Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. ágúst 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Skipulagsdegi 2014

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf Skipulagsdags 2014 sem haldinn var á Grand Hóteli 29. ágúst 2014.


Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur, fulltrúa  sveitarfélaga landsins og samherja í skipulagsmálum. 

Nýtt kjörtímabil í sveitarstjórn er hafið og fulltrúar í nefndum og ráðum sveitarfélaga eru að hefja vinnu við mikilvæg verkefni eins og skipulagsmál sem er orðinn einn af grundvallarmálaflokkum  sveitarstjórna landsins. Nýjar áskoranir eru framundan og nýta þarf tækifærið til að hrinda í framkvæmd stefnumálum sem án efa miða að því að bæta lífsgæði íbúa og efla samfélagið þó menn geti greint á um leiðirnar að þeirri framtíðarsýn.  

Í dagskrá Skipulagsdags 2014 er kastljósinu beint sérstaklega að ábyrgð sveitarstjórna og skipulagsnefnda í skipulagsmálum, enda margir að koma nýir inn á þann vettvang. 

Eitt af fyrstu verkefnum nýrrar skipulagsnefndar og sveitarstjórnar er að taka ákvörðun um hvort endurskoða þurfi aðalskipulag sveitarfélagsins.  Aðalskipulagið er helsta stjórntæki sveitarstjórnar til að hrinda í framkvæmd stefnu sinni um byggðarþróun í sveitarfélaginu. Þar setur sveitarstjórn fram leiðarlýsingu fyrir þá vegferð sem hún óskar að þróun samfélagsins sé á og varðar leiðina með markmiðum svo ná megi settu marki. 

Ljóst er að kjörnir fulltrúar í skipulagsnefndum og sveitarstjórnum gegna mikilvægu hlutverki.Þeir bera ábyrgð á stefnumörkun aðalskipulagsins – að stefna aðalskipulags og byggðaþróun taki mið af þörfum íbúa og samfélagsins í heild  – að uppbygging sé í takt við þróun samfélagsins og stuðli um leið að sjálfbærri þróun, eða eins og segir í markmiðum skipulagslaga: „stuðli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggi vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og komi í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Það er því mikilvægt að fulltrúar sveitarstjórnar sem sinna skipulagsmálum hafi skýra framtíðarsýn og greini þróun mála þannig að ákvarðanir á hverjum tíma styðji við lífsgæði núverandi íbúa jafnt sem komandi kynslóða. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að tryggja framfylgd aðalskipulags við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlana sveitarfélaga. Sveitarstjórn getur þurft að leggja sig fram við að laða til sín íbúa eða fyrirtæki, sem falla vel inn í það púsluspil sem þarf að leggja, til að framtíðarsýn aðalskipulagsins nái fram að ganga. Það þýðir einnig að hafna getur þurft erindum sem ekki styðja við framtíðarstefnu sveitarfélagsins og til þess þarf pólitískan vilja, staðfestu og þor.  

Skipulagsfulltrúar, fagstofnanir og aðrir ráðgjafar eru skipulagsnefnd og sveitarstjórn til ráðgjafar við gerð skipulagsáætlana. Þessir aðilar þurfa að leggja fram greinagóðar upplýsingar og greiningu á erindum, til að auðvelda kjörnum fulltrúum að móta sína afstöðu og til að taka upplýstar ákvarðanir  í skipulagsmálum. 

Góðir áheyrendur, 

Í október síðastliðnum fól ég Skipulagsstofnun að hefja vinna við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 í samræmi við ákvæði skipulagslaga, en þar er kveðið á um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 12 ára, innan tveggja ára frá alþingiskosningum. 

Í landskipulagsstefnu er sett fram stefna í skipulagsmálum, með það að leiðarljósi, að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og að stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Landsskipulagsstefnunni er jafnframt ætlað að samþætta áætlanir ríkis og sveitarfélaga um landnotkun.

Ég hef lagt fyrir Skipulagsstofnun að í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 verði lögð áhersla á fjögur megin viðfangsefni, en þau eru: 
- Búsetumynstur og dreifing byggðar, 
- Skipulag landnotkunar í dreifbýli, 
- Skipulag haf- og strandsvæða og 
- Skipulag á miðhálendi Íslands en þegar landskipulagsstefnan tekur gildi mun hún taka yfir núgildandi svæðisskipulag miðhálendisins. 

Í landsskipulagsstefnu verður sett almenn stefna um framangreind viðfangsefni til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga en gert er ráð fyrir að landsskipulagsstefnu sé framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Í skýrslu Skipulagsstofnunar, Skipulagsmál á Íslandi 2014, lykilmælikvarðar og fyrirliggjandi áætlanir, sem gefin var út nú í ágúst, má auk þess finna upplýsingar um stöðu og þróun ýmissa forsenduþátta er varða skipulagsgerð og sem sveitarfélögin geta nýtt sér í forsendugreiningu fyrir endurskoðun á aðalskipulagi sínu. 

Farið verður nánar yfir stöðu vinnu við mótun landsskipulagsstefnunnar í erindi hér á eftir. Ég hvet sveitarfélögin til að setja sig vel inn í þá vinnu sem er í gangi og taka virkan þátt í samráðsvettvanginum sem boðið er upp á í skipulagsferlinu, þannig að sjónarmið þeirra hafi áhrif á mótun landsskipulagsstefnunnar. 

Ágætu fundargestir, 

Það bíða ykkar ýmsar áskoranir sem takast þarf á við í endurskoðun aðalskipulags en þær eru mismunandi eftir aðstæðum í sveitarfélögum landsins.  

Sem dæmi um áskoranir má nefna stefnumörkun og uppbyggingu vegna aukins fjölda ferðamanna, annars vegar fyrir sveitarfélög sem eru undir álagi vegna þessa og hins vegar sveitarfélög sem vilja byggja upp innviði og aðstæður til að laða til sín fleiri ferðamenn. Skipulag dreifbýlis er ein af stóru áskorunum í sumum sveitarfélögum þar sem mikilvægt er að tryggja að verðmætt landbúnaðarland verði ekki skert að óþörfu en um leið möguleika á uppbyggingu án tengsla við landbúnað með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Annað dæmi er skipulag þéttbýlis sem er þannig úr garði gert að uppbygging og samgöngur styðji hvort við annað og úr verði aðlaðandi bæjarumhverfi sem nýtist öllum í leik og starfi.

Hafa þarf ætíð í huga að skipulag mótar rammann um daglegt líf íbúa og aðstæður fyrir atvinnulífið. Það er því mikilvægt að skipulagsáætlanir séu unnar með virkri þátttöku íbúa og annarra hagsmunaaðila þannig að sem best samstaða og eignarhald skapist um stefnuna. Um þetta og fleira munið þið ræða í dag og skiptast á skoðunum um. Ég óska ykkur góðs samráðsfundar og góðs gengis í skipulagsmálum þegar heim er komið. 

Góðan Skipulagsdag 2014.
.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum