Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. apríl 2015 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ávarp á ársfundi Orkustofnunar, 10. apríl 2015

ATH: Talað orð gildir 

Orkumálastjóri og aðrir góðir gestir.

Það er ánægjulegt að vera hér með ykkur í dag á ársfundi Orkustofnunar á þessum bjarta vordegi.

Orkustofnun er kjölfesta stjórnsýslu á sviði orkumála og mig langar strax í upphafi fá að þakka orkumálastjóra og hans góða starfsfólki fyrir afar farsælt og gott samstarf við ráðuneytið undanfarin ár.

Orkuöryggi er lykilorð þegar kemur að umræðu um orkumál og mig langar í ávarpi mínu að leggja aðeins út frá því hugtaki hér í dag. Að búa við viðunandi orkuöryggi er ákveðin grundvallar forsenda í nútímaþjóðfélagi, eitthvað sem við tökum kannski ekki eftir í daglegu lífi okkar, og tökum því sem gefnum hlut.

Orkuöryggi felst meðal annars í tryggu orkuframboði og afhendingaröryggi raforku. Í samanburði við aðrar þjóðir höfum við Íslendingar verið tiltölulega lánsöm þegar kemur að orkuöryggi, sérstaklega að því er varðar raforkuframleiðslu og húshitun.

Afhendingaröryggi raforku er hins vegar ábótavant víða á Íslandi og hefur sá vandi farið vaxandi undanfarin ár og mun halda áfram að vaxa ef ekkert er að gert.

Við þessu höfum við reynt að bregðast með tveimur þingmálum í vetur. Annars vegar frumvarpi til laga um kerfisáætlun sem kveður skýrt á um stöðu og mikilvægi kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Hitt þingmálið er tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Bæði málin bíða nú loka umræðu í þinginu og ég er því vongóð um að þau verði afgreidd  fyrir sumarhlé Alþingis.

Með þeim er brugðist við ákalli um úrbætur í því regluverki sem snýr að uppbyggingu á flutningskerfi raforku og lögð fram skýr sýn stjórnvalda um nauðsyn þess að efla afhendingaröryggi raforku á landsvísu með virkri og uppbyggilegri aðkomu hlutaðeigandi aðila.

En orkuöryggið liggur víðar en í flutningskerfinu raforku.

Þau skref sem tekin hafa verið í hita- og rafveituvæðingu Íslands undanfarna áratugi, voru mikil gæfuspor sem hafa skilað landinu orkuöryggi, þjóðhagslegum sparnaði og hreinni orkunýtingu. Í raun er þetta munaður sem ekki fyrirfinnst víða. Evrópuríki eru sum hver alfarið háð framboði af innfluttu gasi frá átakasvæðum austar í álfunni og eru því á vissan hátt berskjölduð. Að vera öðrum háður um orkuöflun felur í sér efnahagslega og pólitíska áhættu, og því leggur Evrópusambandið nú kapp á að auka orkuöryggi innan sambandsins með nýrri stefnumótun.

Þrátt fyrir að við búum svo vel að vera nánast óháð olíu hvað varðar raforkuframleiðslu og húshitun erum við engu að síður nánast alfarið háð innflutningi á olíu á sviði samgangna og sjávarútvegs. Þar erum við háð sveiflum í framboði og olíuverði eins og við fáum reglulega að kynnast. Aukið orkuöryggi, eitt og sér, er því nægjanlegt tilefni til að róa að því öllum árum að draga sem mest úr notkun innflutts jarðefnaeldsneytis.

En það eru einnig aðrar og ekki síður mikilvægari ástæður sem knýja á um orkuskipti, bæði í samgöngum og almennt. Fyrst og fremst eru augljósar umhverfislegar ástæður en fleira má nefna.

Ávinningur er fólginn í því að byggja upp nýja atvinnugrein; innlendan umhverfisvænan eldsneytisiðnað, sem hefur í för með sér fjölgun starfa með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Hér er um iðnað að ræða sem gæti annað innlendri eftirspurn og verið ný útflutningsafurð. Að samgöngur okkar verði að stórum hluta knúnar af innlendum orkugjöfum, og að hér byggist upp þekking og nýsköpun á þessu sviði, er verðugt markmið að stefna að.

Augljós þjóðhagslegur ávinningur er fólginn í því að spara gjaldeyri með innlendri orkunýtingu sem annars færi í kaup á innfluttu jarðefnaeldsneyti. Stór hluti utanríkisviðskipta Íslendinga er fólginn í kaupum á innfluttu eldsneyti, eða um einn fimmti hluti innflutningsverðmæta. Hér er því til mikils að vinna.

Nú eru fjögur ár síðan Alþingi ályktaði um orkuskipti í samgöngum og fól stjórnvöldum að draga úr hlut jarðefnaeldsneytis með notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Í ályktuninni var sett það markmið að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa skyldi vera orðin 10% árið 2020.

Á þessum tímamótum er vert að skoða árangur starfsins og hversu vel okkur miðar áfram með orkuskiptin. Fyrr í vetur óskaði ég eftir því að unnin yrði, í samstarfi við Orkustofnun og samstarfsvettvang um Grænu orkuna, áfangaskýrsla þar sem litið er yfir farinn veg og hvernig til hefur tekist að fylgja eftir áætlun um orkuskipti í samgöngum. Mun ég á næstu dögum leggja þá skýrslu fyrir Alþingi til kynningar og umfjöllunar. Í kjölfarið hef ég síðan í hyggju að leggja fram á Alþingi í haust nýja aðgerðaráætlun um orkuskipti, til næstu ára, sem tryggir að við höldum áfram með markvissum skrefum á þessari braut.

Annar vinkill á orkuöryggi er jafnt aðgengi landsmanna að orku, óháð búsetu. Á þeim vettvangi hafa stjórnvöld nýlega gripið til tveggja aðgerða. Annars vegar að tryggja fulla jöfnun á þeim kostnaðarmun sem er á dreifingu á raforku í dreifbýli og í þéttbýli, en frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í síðasta mánuði. Hins vegar er það frumvarp til laga sem ég lagði nýverið fram á Alþingi og kveður á um fulla niðurgreiðslu kostnaðar vegna flutnings og dreifingu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á að hita það með jarðvarma. En eins og kunnugt er er húshitunarkostnaður mun hærri hjá þeim 10% landsmanna sem þurfa að notast við rafhitun til hitunar íbúðarhúsnæðis og hefur þessi munur farið vaxandi undanfarin ár.

Með þessum tveimur aðgerðum er því stigið stórt skref í að leggja lokahönd á að jafna orkukostnað eftir landsvæðum og tryggja þannig jöfn búsetuskilyrði og jöfn tækifæri til atvinnuuppbyggingar um allt land.

Kæru gestir,

Ég nefndi hér áðan orkuskipti í samgöngum og mikilvægi þess að draga úr notkun og innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Einhverjir kunna að spyrja hvort  sé ég að taka undir þá 180 gráðu beygju sem Samfylkingin tók nýlega að því er varðar leit að olíu og gasi innan íslenskrar efnahagslögsögu. Það er að segja, hvort ekki sé bara betra að láta þessa auðlind liggja áfram undir hafsbotni, ef hana er þá á annað borð að finna þar.

Svarið mitt við þeirri spurningu er nei. Ég tel ekki skynsamlegt eða forsvaranlegt að við skiptum um hest í miðri á og gefum þau skilaboð að við séum hætt við olíuleit á Drekasvæðinu.

Þrátt fyrir að rök séu til þess að draga til lengri tíma úr notkun jarðefnaeldsneytis, og skipta yfir í vistvænni orkugjafa, verðum við að vera raunsæ á að slík breyting gerist ekki yfir nótt. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að til eru mun skaðlegri orkugjafar en olía og gas, út frá umhverfislegu tilliti, og má þar t.d. nefna kol.

Við skulum hafa í huga að þau sérleyfi sem íslensk stjórnvöld hafa gefið út á Drekasvæðinu eru bæði leitar- og vinnsluleyfi, þ.e. ekki bara leyfi til að leita á viðkomandi svæði heldur einnig leyfi til að vinna og nýta þá olíu eða gas sem viðkomandi leyfishafi kann að finna þar. Öll áhættan er hjá leyfishöfunum og hafa þeir þegar lagt út í mikinn kostnað og eiga eftir að leggja út í frekari kostnað á næstu árum. Fari svo að olía eða gas finnist í vinnanlegu magni innan svæðisins segir það sig sjálft að íslenska ríkið yrði skaðabótaskylt ef svipta ætti þessi aðila því nýtingarleyfi sem þeim var veitt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég tel það því mikið ábyrgðarleysi að tala á þessum nótum og í alla staði skaðlegt fyrir hagsmuni Íslands og það umhverfi sem við erum að reyna að byggja hér upp um stöðugleika og fyrirsjáanleika.

Kæru gestir,

Ég vil að lokum nefna að síðar í þessum mánuði held ég, ásamt fríðu föruneyti íslenskra fyrirtækja og sérfræðinga, á heimsþing alþjóða jarðhitasambandsins í Melbourne í Ástralíu („World Geothermal Congress“), þar sem við munum kynna það sem Ísland hefur fram að færa á sviði jarðvarma og jarðvarmanýtingar.

Við höfum náð langt í vinnslu þessarar dýrmætu auðlindar, en hana er vissulega ekki eingöngu að finna hér á landi. Jarðhiti er nýttur í mörgum löndum, bæði til raforkuframleiðslu og til húshitunar. Við myndum gjarnan vilja veg jarðhitans meiri og höfum beina hagsmuni af því að koma jarðhitanum á heimskortið þannig að horft verði á nýtingu jarðhita sem vænlegs kosts í stað annarra óumhverfisvænni orkugjafa.

Ég hef oft rekið mig á það þegar ég ræði við erlenda kollega mína að þekking á nýtingu jarðhita virðist ekki hafa skilað sér til þeirra sem stýra stefnumótun og þeirra sem taka mikilvægustu ákvarðanirnar þegar kemur að uppbyggingu nýrra orkukosta og því verður jarðhitinn oft útundan þegar leitað er leiða til að skipta yfir í umhverfisvænni kosti.

Liður í því að koma jarðvarmanum á framfæri til þeirra sem taka ákvarðanir var fundur sem ráðuneytið stóð fyrir í Brussel síðastliðið ár, í samvinnu við framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB. Markmið fundarins var að kynna möguleika jarðhitanýtingar innan Evrópu og hvað betur megi fara. Ég tel að vel hafi til tekist og á fundinum var meðal annars rætt um fjármögnun jarðhitaverkefna og þá sérstöðu sem þeir sem fjármagna slík verkefni standa frammi fyrir varðandi áhættu á fyrstu stigum.

Fjöldi íslenskra jarðvísindamanna og íslenskra fyrirtækja sækja jarðhita heimsþingið í Ástralíu síðar í mánuðinum – og fjölmargir þeirra vísindamanna eru höfundar erinda sem þar verða flutt. Sýnir það glögglega þann sess sem Ísland á í jarðhitaheiminum.

Heimsþing þessi, sem haldin eru á fimm ára fresti, hafa verið kölluð „ólympíuleikar jarðhitans“, þar sem á þeim koma saman allir helstu jarðhitasérfræðingar heimsins en líka aðrir sem kom að jarðhitaverkefnum; eins og framleiðendur tæknibúnaðar, fulltrúar fjármálastofnana og fulltrúar stjórnvalda þeirra ríkja sem búa yfir jarðhita.

Og Íslendingar verða að sjálfsögðu áberandi á ráðstefnunni, því í heimi jarðhitans má segja að þar séum við ein  af stóru þjóðunum. Okkur þykir mikið til þess koma því það er ekki oft sem við getum státað okkur af því að vera í hópi þeirra stóru.

Það er eftirsóknarvert að fá að halda ráðstefnu sem þessa og hjá Alþjóða jarðhitasambandinu fer fram formleg kosning milli þeirra landa sem sækja um að halda ráðstefnuna. Næsta heimsþing fer fram árið 2020. Ísland sótti í fyrra um að halda þá ráðstefnu og í lokaumferð kosninganna stóð valið á milli Íslands og Þýskalands og þar hafði Ísland betur.

Það er því mikið ánægjuefni fyrir okkur að kynna að eftir fimm ár verður þetta stóra alþjóðlega jarðhita-heimsþing („World Geothermal Congress“) haldið hér á landi. Verður þetta ein umfangsmesta ráðstefna sem haldin hefur verið á Íslandi og er undirbúningur þegar hafinn. Það verður talsverð áskorun að halda þessa alþjóðlegu ráðstefnu hér á landi og styðja stjórnvöld heilshugar við þetta framtak. Að sama skapi getur uppskeran orðið ríkuleg ef vel mun takast til og er ég sannfærð um að svo verður.

En kæru gestir,

Tímans vegna hef ég ekki tæklifæri til að ræða öll þau mikilvægu mál sem eru dags daglega á mínu skrifborði, eins og t.d. Rammaáætlun. Við gætum rætt hana hér langt fram á kvöld, enda hefur Orkustofnun þar afar mikilvægu hlutverki að gegna. Við látum það bíða betri tíma og ég tel rétt að láta hér staðar numið.

Ég vil að endingu aftur þakka starfsfólki Orkustofnunar fyrir afar traust og gott samstarf.

Það eru spennandi tímar framundan og þar stólum við, nú sem áður, á áframhaldandi farsælt samstarf við Orkustofnun og ég hlakka til að heyra boðskapinn á þessum fundi hér í dag.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum