Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. nóvember 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á 50 ára afmælishátíð Hafrannsóknastofnunar Íslands, 20. nóvember 2015

Ágætu gestir

Enginn sagði það betur en Jónas Hallgrímsson í veislunni góðu í Kaupmannahöfn um árið:

Vísindin efla alla dáð,

orkuna styrkja, viljann hvessa,

vonina glæða, hugann hressa,

farsældum vefja lýð og láð ...

Falleg og hvetjandi orð sem fela í sér mikla dýpt og mikil sannindi. Vísindin eru eitt af þessum fyrirbærum sem hafa ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá þjóðum heims eða almenningi. Hindurvitni, hjátrú og kreddur hafa oft yfirhöndina. Það þarf ekki annað en fletta dagblaði á Íslandi í dag til að sjá auglýsingar um eitt og annað sem talið er að geti bætt ástand sálar og líkama. Hér skal ekkert fullyrt um hversu vel viðkomandi vara stendur undir nafni. En ætli það megi ekki setja spurningamerki við það, hversu nákvæmum tilraunum sem lúta lögmálum vísindanna, hafi verið beitt til að við þróun hennar.

Sannleikurinn er sá að þótt vísindin leiti sannleikans í hverju máli með því að safna gögnum, mæla og greina á hlutlægan hátt þá er ályktunargleðin og huglægnin svo rík í okkur mannfólkinu að vísindin eiga stundum á brattann að sækja.

Og íslensk fiskivísindi eru þar ekki undanskilin. En þrátt fyrir þá títtnefndu fullyrðingu um að fiskifræðin og hafvísindi séu nú ekki nein nákvæmnivísindi - einkum þegar menn sjá ástæðu til þess að draga niðurstöður fiskifræðinga í efa - þá hefur okkur tekist bærilega að byggja á vísindunum í þessum efnum. Það þýðir ekki að vísindamenn geri aldrei mistök –því þeir eru undir þá sök seldir eins og við öll. Munurinn er hins vegar sá að vísindin eru harður húsbóndi sem krefst þess að mistök séu viðurkennd og leiðrétt, því ætíð skal hafa það er sannara reynist.

Ég held að við Íslendingar höfum verið einstaklega gæfusamir að hafa átt frábæra vísindamenn á sviði hafvísinda og fiskifræði. Frá upphafi höfum við haft á að skipa afburðafólki í þessum greinum. Það sést best á því hve mikils metnir og eftirsóttir þeir eru sem þátttakendur í vísindastarfi annara þjóða.

En það er víst enginn spámaður í eigin föðurlandi og landsmenn allir vita að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa oft á tíðum þurft að sæta mikilli gagnrýni, oft afar harðvítugri og ósanngjarnri. Þannig eiga þeir það væntanlega sameiginlegt með okkur stjórnmálamönnunum að þurfa að koma sér upp þykkum skráp til að geta haldið sínu striki. En of þykkir skrápar geta verið hættulegir því öll þurfum við að hlusta á gagnrýnisraddir. Þar eru vísindin þó í sérflokki því vísindin mega aldrei hafna nýjum kenningum að óathuguðu máli. Mér finnst gott orðtakið sem segir ,,að þeir sem þora að villast finna nýjar leiðir“.

Það segir á boðskorti frá Hafró að: „Um þessar mundir eru 50 ár frá því að Hafrannsóknarstofnun var komið á fót.“ Við slík tímamót er sjálfsagt að koma ekki með öllu tómhentur til veislu.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun lagði ég fram tillögu um að ráðist verði í kortlagningu hafsvæðisins í kringum Ísland. Þar segir að ríkisstjórn Íslands samþykki að leggja til við Alþingi, við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017, að tryggt verði fjármagn til verkefnisins í fjárlögum þess árs á grundvelli 10-15 ára verkáætlunar sem þá mun liggja fyrir.

Hafrannsóknastofnun mun sjá um úthald skipa, mælingar og frumúrvinnslu þannig að öll gögn verði aðgengileg stofnunum, háskólum og atvinnulífinu í landinu. Verkefnastjórn fær það hlutverk að skipuleggja verkefnið. Gaumgæft verður hvort aðrar stofnanir sem koma að verkefninu geti lagt fjármuni til þess. Má þar nefna Orkustofnum, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun. Verkefnastjórn mun ljúka vinnu sinni í febrúar á næsta ári svo endanlegur kostnaður ríkissjóðs liggi fyrir við fjárlagagerð vegna 2017.

Ég vona, og er þess reyndar fullviss, að þessi ákvörðun veiti starfsmönnum stofnunarinnar færi á að auka til muna þekkingu á aðstæðum og lífríki hafsins.

Um leið og ég óska Hafrannsóknastofnun til hamingju með afmælið vil ég þakka öllum þeim sem að starfi stofnunarinnar hafa komið fyrir gott starf í þágu þjóðar og þó ekki síst fyrir það að hafa staðið ölduna í ágjöfinni og haldið kúrs. Og svo við ljúkum erindi Jónasar sem hálft var lesið í byrjun:

tífaldar þakkir því ber færa

þeim sem að guðdómseldinn skæra

vakið og glætt og verndað fá

viskunnar helga fjalli á.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum