Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. apríl 2016 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ræða á vorfundi Landsnets, 5. apríl 2016

 

ATH: Talað orð gildir

Góðan dag kæru fundargestir,

Það er mér gríðarlega mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á árlegum opnum vorfundi Landsnets. 

Yfirskrift vorfundarins að þessu sinni er: “Rafvædd framtíð í takt við samfélag – hverjar eru áskoranir Landsnets í stóru myndinni?“ finnst mér afar viðeigandi og ég fagna þessu uppleggi. Það vekur athygli að þetta er í annað sinn á innan við mánuði þar sem boðað er til fundar þar sem „Stóra myndin“ er til umræðu. 

Þetta er viðeigandi, tímabært og vel til fundið. Við þurfum einmitt að horfa á Stóru myndina, eins og ég kom inn á í ávarpi mínu á iðnþingi í síðasta mánuði. Það er nefnilega þannig að atvinnuvegirnir eru hjól í sömu keðju og styðja hver við annan. Við eigum ekki að einblína á sértæka hagsmuni, heldur horfa á stóru myndina myndina og heildarhagsmuni.

Veröldin er ekki svarthvít. Það er ekki þannig að ef þér er annt um loftslagsmál og náttúruvernd þá sértu sjálfkrafa andsnúinn uppbyggingu flutningskerfis raforku, eða öfugt.

Það má í raun segja að þetta sé stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir; það er að segja hugarfarið. Að við náum að víkka sjónarhornið og horfa á hlutina í stærra samgengi. Að við sem þjóðfélag náum sameiginlegum skilningi og sem allra bestri sátt um hver sé stóra myndin og hver sé vegurinn áfram.

Loftslagsmál eru mjög í brennidepli þessa dagana, enda full ástæða til. Á COP21 í París í desember sl. skipaði Ísland sér meðal þeirra þjóða sem setja sér metnaðarfull markmið um 40% minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030. Á því sviði er fjöldamargt sem Íslendingar hafa fram að færa og þá ekki síst á sviði endurnýjanlegrar orkuframleiðslu og orkunýtingar.

Mér finnst það oft gleymast í umræðunni að endurnýjanleg orka á Íslandi skilar einmitt miklum ávinningi til umhverfis- og loftslagsmála heimsins. Einhverra hluta vegna er sparnaður í losun gróðurhúsalofttegunda oft ekki tekinn með í reikninginn þegar mat er lagt á ávinning virkjanakosta á Íslandi. Á ársfundi Orkustofnunar síðastliðinn föstudag fór Baldur Pétursson, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun, vel í gegnum þetta og ætla ég að fá að nefna nokkrar athyglisverðar staðreyndir sem fram komu í erindi hans:

 

  • Uppsafnaður sparnaður í losun CO2 með endurnýjanlegri orku í stað olíu á Íslandi frá árinu 1944 er um 350 milljón tonn af CO2. Það jafngildir um 175 milljörðum trjáa í bindingu á CO2 og samsvarar skógi á stærð við Frakkland og Bretland samanlagt.
  • Árlegur sparnaður í losun með nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi er 18 milljón tonn af CO2. Það jafngildir 9 milljörðum trjáa í bindingu á CO2, eða 43 þúsund ferkílómetrum af skógi – tæplega helmingi alls Íslands.
  • 100 MW virkjun sparar árlega um 400.000 tonn af CO2 sem jafngildir um 200 milljónum trjáa í bindingu á CO2, eða 950 ferkílómetrum af skógi.

 

Þetta samspil loftslagsmála og endurnýjanlegrar orku er allt of lítið rætt að mínu mati. Sú spurning er áleitin hvort sparnaður í CO2 hafi ekkert verðgildi í mati á nýjum virkjunarkostum, þrátt fyrir vaxandi ógn af hlýnun jarðar vegna losunar á CO2? Svo virðist sem ganga laxa, eða fjöldi ferðamanna, hafi þannig (svo dæmi sé nefnt) meiri áhrif við mat á endurnýjanlegum virkjunarkostum heldur en umhverfislegur og efnahagslegur sparnaður í losun CO2.

Ég tel eðlilegt að við setjum spurningarmerki við þetta og tel að í opinbera umræðu vanti sárlega að fjalla betur um jákvætt samspil orkumála og loftslagsmála.

Það vill svo til að í síðustu viku fengum við ágætt dæmi um þennan skort á skilningi á samspili orkumála og loftslagsmála, þegar verkefnisstjórn Rammaáætlunar kynnti tillögur sínar að flokkun virkjanakosta í þriðja áfanga Rammaáætlunar. Í kynningunni á þeim tillögum kom fram að þær byggja eingöngu á niðurstöðum tveggja faghópa af fjórum; það er að segja faghópum 1 og 2. Faghópur 1 fjallar um náttúruverðmæti og menningarminjar, og faghópur 2 um ferðaþjónustu og hlunnindi. Ekki liggja fyrir niðurstöður frá faghópi 3 um samfélagsleg áhrif og faghópi 4 um efnahagsleg áhrif, og óljóst virðist hvenær þær niðurstöður koma fram.

Í 3. gr. laga um Rammaáætlun kemur hins vegar skýrt fram að „í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga þessara lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar.“

Þarna virðist því skorta nokkuð upp á „Stóru myndina“ í framkomnu mati verkefnisstjórnar á virkjanakostum. Ekki verður séð af tillögum verkefnisstjórnar að til dæmis hafi verið lagt mat á sparnað í losun CO2 af þeim virkjunarkostum sem til skoðunar voru. Út frá þeim þremur víddum sjálfbærrar þróunar sem lögin gera ráð fyrir, þ.e. mat á efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum áhrifum nýtingar, ber að taka slíkt mat með í reikninginn, ásamt öðru, til að fá fram heildaráhrifin.

Ég geri ráð fyrir að í umsagnarferlinu sem framundan er á næstu vikum verði farið nánar yfir þennan þátt málsins, þannig að unnt verði að bregðast við áður en málið verður lagt fram á Alþingi næsta haust.

Þetta samspil orkumála og loftslagsmála er mikilvægt og hefur marga snertifleti. Þessvegna fagna ég því að það sé sett á dagskrá hér í dag, á vorfundi Landsnets.

Góðir fundarmenn,

Fyrirtækið Landsnet tók formlega til starfa 1. janúar 2005. Samkvæmt lögum um stofnun Landsnets, og raforkulögum, er hlutverk fyrirtækisins að byggja flutningskerfi raforku „upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku“. Landsnet starfar samkvæmt sérleyfi og er háð opinberu eftirliti Orkustofnunar sem ákvarðar tekjumörk sem gjaldskrá fyrirtækisins byggir á. 

Fyrirsjáanleiki og stöðugt rekstrarumhverfi er lykilatriði í rekstri sérleyfis fyrirtækis eins og Landsnets. Stór hluti af því er setning tekjumarka fyrir fyrirtækið og það regluverk sem að því snýr. Árið 2011 var gerð umfangsmikil breyting á raforkulögum sem laut að ákvæðum laganna um tekjumörk. Segja má að frá þeim tíma, og reyndar fyrir þann tíma líka, hafi talsverð vandkvæði verið við setningu og frágang tekjumarka bæði fyrir flutningsfyrirtækið Landsnet sem og dreifiveitur raforku. Kærumálin hafa gengið á víxl og hart hefur verið tekist á um viðmið, forsendur, aðferðarfræði og annað við setningu tekjumarka.

Þessi staða hefur verið afar bagaleg fyrir alla aðila, bæði flutningsfyrirtækið, dreifiveitur og viðskiptavini þeirra, og var því á vegum ráðuneytisins farið í víðtækt samráð um úrbætur undir þeim formerkjum að finna leiðir til að einfalda regluverkið í kringum setningu tekjumarka og reyna að ná fram meiri sátt.

Þetta samráð hefur nú staðið yfir í tæp tvö ár og ég tel að við höfum núna á síðustu vikum náð fram mikilvægum áföngum í þessu verkefni. Fyrr í vetur var gengið frá reglugerðarbreytingu sem tekur til frágangs á síðasta tekjumarkatímabili, fyrir árin 2011 til 2015, og er því loksins búið að gera það upp. Í byrjun síðasta mánaðar var síðan gefin út á vegum ráðuneytisins ný reglugerð sem snýr að tekjumarkatímabilinu 2016 til 2020.

Við þessa vinnu höfum við lagt höfuðáherslu á að reyna að fækka matskenndum ágreiningsatriðum við setningu tekjumarka, ásamt því að auka fyrirsjáanleika og gagnsæi. Mikilvægt er að sama skapi að regluverkið virki sem hvati til að efla samkeppnishæfni orkuiðnaðar á Íslandi og í því skyni höfum við hafið greiningu sem felur meðal annars í sér samanburð á flutningskostnaði raforku á Íslandi og í Noregi.

Ég er því vongóð um að við séum loksins, með samstilltu átaki, að sjá til lands í þeim flóknu málum sem lúta að setningu tekjumarka fyrir flutningsfyrirtækið og dreifiveitur.

Hér þurfum við, eins og í svo mörgum öðrum málum, að reyna að horfa á „Stóru myndina“ og komast í sameiningu út úr vítahring ágreinings og úrskurðarnefnda.

Góðir fundarmenn,

Hér á eftir munum við heyra um áskoranir sem Landsnet stendur frammi fyrir þessa dagana. Til þess að takast á við áskoranir þarf grunnurinn að vera í lagi. Í tilfelli Landsnets á það bæði við hvað varðar stöðugleika í rekstri, eins og ég hef hér komið inn á, en einnig hvað stefnu stjórnvalda og lagaumhverfi flutningskerfisins varðar. Þegar kemur að nauðsynlegum framkvæmdum við uppbyggingu flutningskerfis raforku þarf stefna stjórnvalda að liggja fyrir sem og fyrirmæli löggjafans um hvernig vinna beri áætlun um slíka uppbyggingu.

Á síðasta löggjafarþingi voru afgreidd tvö mikilvæg þingmál sem ég lagði fram sem lúta að uppbyggingu á flutningskerfi raforku. Annars vegar breyting á raforkulögum, að því er varðar kerfisáætlun Landsnets, og hins vegar þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Ég fjallaði ítarlega um þessi þingmál á vorfundi Landsnets á síðasta ári og ætla ekki að endurtaka það hér, en vil einungis undirstrika mikilvægi þess að þessi þingmál hafa verið afgreidd frá Alþingi. Voru afgreidd í lok síðasta vorþings. Með þeim er grunnurinn lagður fyrir Landsnet til að takast á við þær stóru áskoranir sem við okkur blasa í flutningskerfis raforku hér á landi.

Í skýrslu sem ég lagði fram á Alþingi í gær, um raforkumálefni, kemur fram að raforkunotkun og eftirspurn eftir raforku er í stöðugum vexti. Ljóst er því að álag mun halda áfram að aukast á flutningskerfi raforku og því brýnt að menn bregðist við með ábyrgum hætti og með langtímahugsun að leiðarljósi.

Flutningskerfi raforku er hluti af okkar lykilinnviðum í landinu og fyrr í vetur, í fyrrnefndri neyðaræfingu Landsnets, fengum við ágætis nasaþef af því hversu háð við erum flutningskerfi raforku ef til stórkostlegra náttúruhamfara kemur. Ég leyfi mér að fullyrða að hvorki ég né aðrir iðnaðarráðherrar vilja standa frammi fyrir slíkum ákvörðunum sem lá fyrir að þurfti að taka á umræddri æfingu.

Ég vil nota tækifærið og hrósa Landsneti fyrir þessa neyðaræfingu í nóvember. Að henni komu hátt í 200 manns þar sem æfð voru viðbrögð og verkferlar vegna alvarlegs hættuástands í kjölfar ímyndaðs eldgoss í vestanverðum Vatnajökli. Megintilgangurinn var að láta reyna á samhæfingu allra í raforkugeiranum, ef kæmi til náttúruhamfara og atburða af þessu tagi, og æfa jafnframt og yfirfara verkferla og viðbragðsáætlanir.

Góðir fundarmenn,

Eins og ég kom inn á áðan þá eru nú liðin rétt rúm 10 ár frá því að Landsnet var stofnað. Við slík tímamót er ágætt að staldra við og leggja mat á stöðu fyrirtækisins og hlutverk. Meðal annars með það fyrir augum að leggja mat á hvernig unnt sé með bestum hætti að ná fram því markmiði raforkulaga, sem fram kemur í 1. gr. þeirra, um „að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu“.

Í september í fyrra skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um Landsnet þar sem fjallað var um hlutverk, eignarhald og áætlanir Landsnets. Í stuttu máli má segja að fyrirtækið hafi almennt komið vel út úr þessari úttekt Ríkisendurskoðunar og ég tel að gagnlegt hafi verið að fá þessa skýrslu fram. Þar er að finna ágætar ábendingar, bæði til stjórnvalda sem og til fyrirtækisins.

Meðal annars er þar fjallað um eignarhald og sjálfstæði fyrirtækisins. Í skýrslunni kemur fram það mat Ríkisendurskoðunar að mikilvægt sé að kannaðar verði „allar leiðir til að tryggja og efla sjálfstæði Landsnets gagnvart öðrum aðilum á raforkumarkaði“.

Á undanförnum árum hefur sú umræða af og til vaknað hvort skynsamlegt kunni að vera að gera breytingar á fyrirkomulagi eignarhalds Landsnets. Bent hefur verið á að til lengri tíma sé að ýmsu leyti óheppilegt að Landsnet sé í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna, meðal annars út frá mögulegum hagsmunaárekstrum. Sem kunnugt er eru eigendur Landsnets í dag Landsvirkjun (65%), RARIK (22%), Orkuveita Reykjavíkur (7%) og Orkubú Vestfjarða (6%). Samkvæmt núgildandi lögum geta þessir aðilar einungis selt eignarhluti sína í Landsneti sín á milli. Ef einhver þeirra vill selja hlut sinn til einkaaðila eða opinberra aðila þarf því að breyta lögum.

Í maí í fyrra skilaði lögskipuð nefnd sem skipuð var af fyrrverandi iðnaðarráðherra greinargerð um möguleika á breytingum á eignarhaldi Landsnets. Í greinargerðinni er fjallað um eignarhaldið og reifaðar tvær leiðir um lagabreytingar sem fela í sér að opnað yrði fyrir þann möguleika að núverandi hluthafar í Landsneti gætu losað um eignarhluti sína.

Annars vegar að lögum yrði breytt þannig að flutningsfyrirtækið yrði í beinni eigu ríkisins og/eða sveitarfélaga, eða hins vegar að flutningsfyrirtækið yrði ávallt í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja í þeirra eigu.

Ég tel að við eigum að ræða með opinskáum og yfirveguðum hætti hvernig við teljum eignarhaldi Landsnets best fyrir komið til lengri tíma. Ég er sammála Ríkisendurskoðun um að mikilvægt sé að efla og tryggja sjálfstæði Landsnets og tel því rétt að við skoðum vandlega allar leiðir í því skyni.

Að sama skapi þurfum við að gæta okkar og rasa ekki um ráð fram við lagabreytingar enda miklir hagsmunir í húfi, bæði hjá flutningsfyrirtækinu sem og eigendum þess.

Við þurfum fyrst og fremst ávallt að tryggja að rekstur og umhverfi flutningsfyrirtækisins sé í samræmi við markmið raforkulaga og að fyrirtækinu sé tryggt það svigrúm sem það þarf til þess að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu með sjálfstæðum og faglegum hætti.

En kæru vorfundargestir,

Ég vil hér í lokin þakka starfsfólki Landsnets kærlega fyrir frábært samstarf hin síðustu ár, og óska ykkur alls hins besta í ykkar störfum.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum