Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. mars 2016 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ræða á Iðnþingi, 10. mars 2016

ATH: Talað orð gildir

Kæru Iðnþingsgestir,

Það kannast eflaust allir við mósaíkmynd Gerðar Helgadóttur sem prýðir Tollhúsið við Reykjavíkurhöfn.

Myndin á vel við efni þessa fundar. Bæði að hún sýnir lífæð atvinnulífs þess tíma. Jafnframt er listaverkið gert úr ótal smærri einingum – sem hver um sig á sér sinn afmarkaða stað í myndverkinu. En það er ekki fyrr en að áhorfandinn sér heildarsamhengið – STÓRU MYNDINA - að honum opinberast sjálf snilldin.

Í gamalli indverskri dæmisögu segir frá sex blindum mönnum sem skyldu lýsa því hvað fíll væri. Hver um sig fékk að þreifa á fílnum – og það stóð ekki á svörum.

Fíll er líkastur stórri grófgerðri slöngu“ - sagði sá sem farið hafði höndum um fílsranann.

Öðru nær - honum svipar mest til gildvaxins trjástofns“ sagði sá er tekið hafði á löppum fílsins.

Og svona kom hver og einn með sína lýsingu á fílnum – sá sem handfjatlaði fílseyrun sagði hann skyldan flugeðlu, stór veggur var lýsing þess sem lagði hendur á fílsskrokkinn og sá sem þreifaði á skottinu sagði hann líkjast mest reipi.

Og þrátt fyrir að allir væru þeir víðsfjarri sannleikanum – þá höfðu þeir samt allir rétt fyrir sér - að einhverju takmörkuðu leyti.

Ég segi þessa sögu hér - því að allt of oft eru einstakir hagsmunir að byrgja okkur sýn á stóra samhengið. Við einblínum um of á smáatriðin og sjáum þess vegna ekki stóru myndina. Stóru myndina sem einmitt er til umfjöllunar hér.

Og þegar sjónarhornið er of þröngt þá magnast hættan á því að við stillum upp kostum - einum gegn öðrum.

  • Skapandi greinar – á móti – hefðbundnum atvinnugreinum.
  • Heilbrigðiskerfi – eða – listamannalaun.
  • Náttúruvernd – gegn – iðnaðaruppbyggingu.
  • Ferðaþjónustna – eða - orkunýting

Áfram mætti telja, en veröldin er ekki svört eða hvít. Góð eða vond. Blá eða rauð.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eiga allar atvinnugreinar sér samastað – og hver þeirra er mikilvægt tannhjól í því flókna úrverki sem íslenskt atvinnulíf er.

Forsjónin gaf okkur framúrskarandi góð spil á hendi í formi náttúruauðlinda - sem verða sífellt verðmætari og verðmætari. Orkuauðlindir í rennandi vatni og jarðhita - hreint vatn - kynngimagnaða náttúru og ríkulegar fiskveiðiauðlindir svo aðeins fátt eitt sé talið.

Og þegar við bætist svo stærsta auðlindin - sem vitanlega er fólgin í fólkinu og samfélagsgerðinni - þá eiga okkur að vera allir vegir færir.

Við erum stödd í einni mestu tæknibyltingu sögunnar og stöndum frammi fyrir krefjandi áskorunum sem munu hafa mikil áhrif á atvinnulíf og samfélag. Í síauknum mæli mun reyna á samspil atvinnulífsins og nýrrar tækni. Ný tegund starfa verður til. Störf sem við þekkjum í dag munu breytast eða einfaldlega hverfa þar sem tæknilausnir leysa mannshöndina af hólmi. Og það er áhugavert að hugsa til þess að kannski er það þannig að stór hluti starfa barnanna okkar sem enn eru á grunnskólaaldri hafa ekki enn verið fundin upp.

Búum okkur undir að heyra meira um sjálfvirkni, gervigreind, internet hlutanna, græna tækni og önnur fyrirbæri sem munu verða einkennandi fyrir atvinnuþróun um alla veröld. Þessi þróun mun sannarlega hafa áhrif á íslenskt atvinnulíf og opinbera þjónustu.

Ágætu gestir

Okkur er það stundum tamt að draga fram mikilvægi einstakra atvinnugreina og setja á þær einhvers konar mikilvægis merkimiða eftir því hvað þær skapa miklar gjaldeyristekjur eða spili stórt hlutverk í landsframleiðslunni.

En í stóru myndinni sem við ætlum að ræða hér í dag þá getur enginn einn verið án allra hinna. Styrkurinn liggur í keðjunni sem heild – í myndinni sem heild – en ekki í einstaka hlekk hennar eða einstakra myndbrota.

Tökum sem dæmi ferðaþjónustuna sem er vitanlega hástökkvari síðustu missera og ára. Mikilvægi hennar fyrir þjóðarhag er auðvitað gríðarmikið. En hvað telst til ferðaþjónustu? Þegar nánar er að gáð þá er varla sú atvinnugrein sem blandast ekki með einum eða öðrum hætti inn í ferðaþjónustuna.

Matvælaframleiðsla, byggingariðnaður, iðnhönnun, þjónusta, skapandi greinar og tæknigeirinn allur eru með einum eða öðrum hætti hluti af ferðaþjónustu.

Og gleymum ekki gullsmiðnum eða hönnuðinum sem gerði gjafavöruna eða fatnaðinn sem ferðamaðurinn tekur með sér heim.

Það er því í þágu atvinnulífsins alls að ferðaþjónustan blómstri, enda skýtur hún stoðum undir allar þessar greinar.

Það er stóra myndin.

Annað dæmi sem ég vil nefna er sjávarútvegurinn sem hefur í gegnum tíðina verið burðarstoðin sem efnahagsgrunnur þjóðarinnar hvíldi á. Til allrar hamingju hefur okkur auðnast að fjölga burðarstoðunum þannig að í dag erum við ekki jafn háð aflabrögðum og fyrr. En það sem að mig langar að benda á er sú umbreyting sem sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum á á síðustu árum og áratugum með þeim árangri að verðmæti hvers fiskjar sem kemur á land hefur margfaldast.

Og þessu getum við þakkað hugviti, framsýni og samstarfi sjávarútvegs og margskonar iðnaðar, hefðbundins sem óhefðbundins, sem hafa t.a.m. nánast úthýst orðinu „fiskúrgangur“ úr íslensku máli. Það sem á árum áður var úrgangur er í dag verðmæt auðlind – verðmætt hráefni til margskonar iðnaðar.

Þriðja dæmið um samvinnu ólíkra atvinnugreina vil ég taka úr heimi gagnavera. Ég heimsótti Verne gagnaverið í mínum heimabæ fyrir skömmu og það er magnað að sjá þar tæknilausnir sem byggja á hugviti og verksnilld íslenskra blikksmiða þegar kemur að tæknilausnum og einum mikilvægasta verkþættinum sem er kæling ofurtölvanna. Og aðeins til að stækka myndina - þá sagði forsvarsmaður gagnaversins að á síðasta ári hefðu verið keyptir 1.000 flugmiðar til og frá Íslandi vegna þessa fyrirtækis eins.

Saga Verne gagnaversins er því enn eitt dæmið um farsælt stefnumót nýjustu tækni og hefðbundinna atvinnugreina.

Og punkturinn er alltaf þessi: Það er enginn eyland – forsenda fyrir árangri einnar atvinnugreinar er samstarf og samvinna við aðrar og jafnvel alls ólíkrar atvinnugreinar.

Ágæta Iðnþing,

Til að stuðla að því að stóra myndin geti verið máluð í björtum litum verða stoðirnar að vera sterkar. Nokkur augljós atriði blasa við:

  • Það þarf að reka ríkissjóð með afgangi og greiða niður skuldir.
  • Það þarf að ríkja stöðugleiki og almennur friður á vinnumarkaði.
  • Það þarf að ljúka afnámi gjaldeyrishafta og tryggja að íslenskt atvinnulíf búi við frelsi og samkeppnishæfar aðstæður.

Í öllu þessu höfum við náð gríðarlegum árangri á síðustu misserum – og staða Íslands er nú allt önnur en hún var fyrir aðeins þremur árum. Nánast allir hagvísar eru í sólarátt. Hér eru því allar aðstæður til að góðir hlutir geti haldið áfram að gerast.

En einstaka myndbrot stóru myndarinnar verða líka að vera í lagi og falla vel að heildinni. Og á þau hefur líka verið lögð áhersla. Ég vil nefna nokkur áherslumál sem unnið hefur verið að og byrja á nýsköpunarmálunum sem hafa verið í forgangi hjá okkur í ráðuneytinu.

Í lok síðasta árs kynnti ég aðgerðaáætlun í þágu frumkvöðla og sprotafyrirtækja undir heitinu „Frumkvæði og framfarir“. Þar er sett fram sú sýn okkar að Ísland verði uppspretta öflugra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem stuðla að aukinni verðmætasköpun og fjölbreyttum störfum. Markvissar aðgerðir voru kynntar í aðgerðaráætluninni og nú þegar er unnið að mörgum þeirra. Sú vinna rímar t.a.m. vel við áherslur nýstofnaðs Hugverkaráðs Samataka iðnaðarins og vænti ég góðs samstarf milli þess og ráðuneytisins um áframhaldandi innleiðingu stefnunnar.

Í orkumálum er víða verk að vinna. Fyrir liggur að eftirspurn eftir raforku er að aukast, bæði til nýrra stóriðjuverkefna en einnig, og ekki síður, til annarrar almennrar notkunar. Hér er um jákvæða þróun að ræða en mikilvægt er að við séum reiðubúin að mæta þessari auknu eftirspurn, og þeirri atvinnusköpun sem henni fylgir, með ábyrgum hætti, bæði á sviði raforkuframleiðslu og raforkuflutnings.

Í þessu sambandi höfum við tvær mikilvægar áætlanir sem ætlað er að varða leiðina. Annars vegar Kerfisáætlun, fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku, og hins vegar Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þar sem afstaða er tekin til nýrra virkjanahugmynda. Þessar áætlanir skipta miklu þegar horft er á „stóru myndina“ og áætlunargerðar til langs tíma.

Við vitum að þegar kemur að flutningskerfi raforku þá er úrbóta víða þörf og við sjáum í vaxandi mæli að ekki eru jöfn tækifæri á landsvísu varðandi aðgengi að raforku og afhendingaröryggi. Við verðum að tryggja að ólík landsvæði geti keppt á jafnræðisgrundvelli um sköpun nýrra atvinnutækifæra.

Á síðasta löggjafarþingi voru gerðar mikilvægar úrbætur á því regluverki sem lítur að flutningskerfi raforku og mörkuð stefna stjórnvalda um lagningu raflína. Með þessum breytingum er lagður ákveðinn grunnur fyrir því að fara í nauðsynlegar úrbætur á flutningskerfi raforku og að reyna að ná sem mestri sátt um þau mál í gegnum markvisst samráð.

Þegar síðan horft er til þess hvernig mæta á vaxandi orkuþörf næstu ára og áratuga á Rammaáætlun að vera sá vettvangur sem gerir okkur kleift að svara þeirri spurningu.

Í dag bíðum við eftir að sjá tillögur verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar verða lagðar fram til umsagnar. Ég tel mikilvægt að sú vinna hafi eðlilegan framgang og að ákvæðum laganna um rammaáætlun sé fylgt. Við verðum að standa vörð um Rammaáætlun eins og lagt var upp með þá mikilvægu áætlun í upphafi, og komast út úr hinu daglega dægurþrasi þegar hana ber á góma.

Við skulum ekki gleyma því að það blasa við okkur stórkostleg tækifæri þegar að orkumálum kemur. Ég nefni sem dæmi rafbílavæðingu fólksbílaflotans. Orkulega séð gætum við skipt öllum bílaflotanum yfir í rafmagn strax í dag. „Ef ekki á Ísland hvar þá?“ – er oft spurt. Orkuskipti í samgöngum eru skýrt dæmi um farsælt samspil orkumála, nýsköpunar og tækniþróunar; alveg eins og orkuskiptin í húshitun sem farið var í á sjöunda áratug síðustu aldar.

En kæru iðnþingsgestir,

Mér hefur verið tíðrætt um samstarf ólíkra greina og þá staðreynd að okkur farnast best þegar ólíkar atvinnugreinar vinna saman og styðja hverja aðra. Enn eitt dæmið um slíkt er íslenskur kvikmyndaiðnaður, sem má flokka sem óhefðbundinn iðnað, til skapandi greina og sem list.

En á hinn bóginn er líka hægt að telja hann til ferðaþjónustu, nýsköpunar og tækniþróunargeirans.

Þessi iðnaður hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og spilar æ stærra hlutverk í efnahagslífi okkar.

Nýleg skýrsla Capacent um stöðu sjónvarps – og kvikmyndaiðnaðarins árið 2014 sýnir þetta svo um munar. Þar kemur fram að iðnaðurinn hafi það ár skilað 12 milljörðum króna í skatttekjur, eða helmingi meira en hann fékk í formi ríkisstuðnings. Heildarvelta sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi jókst, skv. skýrslunni, um 37 prósent árin 2009-2014. Bein ársverk í greininni árið 2014 voru um 1.300 og óbein ársverk um 2.000.

Í skýrslunni kemur fram að launagreiðslur árið 2014 hafi numið tæpum 13 milljörðum króna. En bein og óbein velta kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðar það ár nam alls um 45 milljörðum króna.

Síðasta ár var frábært í íslenskri kvikmyndagerð sem landaði um 100 verðlaunum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum víða um heim. Af þessu megum við öll vera stolt. Einn liðinn í þessum mikla uppgangi íslensks kvikmyndaiðnaðar má rekja til stuðnings í formi endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar sem hefur verið í lögum síðan 1999.

Sú löggjöf rennur að óbreyttu út um næstu áramót. En í frumvarpi sem ég hyggst leggja fram í ríkisstjórn í fyrramálið mun ég leggja til að lögin verði framlend um 5 ár og að hlutfall endurgreiðslnanna hækki úr 20% í 25%, sem lið í að bæta enn frekar samkeppnishæfni okkar.

En kæru gestir,

Stóra áskorunin sem að við stöndum frammi fyrir er sú hvernig við ætlum að hagnýta okkur öll þau fjölmörgu tækifæri og efla þannig lífskjör og bæta áfram það samfélag sem að við lifum í

Mósaíkmynd Gerðar Helgadóttur hefur auðgað miðbæ Reykjavíkur í bráðum hálfa öld - staðist óblíða íslenska veðráttu og nært sálir okkar.

Á sama tíma hefur íslenskt atvinnulíf tekið algerum stakkaskiptum.

En það er okkur holl áminning um það - að hverjum tíma fylgja nýjar áskoranir.

Þilskip - togarar - tölvur - þekkingariðnaður.

Við verðum alltaf að hafa metnað, framsýni og dug til að taka okkur stöðu meðal þeirra þjóða sem standa í öndvegi - og tryggja þannig lífskjör og gott samfélag.

Besta leiðin til þess að tryggja að svo megi verða - er að við sem þjóðfélag náum sameiginlegum skilningi og sem allra bestri sátt um stóru myndina. Þar verðum við að átta okkur á því að öll skiptum við máli, stór og smá og hvaðan sem við komum. Ef við áttum okkur á þessu – þá erum við á góðum stað.

Ég vil að lokum þakka Samtökum iðnaðarins fyrir frábært samstarf á liðnum árum. Óska nýrri stjórn velfarnaðar í sínum störfum og lýsi mig og okkur í ráðuneytinu reiðubúin til áframhaldandi samstarf við samtökin í þágu alls iðnaðar og íslensks samfélags.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum