Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. nóvember 2014 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á stofnfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, 31. október 2014

ATH: Talað orð gildir

Ágætu fundargestir,

Í því merka blaði, Þjóðólfi, 22. nóvember 1848 er all nokkur hugvekja um landsins hagi. Þar segir meðal annars: Jeg spyr yður, sjávarbændur! er nú sjávarútvegur yðar orðin svo ágætur, sem unnt er? Geta vertíðirnar í veiðistöðunum ekki orðið arðmeiri? Tilvitnun lýkur.

Ég hygg að þróun veiða og vinnslu verði aldrei komin í endanlegt horf, þróunin er stöðug, endastöð í dag, er liðin tíð og úreld á morgun.  

Til hamingju með Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það hefur verið ykkar hlutskipti fram til þessa og verður til framtíðar, að auka hagsæld íbúa þessa lands með hagkvæmni og hugvitsemi í veiðum og vinnslu.

 Sjávarútvegurinn er öflugasta atvinnugreinin og í gegnum tíðina hefur hann aflað mestra þjóðartekna og stuðlað að atvinnu í bæ og borg. Yfirskrift fundarins í dag er "samkeppnisfærni fyrirtækja í sjávarútvegi".  Hana þarf réttilega að treysta. Samhliða því þarf að huga að öðrum þáttum.  Hér má nefna hlutverk sjávarútvegsins í að auka byggðafestu víða um land. Ábyrgðin er mikil og ber greininni skylda til að huga að samfélagslegri þátttöku sinni í því samhengi, ásamt því að hámarka tekjur þjóðarbúsins af nýtingu sameiginlegra auðlinda.

Ég hlakka til að eiga samstarf við ný samtök um það hvernig við getum horft til framtíðar. Hvernig við getum treyst atvinnu – beggja  kynja – með   verðmætum sérfræðistörfum og byggð um allt land. Og síðast en ekki síst verið öflug á alþjóðavettvangi.

Ég get minnt forsvarsmenn fyrirtækja í sjávarútvegi á ábyrgð, en í þeim efnum bera stjórnvöld líka sinn hlut. Og ekki síðri, því fyrirtækin feta þá leið sem stjórnvöld varða. Rekstraröryggi þarf að vera fyrir hendi. Nú erum við ansi nálægt frumvarpi sem ætlað er að skýra betur þau réttindi sem ráðstafað er til útgerða.

Við viljum tryggja fyrirsjáanleika með tilteknum afnotatíma og tekjur ríkisins af ráðstöfun réttinda.  Við viljum gegnsærri og aðgengilegri viðskipti með aflaheimildir.

Og við viljum að byggðasjónarmið séu höfð til hliðsjónar, án þess að fórna möguleikum til hagræðingar. Nú hugsa sjálfsagt margir; þetta er ósamrýmanlegt! Ég segi við ykkur, nei það er það ekki. Þið sem hér sitjið í dag þekkið vafalítið öll dæmi um pláss sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu. Þótt aðrar leiðir séu færar til að tryggja byggð, veit ég að þannig háttar sum staðar til, að fáar leiðir eru eins hentugar en að styðja við þá útgerð og vinnslu sem fyrir er.

En hver eru verkefni framtíðarinnar? Ég lofaði fundarboðendum að vera stuttorður svo nú þarf að stikla á stóru - tækifærin eru ógnarmörg en rétt þarf að spila úr.

En er ég rétti maðurinn til að greina tækifæri og kenna ykkur hvernig á að spila úr þeim? Nei, ég held ekki. Engin er betur til þess fallinn að greina þau og raungera, en samtök eins og þið hafið kosið að stofna hér í dag. Ykkar er þekkingin og áræðnin. Það voru ekki stjórnmálamenn sem fundu kolmunna, makríl og túnfisk. Og það voru heldur ekki stjórnmálamenn sem plægðu markaði í útlöndum. EN, hvernig geta stjórnvöld hvatt menn áfram og liðkað fyrir?

Þið þekkið verklega hlutann, stjórnmálamenn eiga að innleiða hvatann, án þess að missa sig algerlega í reglusetningu.

Í sameiningu ættum við að vinna að ímynd íslensks sjávarútvegs. Eitt af þeim atriðum sem veruleg áhrif getur haft á stöðu okkar og ímynd á alþjóðavettvangi er afstaða og framlag til umhverfisverndar. Hér gætum við kannski gert betur. Valhæfni veiðafæra eykst og þekking okkar á þeim einnig. Öflug íslensk tæknifyrirtæki hafa þróað lausnir sem bæði eru hagkvæmar umhverfi og fyrirtækjum. Hér er vel að verki staðið.

Fiskvinnslur hafa í auknum mæli „rafvæðst“ ef svo má að orði komast. Í stað olíu þá eru vinnslurnar drifnar áfram af rafmagni. Það er magnað að heyra og sjá hvernig þetta hefur þróast og vonandi bætast fleiri í hópinn.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér ákveðin markmið í orkuskiptum. Í sjávarútvegi er markmiðið það, að vistvænt eldsneyti verði 10% árið 2020.  Ágætu fundargestir, á árinu 2013 notuðu íslensk fiskiskip um 151 þúsund tonn af olíu. Af því voru 0,06% vistvænt eldsneyti.  Hér þarf að gera betur, miklu, MIKLU betur.  Enda er um brýnt umhverfis- og ímyndarmál atvinnugreinarinnar að ræða.

Nýlega úthlutaði innanríkisráðherra styrkjum til orkuskipta í skipum þar sem lögð er áhersla á notkun innlendra orkugjafa, vistvænt eldsneyti og minni notkun á jarðefnaeldsneyti. Þetta er viðbót við framtak einstakra útgerðafyrirtækja. Takist vel til má ætla að framboð og notkun á vistvænu eldsneyti aukist mjög á komandi árum.

Þá eru teikn á lofti um umhverfisvænni veiðar. Fréttir herma að sú endurnýjun sem á sér stað á hluta fiskiskipaflotans feli í sér að unnt sé að gera út með mun hagkvæmari hætti með tilliti til olíueyðslu. Um leið og ég fagna þessari þróun vil ég vekja athygli á því að löngu tímabærar fjárfestingar eru hafnar í sjávarútvegi á Íslandi. Við fögnum því að fyrirtæki í sjávarútvegi sjái tækifæri til þróunar. Það er á ný hagvöxtur á Íslandi. Og enn og aftur spilar sjávarútvegurinn stórt hlutverk í þeim efnum.

Við Íslendingar eigum þjóðaratvinnuveg, atvinnuveg sem í fyrra greiddi sannarlega sitt til samfélagsins; tæplega 25 milljarða í opinber gjöld, skapaði atvinnu og stuðlaði að nýsköpun.

Spurt var í upphafi, er nú sjávarútvegur yðar orðin svo ágætur, sem unnt er? Geta vertíðirnar í veiðistöðunum ekki orðið arðmeiri? Sjávarútvegurinn verður sennilega aldrei eins ágætur og unnt er, alltaf er hægt að gera betur. Og þið sem hér sitjið hér í dag, eruð sönnun þess.

Ég óska nýjum samtökum alls hins besta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum