Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. maí 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða flutt á ráðstefnunni "Matvælalandið Ísland", 21. maí 2015



Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir

Ég hef haldið því fram í ræðu og riti, bæði áður og eftir að ég varð ráðherra, að íslenskur matur og framleiðsla hans eigi sér bjarta framtíð. Það hef ég meðal annars byggt á spám um fólksfjölda og kaupgetu fólks á komandi árum og áratugum. Allir þurfa að borða og því þarf að framleiða meira af mat en nú er gert.  Þetta tækifæri eigum við að grípa og notfæra.

Okkur hefur gengið vel í markaðssetningu á sjávarafurðum og erum þar fremst meðal jafningja. En það er sífellt sótt að þeim sem vel gengur. Hér á landi er sú sjálfsagða krafa uppi, að sjávarútvegurinn greiði eðlileg gjöld fyrir aðgang að auðlindinni. En á sama tíma verður að huga að þeirri stöðu sem hann er í á alþjóðlegum markaði.

Á kyningarfundi sem ég sat á vegum norskra stjórnvalda í Bergen í vikunni, kom fram að Norðmenn hafa árlega úr átta milljörðum að spila þegar kemur að sameiginlegri markaðssetningu á sjávarfangi. Við eigum í harðri samkeppni við Norðmenn og því verður að fara varlega í að veikja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Ef sölusamtök og fyrirtæki í sjávarútvegi hrökklast af góðum markaði, munu allir tapa.  

Betur má ef duga skal í landbúnaðarvörum og verkefni eins og Matvælalandið Ísland er mikilvægur áfangi á þeirri leið. Stjórnvöld víðast hvar í heiminum, ekki bara í Noregi, taka þátt í markaðssetningu á framleiðslu sinna landa. Og þess má geta að fram kom á fundinum í Bergen, að norsk fyrirtæki og samtök notfæra sér út í hörgul ferðalög ráðamanna til útlanda, ekki síst konungborinna, til að koma sínum afurðum í kastljósið. Enda útflutningur og verslun á alþjóðlegum markaði hverju landi mikilvæg.

Aukin útflutningur á íslenskum matvælum, sem tengist ímynd landsins, getur treyst stoðir efnahagslegrar hagsældar. Og það virðast fleiri hafa áttað sig á því. Arla er fyrirtæki í Svíþjóð, um hundrað sinnum stærra en Mjólkursamsalan. Það hefur nú komið auga á verðmætin sem liggja í íslensku skyri. Þeir skyrrast ekki við að segja skyrið sem þeir selja vera íslenskt.

Markaðsstjóri MS segir það ekki satt. Einnig kemur fram í máli hans að Arla hafi varið sem svarar einum milljarði króna í auglýsingaherferð á „íslensku skyri“. Ef eitt fyrirtæki er tilbúið að verja þessari upphæð í að auglýsa skyr, þá hljóta að felast í því gríðarleg verðmæti. Og fyrirgefið mér þótt ég dragi Noreg enn í umræðuna; en í nýrri stórglæsilegri sundhöll Bergen búa mátti sjá flenni stóra auglýsingu um SKYR, sem væri frábær biti milli mála.

Á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn í fyrri viku var kynnt minnisblað þar sem lagt er til að ríkisstjórnin samþykki að leggja árlega 80 milljónir króna í fimm ár í verkefnið „Matvælalandið Ísland“. Umsjón verkefnisins verður í höndum Íslandsstofu, en Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Utanríkisráðuneytið munu einnig koma að því. Samtals er upphæðin 400 milljónir króna á fimm árum. Þótt upphæðin sé vissulega há, er hún þó ekki nema 40% af þeirri sem Arla er tilbúið að verja í auglýsingu á einni vöru frá Íslandi. Það er umhugsunarefni.   

Á tímum þar sem ferðamönnum fjölgar dag frá degi, er skynsamlegt að hlusta eftir rödd þeirra sem starfa í grasrótinni og hafa tilfinningu fyrir því hvað það er sem útlendingarnir eru að sækjast eftir. Fyrir skömmu var rætt við veitingamanninn á Þremur frökkum í sjónvarpsfréttum, þar sem umræðan snerist um veitingastaði og útlendinga; „fólk vill sjá íslenskt!“ sagði hann. Það felast verðmæti í því að geta sagt að matvara sé „íslensk“. Ég treysti aðstandendum Matvælalandsins til að koma þeim verðmætum áleiðis.

Svona ráðstefna er liður í viðleitni til að auka veg íslenskra matvæla. En fjölmargt meira þarf að koma til og ég er ekki maðurinn til að segja ykkur hvað þið eigið að gera. Þið þekkið betur til þessara hluta en nokkur annar. Mig langar hins vegar að nefna tvennt sem ég tel að hafa verði í huga. Hið fyrra er samvinna og hið síðara er áreiðanleiki. Ég skal útskýra stuttlega hvað ég á við.

Þegar kemur að matvælum eru íslensk fyrirtæki flest að selja sömu söguna, ef svo má að orði komast. Þau eru að selja ímyndina; hreint land, hreint vatn, hreint loft og tær Norður-Atlantshafs sjórinn. Til að þetta gangi upp verður að vera einhvers konar samvinna, eða samræmi, um það hvernig beri að selja söguna. Það gengur ekki upp að bóndinn eða sjómaðurinn, einn og sér, sé að vanda sig, ef meðferð hráefnisins er lakari þegar það er komið í vinnslu. Það verða allir að vinna sameiginlega að því að varan sem verið er að selja, styrki ímyndina, en veiki hana ekki. Samtal um þetta verður að eiga sér stað og Matvælalandið er líklega rétti vettvangurinn til að samræma vinnuna.  

Áreiðanleiki snýst um það að allir sem eru hlekkir í virðiskeðjunni verða að geta treyst hvorir á aðra og þar með kaupandinn seljandanum. Treyst því að það sem sagt er standist, varan sé sú sem hún á að vera og uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Og ekki síður að hún sé afhent á þeim tíma sem um var samið. Umsvifamikill fiskkaupmaður í Grimsby sagði að þrjár reglur væru mikilvægastar í sínum rekstri; verð, gæði, afhendingaröryggi – EN- ekki í þessari röð, afhendingaröryggi kæmi í fyrsta sæti. Án þess væri vonlaust að eiga í samskiptum við smásala.   

Kæru fundargestir.

Ég vona að Matvælalandið verði sameiginlegur vettvangur allra þeirra sem vilja vinna að sameiginlegum hagsmunum vegna framleiðslu og útflutnings á mat frá Íslandi. Samþykkt ríkisstjórnarinnar í fyrri viku er lóð á vogarskálarnar, en það eru þið sem munu láta þetta gerast. Ég óska ykkur góðrar ráðstefnu.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum