Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2014 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Byggðarannsóknir, atvinnumál og Teigskógur, grein í Morgunblaðinu 20. september 2014


Byggðarannsóknir, atvinnumál og Teigsskógur

Á Byggðaráðstefnu Íslands á Patreksfirði í gær voru áhugaverðar umræður um byggðamál. Þar fékk ég tækifæri til að kynna sérstakan byggðarannsóknarsjóð sem verður settur á laggirnar. Sjóðurinn mun hafa til ráðstöfunar allt að 10 milljónum króna á ári, næstu þrjú árin að minnsta kosti. Byggðarannsóknir hafa fram til þessa ekki verið fyrirferðarmiklar hér á landi. Þeir, sem stunda byggðarannsóknir, virðast ekki eiga greiðan aðgang að opinberum rannsóknarsjóðum og mjög fáar rannsóknir eru gerðar. Við vonumst til þess að öflugir rannsóknaraðilar sæki í sjóðinn og að rannsóknir styðji frekar við byggðastefnuna.

Nokkuð var rætt um atvinnumál og byggð og það hvort unnt sé að byggja upp öflugri vinnusóknarsvæði.  Í því fælist að skilgreina sérstaklega auðlindir og „hæfni“ hvers svæðis, ef svo má að orði komast. Þannig gæti til dæmis vinnusóknarsvæði Eyjafjarðar byggst upp á hæfni tengdri sjávarútvegi, Vestfjarða á fiskeldi, Austfjarða á skógrækt, höfuðborgarsvæðisins á alþjóðasamskiptum, svo dæmi séu tekin. Augljóst er að ólík hæfni dreifist áfram um landið, en svona mætti til dæmis skerpa áherslur stjórnsýslunnar.  Það er ekki líklegt til árangurs að dreifa störfum, einu eða fáum, vítt og breitt. Það er staðreynd að útibú, t.d., stofnana sem staðsettar eru víðsvegar um landið eru á tímum aðhalds, eins og hafa verið og eru fyrirsjáanlegir í ríkisrekstrinum, viðkvæmari fyrir niðurskurði en annað. Um það eru fjölmörg dæmi. Ég sé marga kosti í því að festa breiðari rætur stofnana á landsbyggðinni auk þess að samþætta og þétta í auknum mæli starfsemi starfsstöðva stofnana sem starfa vítt og breitt um landið. En það er ljóst að breytingar í þessa átt taka á.

Umræðu um byggðamál þarf að breikka. Ég tók til dæmis eftir því að stóru fjölmiðlarnir sáu sér ekki fært að mæta á fundinn, en þar fóru fram mikilvægar umræður um málaflokkinn, út frá sjónarhorni sveitastjórnafólks og landsbyggðarbúa. Sú athugasemd kom úr sal að líklegast orsakaðist fjarveran af því að fjölmiðlarnir eru allir í bænum! Framundan eru breytingar, sjávarútvegur er að breytast, landbúnaður er breytast og hefðbundin atvinna eins og við þekkjum í sveitum landsins að þróast. Við þurfum að fara í aukna svæðistengda stefnumótun og við þurfum að ræða málin út frá sjónarmiði okkar allra, enda snýst málið um okkur öll en ekki eingöngu þau hin.

Að lokum. Það var fyrir mikla hæfni flugmanna að það tókst að lenda á Bíldudal í gær eftir nokkrar tilraunir og ég og fleiri fengum tækifæri til að sitja þessa ágætu ráðstefnu. Ekki hefðum við tekið Breiðafjarðaferjuna, sem enn er ekki komin til landsins og landvegurinn er langur. Þráteflinu um Teigsskóg þarf að fara að ljúka!

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum