Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2016 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ræða Ragnheiðar Elínar á ársfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, 24. maí 2016

ATH: Talað orð gildir

Góðir gestir,

Þetta er í þriðja sinn sem ég fæ þann heiður að ávarpa ársfund Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Því verkefni sem mér var falið fyrir þremur árum síðan að taka þátt með ykkur að gera nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfið hér á Íslandi betra – því verkefni hef ég haft einstaka ánægju af. Þetta er búið að vera skemmtilegt samstarf og ég vil þakka ykkur hér mörgum hverjum, flestum sem ég hef átt í beinum samskiptum við í gegnum þennan tíma.

Þegar ég stóð frammi fyrir þessu verkefni fyrir þremur árum voru sannarlega ýmsar áskoranir og viðfangsefni sem takast þurfti á við. Það voru auðvitað gjaldeyrishöft sem nú er búið að vinna baki brotnu við að afnema – en að auki voru helstu áherslur og helstu verkefnin sem að blöstu við til dæmist takmarkað aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að fjármagni, bæði að styrkjum á fyrstu stigum en einnig framtaksfjármagni. Einnig hafði lengi verið kallað eftir skattalegum hvötum svo íslensk fyrirtæki gætu staðið a.m.k. jafnfætis þeim fyrirtækjum sem starfa í nágrannalöndunum.

Það þarf auðvitað ekki að nefna það hér í þennan hóp að þróunar- og nýsköpunarstarf er forsenda framfæra og verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Við höfum því haft þennan málaflokk í miklum forgrunni allt kjörtímabilið. Og megin markmiðið verið að skapa nýsköpunarfyrirtækjum okkar  ákjósanlegt rekstrarumhverfi svo þau geti haldið sínu mikilvæga starfi áfram og að gera umhverfið hér samkeppnishæft og betra heldur en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Nú þegar styttist til kosninga og við stjórnmálamennirnir horfum á kosningar sem tímamót og uppgjörstíma og ég horfi til baka yfir þessi þrjú ár er ég ánægð með árangurinn sem við höfum í sameiningu náð. Okkur hefur sannarlega tekist vel til og nýsköpun blómstrar hér á landi sem aldrei fyrr.

Það bíða okkar samt margar áskoranir rétt handan við hornið og verkefnalistinn tæmist að sjálfsögðu aldrei, en ég leyfi mér að vera bjartsýn þegar ég horfi fram á veginn. Ég er bjartsýn þar sem nánast allir hagvísar benda í rétta átt um þessar mundir í íslensku efnahags- og atvinnulífi.  Ég nefndi afnám gjaldeyrishafta þar sem við tókum stórt skref á sunnudagskvöldið undir styrkri stjórn fjármálaráðherra og höldum því verki áfram, ég nefni lækkun tryggingagjalds auk fjölda annarra verkefna sem eru í vinnslu og við munum ljúka fyrir þinglok sem munu bæta starfsumhverfi fyrirtækja almennt – og þar með veita öllum fyrirtækjum, stórum sem smáum, nýjum sem eldri svigrúm til aukins nýsköpunarstarfs.

Á þessum þremur árum hef ég notið þeirra forréttanda að fara sjálf og heimsækja fjöldann allan af nýsköpunarfyrirtækjum. En þessar heimsóknir hafa verið einstaklega skemmtlegar, fróðlegar og hjálplegar til að sjá nákvæmlega hvað að er sem að nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi á öllum stærðum og öllum stigum í þróuninni út um allt land – hvað það er sem aþu eru að fást við. Ég verð að segja að það kom strax í ljós ákveðinn samhljómur í málflutningi þessara fyrirtækja. Spurningin var alltaf sú sama: Hvar eruð þið stödd? Hver er ykkar saga? Hvaða hindranir hafa orðið á vegi ykkar? Hvar hefur stoðkerfi stjórnvalda hjálpað og hvar höfum við verið að þvælast fyrir?

Þessi samtöl og þessi tenging milli okkar og ykkar hefur orðið til þess að við höfum í sameiningu náð að endurbæta, laga og styrkja þetta umhverfi.

Þessi fyrirtæki í heildina telja án efa vel á annað hundrað. Af þeim 33 félögum sem NSA á hlut í hef ég heimsótt um þriðjung– nú síðast eTactica hjá Eggerti Guðmundssyni í Kópavogi.

Á þessum ferðum mínum hef ég fyllst slíkri aðdáun og bjartsýni á frumkvöðlakraftinum, útsjónarsemi og dugnaði sem ég hef orðið vör við hjá öllum þessum fyrirtækjum og því fjölbreytta starfi sem íslensk nýsköpunarfyrirtæki vinna við.

Heimsóknin til Eggerts og félaga var mjög eftirminnilega og leiddi það í ljós að íslensku atvinnulífi er sannarlega fátt óviðkomandi þegar við erum farin að vinna að lausnum á heimsvísu á sviði orkustjórnunar. Ég hlakka til að fylgjast með þessu fyrirtæki og öllum þeim sem hér eru að starfa og er sannfærð um að þær tæknilausnir og þær vörur sem hér er verið að vinna að út um allt mun koma okkur öllum, hvar sem er í heiminum til góða.

Góðir fundarmenn,

Í lok síðasta árs kynntum við í ráðuneytinu aðgerðaáætlun í þágu frumkvöðla og sprotafyrirtækja undir heitinu „Frumkvæði og framfarir“.  Þar er kynnt sú sýn, það markmið, að Ísland verði uppspretta öflugra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem stuðla að aukinni verðmætasköpun og fjölbreyttum störfum í íslensku atvinnulífi. 

Ég vil nota þetta tækifæri hér og þakka þeim fjölmörgu sem hér eru innan dyra og tóku þátt í þessu verkefni með okkur. Þetta var fyrst og fremst samstarf og án þeirra athugasemda og þeirrar vinnu sem þið fjölmörg lögðuð á ykkur með okkur hefði þetta ekki orðið til.

Til að sýn þessi verði að veruleika er mikilvægt að á Íslandi verði alþjóðlega samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpunarstarf.  Eins og ég sagði áðan hafa stór skref hafa þegar verið stigin og vil ég byrja á að nefna, það sem við erum afar stolt af, hækkun framlaga til samkeppnissjóðanna. Í tilfelli Tækniþróunarsjóðs hækkuðu framlög til sjóðsins um 390 milljónir 2015 og svo um tæpan milljarð á þessu ári. Þetta þýðir að sjóðurinn hefur um 2,4 milljarða til ráðstöfunar og getur því stutt við nýsköpun og þróunarstarf sem aldrei fyrr.

Einnig vil ég leggja sérstaka áherslu á fyrirhugaðar breytingar á skattaumhverfinu hvað fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja varðar. Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um innleiðingu skattalegra hvata til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og tímabundna hvata vegna ráðninga erlendra sérfræðinga. Þá stendur einnig til að endurskoða skattlagningu kaupréttar hlutabréfa og efla enn frekar skattafrádrátt vegna rannsókna- og þróunarverkefna, svo dæmi séu nefnd.

Þessi mál hafa lengi verið á „óskalista“ ykkar sem starfa í nýsköpunarumhverfinu og því mikið gleðiefni að þessi mál séu komin í farveg í þinginu. Við munum leggja alla áherslu á að klára þessi mál fyrir þinglok og erum við öll sammála um og fjármálaráðherra hefur sagt það opinberlega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar  að þessi mál verði klárið fyrir lok kjörtímabilsins.

Ég vil að lokum halda því til haga að þær aðgerðir sem hér hafa verið taldar upp og þær aðgerðir sem við erum að vinna að í aðgerðaráætlunin   ni eru auðvitað hluti af stærra samhengi. Framlag ríkisins er vissulega mikilvægt en hlutverk einkaaðila skiptir einnig sköpum. Í ljósi þess að við erum hér saman komin á ársfundi Nýsköpunarsjóðs er eðlilegt að áhersla sé lögð á fjármögnunarumhverfið. Innkoma nýrra framtakssjóða í ársbyrjun 2015 var afar þýðingarmikil og efldi til muna fjármögnunarumhverfið. Það er einmitt samspil ríkis og einkaaðila sem myndar þá heildarumgjörð sem íslensk nýsköpunar- og sprotafyrirtæki starfa í. 

Okkur er að takast vel til að tryggja fjármögnun á ákveðnum stigum í vaxtar- og þroskaferli fyrirtækja en við þurfum að vera meðvituð um hvar skórinn kreppir. Aukningin, bæði til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, er mikilvæg fyrir hugmyndir á fyrstu stigum, hvort sem þær koma úr rannsóknaumhverfinu eða frá frumkvöðlum með viðskiptahugmynd. Með þeim skattalegu hvötum sem fjármálaráðherra hefur lagt fram er verið að skapa mikilvæga hvata til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Það er nokkuð sem hefur verið kallað mikið eftir.

Eins og flestir þekkja gegnir Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins veigamiklu hlutverki í þessu samhengi. Það er mikilvægt er að við höfum hugfast að á fyrstu stigum vaxtarferlis fyrirtækja er nauðsynlegt að til staðar sé fjárfestir sem er reiðubúinn að koma inn þegar aðrir eru það ekki. Þörfin fyrir framtaksfé á frumstigum fyrirtækja hefur alltaf verið til staðar og einmitt þessi ástæða lá til grundvallar stofnunar Nýsköpunarsjóðs fyrir um 20 árum síðan.    Það er einnig vert að minnast þess að Nýsköpunarsjóður hefur ætíð verið trúr því grundvallar hlutverki sínu að  starfa fremst í virðiskeðju nýsköpunar og varða með því  brautina fyrir aðra framtaksfjárfesta sem síðar hafa komið við sögu.

En 20 ár eru langur tími, sérstaklega í hinu kvika landslagi nýsköpunarstarfs. Tækniþróun og nýsköpun eru svo hröð þessi misserin að maður á fullt í fangið við að halda í við daginn í dag – hvað þá það sem er að gerast í framtíðinni!

Í ljósi þess og þeirrar miklu og hröðu þróunar sem við upplifum í dag er kannski rétti tímapunkturinn að staldra við og  endurskoða þau opinberu úrræði sem að til staðar eru.  Í aðgerðáætluninni, sem ég hef nefnt hér ítrekað, er gerð tillaga um að stoðkerfi frumkvöðla og nýsköpunarstarfs verði endurskoðað. Tilgangurinn er skýr: Að bæta þjónustu stoðkerfis ríkisins til að mæta síbreytilegum þörfum.

Ég tel einnig tímabært að endurskoða lögin um Nýsköpunarsjóð og fara yfir hlutverk hans og skerpa enn frekar á hlutverki ríkisins þegar kemur að fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Ríkið þarf að vera til staðar en ríkið má ekki og á ekki að vera í samstarfi þar sem að einkaaðilar sinna sínu hlutverki og geta tekið það að sér.  Sú skoðun er að hefjast í ráðuneytinu og vænti ég góðs samstarfs við stjórn og starfsfólk Nýsköpunarsjóðs við þessa vinnu alla saman.

Ég vil að lokum, talandi um stjórn og starfsfólk Nýsköpunarsjóðs, þakka fyrir gott samstarf við okkur í ráðuneytinu þessi þrjú ár og hlakka til að hlakka til að heyra þau erindi sem verða flutt hér síðar á fundinum og óska ykkur öllum árangursríks fundar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum