Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. mars 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á Búnaðarþingi, 1. mars. 2015


Ágætu gestir. 

Ég vil byrja á því að þakka fyrir tækifærið til ávarpa Búnaðarþing 2015. Búnaðarþing er ekki síður nauðsynlegt mér en ykkur. Hér fara skoðanaskiptin fram, hér eru teknar ákvarðanir, hér takast menn á, hér gleðjast menn saman. Þótt bændur séu bændur, eru þeir ekki ein sál í einum líkama. Svo mikið þekki ég til bænda, bæði úr fyrrverandi starfi mínu sem dýralæknir, og ekki síður úr núverandi starfi, að ég veit að sitt sýnist hverjum. Öll hagsmunagæsla og barátta sem henni tengist miðast við þarfir einstaklinga.

En einstaklingarnir eru mismunandi og þarfirnar einnig, en að sjálfsögðu er það fleira sem sameinar ykkur en sundrar. Ég nefni þetta hér, því stutt er í að undirbúningur hefst við gerð nýrra búvörusamninga. Fyrir þjóð sem stærir sig af góðum og heilnæmum matvælum, er mikilvægt að vel takist til við gerð þeirra.

Enn og aftur vil ég minna á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að matvælaframleiðsla í landinu verði efld. Það stendur skýrum stöfum í stefnuyfirlýsingu. Í samræmi við hana hef ég ákveðið að skipa í starfshóp um aukna matvælaframleiðslu á Íslandi og verða skipunarbréf send út í þessari viku. Ég ætla þeim hópi að koma fram með tillögur sem geta nýst við gerð nýrra samninga, en ekki síður um eflingu matvælaframleiðslu og markaðssetningar til framtíðar.   

Nýir samningar, hvers má vænta:

Hvers má vænta í nýjum búvörusamningum, er spurning sem æ oftar er spurt. Og ekki að ástæðulausu. Ég hef nokkuð mótaða skoðun um það, en samningar eru samningar, ekki einhliða ákvörðun annars viðsemjanda. Vona nú samt að mín sjónarmið séu ekki of langt frá ykkar í þessum efnum. Alla vega vonast ég til þess að við getum sammælst um að nýir samningar verði breytinga- og sóknarsamningar.

Æskilegt er að nýir búvörusamningar styðji við landbúnað sem víðast á landinu. Þeir eiga hins vegar ekki að koma í veg fyrir  hagræðingu. Hún hefur orðið og á eftir að verða meiri. Bú eru að stækka og það er eðlileg þróun. En stærðin er ekki allt; sumir kjósa að hafa lítil bú, eða einfaldlega hafa ekki rými til að búa stórt. Að þeim verður einnig að huga. Hornsteinninn á að vera svo kallað fjölskyldubú og þau eiga að vera sem víðast um landið. Það á að vera markmið á hverjum tíma að landið sé allt í byggð.

Ég sé fyrir mér að við gerð nýrra búvörusamninga verði einn svo kallaður regnhlífar samningur fyrir allar greinar landbúnaðar og síðan verði kaflar fyrir hverja búgrein fyrir sig;  t.a.m. nautgripi, sauðfé, garðyrkju og síðast en ekki síst; geitur! Og samningar verði gerðir frá sama tíma og til jafn langs tíma. En eins og ykkur er vafalítið kunnugt, renna þeir nú út hver á sínu árinu. Hugsanlegt er að framlengja þá samninga sem þarf og láta alla nýja taka gildi 2017. Ég tel að lágmarks tími samninga sé 10 ár, jafnvel 15.

Bændur verða að fjárfesta og með því að gera samning til langs tíma, ef 10 til 15 ár eru þá langur tími, verður augljóslega auðveldara að ráðast í fjárfestingar. Það er ekki bara hagsmunamál bænda; afurðarstöðvar og kaupendur vörunnar ættu einnig hægara um vik að gera áætlanir ef framboðið er tryggt til lengri tíma, svo ekki sé talað um lánastofnanir.

Þá tel ég einnig að ákveðið hagræði sé að því, að ein samninganefnd komi fram fyrir hönd Bændasamtaka Íslands. Þannig verður samtalið milli ríkisins og bænda markvissara og fljótlegra og sameiginlegur skilningur ríkir um sameiginleg mál. Að sjálfsögðu er ekki hugmyndin að dregið verði úr aðkomu búgreinasambandanna, og tryggja verður þeim aðgang og samráð við samninganefnd BÍ.

Ég tel eðlilegt að byggja áfram á þeim tveim meginstoðum sem hafa verið í styrkjakerfi landbúnaðarins. Beingreiðslukerfi og tollvernd. En sennilega er tímabært að endurskoða beingreiðslukerfið, með það fyrir augum að stuðningurinn nýtist betur, þeim sem framleiða, skjóti styrkari stoðum undir það sem kallast fjölskyldubú og er til þess fallið að auka byggðafestu.

Sumir kúabændur, til dæmis, sem eiga mjólkurkvóta, vilja ekki eða geta ekki, framleitt meiri mjólk. Fyrir því geta að sjálfsögðu verið margar ástæður. Aðrir vilja og geta framleitt meira. Hvernig á að bregðast við þessari stöðu? Það er að segja, gera þeim kleift að framleiða meira, sem það geta, án þess að það bitni á þeim sem vilja halda í horfinu, eða jafnvel draga úr framleiðslu.

Er heppilegasta leiðin að skipta greiðslum eftir því fyrirkomulagi sem nú er, eða ættum við að huga að öðrum leiðum? Sumir vilja enga breytingu, aðrir segja sem svo; af hverju er ekki einfaldlega greitt fyrir alla framleiðslu? Eru einhver rök fyrir því fyrirkomulagi sem við höfum, þegar vantar mjólk?

Ég tel að rökin fyrir núverandi fyrirkomulagi í mjólkinni, séu að nokkru leyti barn síns tíma og huga verði að öðru fyrirkomulagi og draga úr vægi kvótaeignar þegar kemur að framleiðslu á mjólk. Til dæmis með því að auka gripagreiðslur. Breytingar þurfa þó að gerast á löngum tíma, en ég tel rétt að fara að hefja verkið. Þá tel ég einnig rétt að sett verði hámark á stuðning sem einstaka bú getur fengið af heildarstuðningnum.

Á það hefur verið bent að í ræktuðu landi felast mikil verðmæti. Án þess verður engin framleiðsla, hvorki kjöt eða mjólk. Einn af þeim þáttum sem ég sé fyrir mér að við verðum að ræða, er að styrkir hins opinbera verði að einhverjum hluta greiddir út á ræktað land, en ekki framleiðslu. Að sjálfsögðu ekki hvaða land sem er heldur nytjað ræktarland þar sem einhvers konar framleiðsla á sér stað.

Með því myndu afskipti hins opinbera af framleiðslunni sjálfri minnka. Hægt er að benda á, að kornrækt hér á landi hefur verið að taka við sér á undanförnum árum og ef svo fer fram sem horfir, mun hún aukast enn frekar. Þarna eru að mínu mati sóknarfæri.  

Þá vil ég einnig að hugað verði sérstaklega að því í nýjum samningum, að tryggt verði að aðilaskipti, eða kynslóðaskipti geti orðið að jörðum svo ábúð og framleiðsla leggist ekki af. Einnig að Framleiðnisjóður verði efldur til að auka nýsköpun í sveitum.  

Þótt hér hafi verið nefndar leiðir til breytinga á stuðningi, sem ættu að leiða til þess að styrkirnir skiluðu sér betur til frumframleiðenda, verður að tryggja að þeir sem fjárfest hafa miðað við núverandi kerfi haldi sínum rekstrargrundvelli. Það verða vonandi breytingar til góða, en engar kollsteypur.  

Tollar: 

Þótt stundum megi skilja á opinberri umræðu að tollar séu sér íslenskt fyrirbæri, þá fer því órafjarri. Nánast öll lönd verja sína matvælaframleiðslu. Hugmyndir um að réttast væri að lækka tolla einhliða eru sérstakar. Á hinn bóginn er ekkert að því að semja um lægri tolla í gagnkvæmum samningum. Í viðræðum sem staðið hafa yfir við Evrópusambandið höfum við lagt áherslu á, að útflutningur héðan hefur engin áhrif á markaðinn ytra. En kíló fyrir kíló, er það sem evrópusambandið vill hafa sem viðmiðun. Það þykir mér ósanngjarnt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Á Íslandi búa 330 þúsund manns, 500 milljónir búa í Evrópusambandinu. Nokkrar viðbótar skyrdollur héðan myndu varla setja sambandið á hliðina. Í þessu samhengi má til dæmis nefna, að Svisslendingar sætta sig við hlutfallslega meiri innflutning frá Íslandi, en frá Sviss til Íslands, vegna mismunandi stærðar markaða.

Þetta er ekkert flókið fyrir þá sem vilja skilja; það er ekkert gefið í samskiptum ríkja, ríki gera ekki hvert öðru greiða þegar viðskiptahagsmunir eru annars vegar. Það útilokar þó ekki að liðkað sé fyrir innflutningi. Eins og áður hefur komið fram er unnið að því að fá fulltrúa ESB að samningaborðinu, en í tvígang hefur Evrópusambandið frestað því að mæta til viðræðna, fyrst í haust svo í febrúar. Það er því ekki við íslensk stjórnvöld að sakast að ekki hafi náðst gagnkvæmir samningar um aukin inn- og útflutning á landbúnaðarvörum.

Ágætu fundarmenn.

Matvælaframleiðsla á Íslandi á framtíðina fyrir sér. Á komandi misserum munum við reyna að móta þá framtíð. Ég mun ganga með opinn huga til þess verks. Megin verkefnið er að tryggja stöðu bænda og neytenda, auka framleiðslu og með því auka byggðafestu og farsæld í landinu. Megi Búnaðarþing 2015 verða ykkur drjúgt.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum