Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Ræða ráðherra á ráðstefnunni "Matur er mikils virði", 19. maí 2016


Ágætu gestir.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur, sem nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem felur líka í sér að vera matvæla- og  byggðamálaráðherra.

Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórn Íslands að ráðast í verkefni sem hefur fengið nafnið Matvælalandið Ísland. Verkefninu hefur verið tryggt fjármagn næstu 5 ár og munu stjórnvöld  veita samtals 400 milljónum kr. til verkefnisins.

Markmiðið er að bæta nýtingu hráefna og auðlinda og auka verðmætasköpun sem byggist á áhuga fólks á að upplifa og njóta matarmenningar. Það fest í því að kynna með betri hætti framleiðslu, uppruna, hefðir og sögur bakvið  íslenska matvælaframleiðslu. Í þessu verkefni er því mikilvægt að okkar helstu atvinnugreinar, svo sem sjávarútvegur, landbúnaður, matvælaiðnaður og ferðaþjónusta  vinni saman..          

Það er von mín að víðtæk samstaða náist um þetta verkefni. Ég tel mikilvægt að það muni, til að byrja með, beinast inn á við. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég álít mikilvægt að byggja traustan grunn sem síðar verður hægt að byggja ofan á.

Við eigum að spyrja okkur spurninga.

  • Hvað getum við gert betur hér heima?
  • Hvernig geta þessar helstu atvinnugreinar okkar, landbúnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta unnið meira og betur saman til að auka verðmætasköpun í landinu enn frekar?
  • Hvernig getum við nýtt okkur þá ferðamenn sem hingað koma til þess að búa til úr þeim nýja neytendur íslenskrar matarmenningar? Búið til úr þeim viðskiptavini sem sækja aftur og aftur það sem íslenskt er.

Við erum að framleiða framúrskarandi afurðir hér á landi, hvort sem við horfum til lambsins okkar, á fiskinn, grænmetið eða jafnvel bjórinn okkar sem hlotið hefur alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar á undanförnum árum. Þetta er eitthvað sem við eigum að vera stolt af, kynna og tryggja þannig að ferðamaðurinn fái að upplifa og njóta þessara afurða. Eins og ég segi þá þarf þetta að gerast í víðtæku samstarfi og samráði, m.a., milli atvinnugreina, við landshlutasamtökin ásamt góðu samstarfi við Íslandsstofu. Þetta allt felur í sér tækifæri, bæði fyrir þá sem vilja grípa tækifærin hér innanlands og þá sem eru komnir á þann stað í ferlinu að þeir horfa til markaða utan landsteinanna.

Stuðningur við frumkvöðlastarf er einnig mikilvægur. Frumkvöðlasetrin og klasarnir eru góðir og þar sem hlutirnir gerast oft á tíðum. Matís hefur til að mynda unnið að  uppbyggingu á  starfsstöðvum og  Matarsmiðjum víðs vegar um landið. Þar hefur verið stutt við bakið á frumkvöðlum í héraði, sem vilja nýta það frábæra hráefni sem Ísland hefur upp á að bjóða til sjávar og sveita. Þetta hefur síðan orðið til þess að ný fyrirtæki hafa verið stofnuð sem nýta í auknum mæli íslenskt hráefni.

Ísland er matvælaframleiðsluland og hefur byggt afkomu sína á sjávarútvegi og landbúnaði og nú á síðustu árum hefur fjölgun ferðamanna komið til sögunnar sem ein af undirstöðum okkar velmegunar.  

Hér á landi höfum við mikla möguleika á að auka við framleiðslu heilnæmra og hollra matvæla úr okkar hreinu hráefnum og náttúru, bæði til að sinna aukinni þörf vegna fjölgunar ferðamanna  og einnig til að auka möguleika á útflutningi matvæla,  -   það er markaður fyrir matvæli sem eru framleidd við náttúrulegar aðstæður og eftirspurn eftir mat úr héraði er að aukast Það felur að sjálfsögðu í sér mikla möguleika fyrir framleiðendur á landsbyggðinni þar sem fjöldi ferðamanna hefur aldrei verið meiri en hann er nú. Það er einnig eitt af markmiðum verkefnisins að treysta orðspor og ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla.

Ágætu gestir

Eins og ég sagði, þá eru tækifærin mýmörg og svo sannarlega til staðar hér á landi. Það er von mín að verkefnið Matvælalandið Ísland muni skila árangri með ýmsu móti, svo sem að tryggja upplifun ferðamanna af Íslandi sem landi hreinna og góðra matvæla og einnig að skapa ný tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar á störfum um allt land.

Það er hagur okkar allra.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum