnar hérlendis sem erlendis er mikilvæg. Við viljum við að hún vaxi sem atvinnu- og útflutningsgrein. Því er mikilvægt að starfsemin endurspeglist í hagtölum.

Velferð dýra hefur verið all nokkuð í umræðunni að undanförnu. Þar hafa málefni hrossa borið á góma, ef svo má að orði komast! Ég treysti því að hestamenn, fagmenn, umgangist hestinn okkar, félagann, af þeirri nærgætni og virðingu sem hann á skilið. Enginn ætti að nota búnað sem meiðir hestinn um það eiga allir hestamenn að vera sammála.  Höndin á að vera mjúk og hesturinn ganga heill frá sýningu. Það er ekki síður mikilvægt en ánægja knapa og áhorfenda.

Sjáumst í brekkunum!

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum