Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. ágúst 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við afhendingu landgræðsluverðlauna 2014

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp við afhendingu landgræðsluverðlaunanna 22. ágúst 2014.

Góðir gestir,

Það er mér mikil ánægja og heiður að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í Aratungu við afhendingu landgræðsluverðlaunanna. Það er mér ekki bara ánægja og heiður sem ráðherra umhverfis- og auðlindamála heldur ekki síður persónulega sem heimamanni hér í uppsveitum Árnessýslu. Hér í Biskupstungum er löng hefð fyrir hvers konar landbótastarfi. 

Viðurkenningar eins og landgræðsluverðlaunin eru veitt fyrir starf sem unnið er í þágu landgræðslu og þeir sem hljóta slíkar viðurkenningar eru þeir sem hafa með ósérhlífni, elju og útsjónarsemi unnið að því að bæta og vernda landið okkar. Það fyllir mann síðan aukaskammti af stolti þegar sveitungar manns eru þeir útvöldu, því margir eru til kallaðir en fáir útvaldir.

Náttúran - sem við byggjum afkomu okkar á - tekur breytingum og kannski hraðari breytingum en oft áður. Það getur falið í sér tækifæri fyrir okkur en það getur líka breytt forsendum fyrir okkar samfélag. Breytingar á náttúrunni sem tengjast loftslagsbreytingum eru háðar mikilli óvissu. Líklegt er að hitastig hækki hér á landi. Eins eru líkur á að vindafar og úrkoma breytist líka. Hugsanlega verða meiri öfgar í veðurfari. 

Það er mikilvægt að við, samhliða því að leggja okkar af mörkum til að draga úr losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda og að binda kolefni í gróðri og jarðvegi, lögum okkur að breyttum aðstæðum. Hluti af slíkri aðlögun er að reyna að sjá fyrir þær breytingar sem eru líklegar í okkar umhverfi. Við getum byggt upp okkar vistkerfi og aukið getu þeirra til að taka við áföllum, það er kallað þanþol vistkerfa. Þannig getur aukinn gróður varið jarðveginn og dregið úr hættu af völdum flóða. Kjarr og skógur getur dregið úr hættu á öskufoki. 

Þetta er svolítið svipað og gildir um okkur sem samfélag. Við þurfum að hafa þanþol til að takast á við hraðar breytingar í tækni þar sem vart má greina á milli hver er húsbóndinn - tæknin eða við. Við þurfum líka að auka og viðhalda þekkingu okkar á landinu og hvernig best er staðið að því að vernda það og bæta. Þar gegna landgræðslufélög og skólar og áhrifamiklar fyrirmyndir afar mikilvægu hlutverki. 

Góðir gestir, 
Við erum hér til að heiðra fólk sem hefur lagt á sig mikla vinnu við að vernda og bæta landið. Við höfum hér tvo menn sem hafa í gegnum tíðina unnið að landgræðsluverkefnum af ósérhlífni og hafa dregið vagninn í sínu samfélagi. Þeir eru fyrirmyndir ekki bara okkar sem eldri erum heldur unga fólksins, barnanna sem munu taka við landinu. Eiríkur og Þorfinnur ég óska ykkur báðum innilega til hamingju með landgræðsluverðlaunin. 

Við erum líka með fulltrúa fræðslu og þekkingar í röðum verðlaunahafa og það er vel við hæfi að það sé Stóru-Vogaskóli. Þar er löng hefð fyrir fræðslu og margþættu starfi á sviði hvers kyns landverndar í umhverfi sem mótað er af náttúruöflum, eldgosum, jarðskjálftum, veðráttunni og síðast og ekki síst hafinu. Það er áskorun að tengja unga fólkið okkar við landið sitt, að fara um það, snerta það og skilja hvernig með það er best farið. Stóru Vogaskóli hefur fetað þá braut af öryggi og vil ég óska skólanum innilega til hamingju með verðlaunin. 

Ágætu verðlaunahafar, þið eruð verðugir handhafar landgræðsluverðlaunanna og eruð okkur hinum hvatning til að feta sömu braut í þágu landsins okkar og vil ég að lokum enn og aftur óska ykkur innilega til hamingju. 
Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum