Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. júní 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Mótaskrá á Landsmóti hestamanna 2016

Ágætu landsmótsgestir, gleðilega hátíð.

Til hamingju hestamenn! - til hamingju með íslenska hestinn.

Framundan er mikil veisla. Veisla fyrir augað og sálina. Að fá tækifæri til að vera með hestafólki og úrvali bestu hesta landsins í nokkra daga eru forréttindi. Sjálfur hef ég beðið lengi eftir þessu tækifæri og fyllist stolti yfir að fá nú að vera virkur þátttakandi í landsmóti hestamanna, ekki aðeins persónulega heldur einnig sem ráðherra. Á þeim vettvangi eru skyldurnar margar og sumar ljúfari en aðrar – og svo er með þessa; að fylgja mótaskrá Landsmótsins 2016 úr hlaði.

Ég hef komið á mörg landsmót enda eru þau afburðaskemmtun fyrir allt hestafólk og okkur hin sem höfum gaman af því að horfa á glæsileg hross og frábæra knapa. Tilhlökkunin síðastliðnar vikur hefur því verið mikil. Landsmót hestamanna vekur hvarvetna athygli erlendis jafnt sem hér á landi, enda ástæða til.

Íslenski hesturinn hefur vakið heimsathygli fyrir sérstaka eiginleika sína; fjölhæfan gang, fallegt útlit, dugnað og styrk. Aftur í aldir hefur hann verið Íslendingum þarfasti þjónninn og nú á síðari árum, má segja að hann sé farinn úr þjónshlutverkinu yfir í æðra og meira hlutverk. Tugþúsundir manna njóta samvista við hann í stuttum sem löngum ferðum og hann er án efa ein allra besta landkynning Íslands meðal erlendra þjóða. Einstakur. Og þótt hann sé ekki stærsti hestur í heimi hefur hann stærsta hjartað og eðli hans samgróið landi og þjóð. Íslenska þjóðin er eins. Íslenski hesturinn er þjóðin.

Fyrr á þessu ári undirritaði ríkisstjórn Íslands og hagsmunaaðilar íslenska hestsins samkomulag um fjármögnun og þátttöku fjölmargra aðila í verkefni til næstu fjögurra ára - Markaðsverkefni íslenska hestsins. Verkefnið snýst um að styrkja hina góðu ímynd íslenska hestsins með samhæfðum skilaboðum, markaðsaðgerðum og kynningarstarfi. Áhersla verkefnisins er verðmætasköpun og að auka tekjur af sölu hesta sem og vörum og þjónustu honum tengdum.

Verðmætasköpun íslenska hestsins er mikilvæg en verðmæti hans eru engin ef umgengni fólks við hestinn eru ekki af þeirri virðingu sem hann á skilið. Ég veit að þjóðin er undirbúin fyrir slíkt átak og ekki þarf að efa að hestaunnendur taka því fagnandi. Von mín er að það skili miklum og góðum árangri íslenska hestinum til vegs og virðingar.

Heiðruðu landsmótsgestir.

Ég lýk þessum ávarpsorðum á erindi úr ljóði þjóðskáldsins Einars Benediktssonar – Fákar, en það segir í raun meira en mörg orð um eininguna – manninn og hestinn – sem eru eitt.

Maður og hestur, þeir eru eitt

fyrir utan hinn skammsýna markaða baug.

Þar finnst, hvernig æðum alls fjörs er veitt

úr farvegi einum, frá sömu taug.

Þeir eru báðir með eilífum sálum,

þó andann þeir lofi á tveimur málum,

-og saman þeir teyga loftsins laug

lífdrykk af morgunsins gullroðnu skálum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum