Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2015 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ræða á Ferðamálaþingi, 28. okt. 2015

ATH: Talað orð gildir


Ferðamálastjóri, góðir fundarmenn,


Fyrst vil ég byrja á að þakka fyrir það boð að fá að ávarpa Ferðamálaþing 2015 hér á Akureyri og  óska ferðamálastjóra og starfsfólki Ferðamálastofu til hamingju með daginn.

Ferðaþjónustan er afar gefandi og skemmtileg. Og það er gaman að fá að vera þátttakandi á þeim tímum sem hún stendur á núna. Enn eitt árið hefur ferðaþjónustan blómstrað og vaxið umfram væntingar. Í þessum mánuði brutum við milljón gesta múrinn og áframhaldandi tugprósenta fjölgun er fyrirséð næstu mánuði og misseri – mun lengra fram í tímann en við getum spáð með mikilli nákvæmni.

Ferðaþjónustan hefur verið megin drifkraftur hagvaxtar hérlendis síðan 2011 og skapað þúsundir nýrra starfa. Í ár gerum við ráð fyrir að ferðaþjónustan skili í kringum 350 milljörðum króna inn í þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna og ef okkur tekst rétt upp og vel á næstu árum gætum við verið að sjá þessa tölu margfaldast á næstu áratugum. Okkur verður því að takast vel til með þetta verkefni á þeirri vegferð sem framundan er.

Það hefur tekist afar vel til á undanförnum árum að dreifa ferðamönnum betur yfir árið. Þetta sjáum við glöggt í því að aukningin utan háannar mælist margfalt meiri en yfir háönnina sjálfa og var til að mynda tæp 40% í september og hefur aldrei fyrr mælst svo mikil í þeim mánuði.

Við erum einnig að fá jákvæð tíðindi sem snerta dreifinguna um landið. Fengum nýverið  fregnir t.a.m. af því að breska ferðaskrifstofan Discover the World hyggist fljúga allt næsta sumar tvisvar í viku beint milli Egilsstaða og London. Það er gleðiefni og vonandi sjáum við frekari árangur í þeim efnum og helst allt árið um kring, ekki síst hér á Akureyri.

Kæru fundarmenn.

Við vitum öll að þessari velgengni fylgja fjölmargar áskoranir og þrátt fyrir góðan vilja hefur okkur ekki tekist á undanförnum árum að halda í við vöxtinn, byggja upp innviði og tryggja að stjórnkerfið vinni í takt og að áætlanagerð okkar sé í samræmi við þennan nýja veruleika.

Það var því löngu orðið tímabært að fara í markvissa vinnu við gerð stefnumótunar fyrir íslenska ferðaþjónustu, enda eru hagsmunirnir gríðarlegir, ekki bara þjóðhagslegir heldur líka fyrir allar byggðir landsins. Það er mikið rætt um byggðamál á hátíðarstundum en ég vil halda því fram að ferðaþjónustan er stærsta byggðamálið á Íslandi og þar er að finna stærstu tækifærin í jákvæðri byggðaþróun og betri byggðastefnu með vexti og viðgangi ferðaþjónustunnar.

Afrakstur þessarar miklu vinnu, nýjan Vegvísi í ferðaþjónustu, kynnti ég nýverið  ásamt formanni Samtaka ferðaþjónustunnar. við höfum unnið að þessu í kringum eitt ár með þátttöku um 1.000 manns á yfir 50 fundum um allt land. Það er því víðtækt eignarhald á þeim stefnumálum sem fram koma í Vegvísi og raunar mikil samhljómur um hann innan ferðaþjónustunnar – enda lögðum við okkur fram um að láta stefnumótunina endurspegla það sem við vorum að hlusta eftir í vinnunni í gegnum allt ferlið.

Ég vil leyfa mér að segja að hér sé um nokkur tímamót að ræða.

Ein af stóru tíðindunum eru án efa það samkomulag sem ríkisstjórnin, Samtök ferðaþjónustunnar og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu með sér um að efla ferðaþjónustuna á Íslandi á næstu fimm árum. Sveitarfélögin voru ekki með okkur í stefnumótunarvinnunni frá upphafi, en við sáum það fljótt að án þeirra og samvinnu í þessum málaflokki myndum við ekki komast neitt áfram. Þannig að í vinnuferlinu tókum við sveitarfélögin að okkur og hafa þau komið inn í verkefnið af fullum þunga eins og sjá má á þessari skuldbindingu sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga undirritaði.

Meðal þess sem við erum að vinna að er að koma á fót Stjórnstöð ferðamála sem ætlað er að samhæfa þá flóknu stjórnsýslu sem ferðaþjónustan býr við. En einnig er Stjórnstöðinni falið það verkefni að hrinda stefnunni, sem fram kemur í Vegvísinum, í framkvæmd.

Í Vegvísinum er sýn okkar til ársins 2030 en áherslan lögð á þau brýnu verkefni sem hrinda þarf af stað á næstu 5 árum.

Við ákváðum, svona eins og góður húsbyggjandi, að byrja á grunninum vegna þess að við sáum það í vinnunni hann skorti. Við settum fram sjö áhersluþætti til að vinna að á næstu fimm árum en við Ólöf Ýrr ætlum að fara yfir hann á eftir svo ég ætla ekki að dvelja meira við hann hér.

Góðir fundarmenn,

Yfirskrift þingsins „Stefnumótun svæða – Stjórnun og skipulag“ á afar vel við  á þeim tímapunkti sem við stöndum á í dag með ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er eitt allra brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og verkefni sem við þurfum að klára. Við þurfum að skipuleggja okkur betur og láta verkin tala.

Í sumar í tengslum við fjárlagagerðina lét ráðuneytið gera úttekt á stöðu verkefna hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Í þeirri úttekt kemur fram að  af þeim 448 verkefnum sem sjóðurinn hefur úthlutað til frá upphafi, árið 2011, er um 45% verkefnanna lokið eða 198 verkefni. Þau 247 verkefni sem eftir eru, eru ýmist ekki hafin, þau eru í vinnslu og sum sem betur fer á lokametrunum.

Samkvæmt úttektinni eru helstu ástæður tafa við vinnslu verkefnanna skipulagsmál, deilur milli landeigenda, tímafrek hönnunarvinna, skortur á mótframlagi og skortur á verktökum eða mannafla til að vinna verkin.

Það var annað sem kom á óvart – og ætti að vera auðvelt að lagfæra. Nokkur þessara verkefna eru þannig  að einungis er eftir að skila lokauppgjöri til sjóðsins, og nokkrir aðilar, aðallega sveitarfélög, voru einfaldlega búin að gleyma að þau ættu inni hjá sjóðnum.

Skýrsluskrifin virðast því vera mönnum til trafala. Lögum það.

Það sem blasir við í þessari úttekt hversu miklu máli það skiptir að vera með skipulagið í lagi. Að sveitarfélögin,  ríkið og aðrir landeigendur séu búin að vinna undirbúningsvinnu svo framkvæmdir geti gengið hratt og örugglega fyrir sig þegar þær hefjast.

Staðreyndin er sú að aldrei fyrr hefur jafn miklum fjármunum verið varið til þessa málaflokks eins og á síðustu tveimur árum. Sjóðurinn hefur úthlutað alls 2.300 milljónum, þar af 1.700 milljónum á síðustu tveimur árum. Af þeim fjármunum hefur rúmlega 1.200 milljónum verið varið til sérstakra átaksverkefna án kröfu um mótframlag. En þrátt fyrir það komast verkefni ekki af stað eða þeim lýkur ekki af ástæðum þeim sem ég rakti áðan. Þarna ítreka ég að við verðum að taka höndum saman og gera bragarbót á.

Þarna þarf aukna samhæfingu og samstarf – og horfum við til Stjórnstöðvarinnar í því samhengi þar sem allir aðilar máls munu sitja við borðið saman. Það styttir og bætir vonandi ákvarðanatökuferlið.

En hver er lærdómurinn af þessari úttekt? Kannski sá að keðjan er ekki nógu sterk og svo vantar í hana hlekki. Á meðan svo er munum við ekki ná viðunandi árangri.

Ég hvet alla sem eru þátttakendur í þessu ferli að horfa á sinn hlekk og styrkja hann.

Hvort sem það er framkvæmdaaðili, sá sem skipuleggur og sá sem úthlutar. við þurfum öll að taka verkefnið alvarlega. Þar er ekki síst mikilvægt að hönnun og skipulag sé tekið föstum tökum og byrja á réttum enda.  Það er mikilvægt að hönnun sé lokið áður en menn sækja um - því fjármagnið gerir ekkert á meðan það liggur ónotað.

Við þurfum að líta til Framkvæmdasjóðsins, bæta verklag og hugsanlega breyta reglum hans, t.d. varðandi mótframlag. Við erum þegar byrjuð að velta þessu fyrir okkur og þetta er eitt af því fyrsta sem ný Stjórnstöð ferðamála mun taka til skoðunar.

Góðir fundarmenn,

Þó að við getum víða gert betur í þessum málum þá hefur margt gott verið gert undanfarin misseri varðandi skipulag í ferðaþjónustu.

Mig langar að nefna verkefni Ferðamálastofu um Kortlagningu auðlinda íslenskrar ferðaþjónustu sem unnin var á vegum Ferðamálastofu og 350 manns um allt land komu að.

Þetta verkefni miðar að því að kortleggja, með aðstoð landfræðilegra upplýsingakerfa, auðlindir ferðaþjónustu og helstu innviði svæða í samstarfi við heimafólk og greina þannig með myndrænum hætti hvar auðlindir ferðaþjónustunnar og tækifæri liggja til framtíðar. 

Þetta er afar metnaðarfullt verkefni og í raun frábært verkfæri, sem mun nýtast mjög vel við þróun og uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu, bæði hjá opinberum stofnunum og hjá einkaaðilum. Skráningin gefur áhugaverðar vísbendingar um sérkenni svæða og var matið í höndum heimafólks á hverjum stað – sem er afar mikilvægt og rímar mjög vel við áherslur okkar í Vegvísinum.

Annað jákvætt dæmi sem ég vil nefna er í Sveitarfélaginu Hornafirði – en þar fékk ég þann heiður að opna mjög áhugaverða gönguleið síðasta sumar milli Fjallsárlóns og Jökulsárlóns sem sveitarfélagið hefur skipulagt ásamt Vatnajökulsþjóðgarði og fleiri aðilum á svæðinu. Þarna er um að ræða eina samfellda gönguleið, sem byrjað er á og ákveðnum áföngum lokið, meðfram Vatnajökli þar sem lögð er áhersla á að veita upplýsingar gegnum smáforrit í síma. Þar er framsýn hugsun og bestu tæknilausnir notaðar til að tryggja jákvæða upplifun ferðamanna.

Ég heimsótti líka Snæfellsnes í sumar og hitti þar bæði fulltrúa sveitarstjórna og ferðaþjónustunnar á svæðinu. Ég varð afar hrifin af þeirri vinnu sem þar hefur farið fram þar sem sveitarfélögin á nesinu öllu tóku sig saman og gerðu svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026, Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar,  sem hlaut Skipulagsverðlaunin 2014.

Þarna hafa aðilar tekið höndum saman um langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um eflingu samfélagsins alls á Snæfellsnesi á grunni auðlinda svæðisins og að sjálfsögðu kemur ferðaþjónustan þar sterk inn.

Sambærileg vinna hefur verið unnin víða um land. Þar má nefna Reykjanesið og Sunnlendingar eru einnig að hefja samskonar vinnu hjá sér. Annað sem má m.a. nefna þar er sú umtalsverða skipulagsvinna sem hefur farið fram í Landmannalaugum svo eitthvað sé nefnt.

Þetta er verklag sem verið er að innleiða um allt land. Ég legg áherslu á að í vinnu sem þessari sé hönnunin tekin fastari tökum og hönnuðir fengnir að borðinu í byrjun.

Ég fékk tækifæri til að kynna mér hvernig menn hugsa þessa hluti í Ástralíu síðasta vetur þegar ég heimsótti fulltrúa Parks of Victoria í Melbourne þar sem ég var stödd. Þar eru þeir að gera frábæra hluti og við getum margt lært af þeim.

Þar eru heilu friðlöndin, þjóðgarðarnir og svæðin tekin til heildarskipulags – ekki ósvipað því sem við sjáum gert á Snæfellsnesi og víðar hér heima.

Þar er lagt mikið upp úr því að mannvirkin falli vel að umhverfinu og einnig hugað að því hvernig ólíkir hópar geti notið mismunandi upplifunar innan sömu svæðanna. Hvort sem gestir vilja takast á við áskoranir náttúrunnar í öllu sínu veldi, dag og nótt. Eða þeirra sem vilja njóta útivistar á daginn en góðrar þjónustu á kvöldin. Það er einnig tryggt að nauðsynleg þjónusta sé til staðar innan þjóðgarðanna, hvort sem er gisting eða veitingasala og sú þjónusta er í lang flestum tilvikum útvistuð til einkaaðila, sem mér þótti athyglisvert og jákvætt.

Ég sé að hér verður fluttur fyrirlestur um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem við berum öll í hjarta okkar og elskum meira en flesta aðra staði á landinu. Ég tel raunar að Þingvellir eigi að vera fyrsti „fyrirmyndarstaðurinn“ sbr. áherslur Vegvísis. En mér hefur oft fundist vanta heildarlausn á því svæði.  Það eru of margar gerðir af pöllum og stígum. Við þurfum að gera betur og hugsa alltaf með heildarhugsunina í fyrirrúmi

Kæru gestir,

Við eigum mikið starf framundan í nýrri Stjórnstöð ferðamála. Það er ekki tilviljun að við köllum verkefnið „Samferða“ því við getum þetta ekki ein. Ég hef fulla trú á því að við klárum þessi verkefni með skipulögðum og samræmdum hætti - samtaka. Saman getum við stuðlað að því að gera þessa atvinnugrein enn öflugri.

Ég hlakka til að vera hér í dag og hlusta á alla þá áhugaverðu fyrirlestra sem eru á dagskrá þingsins.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum