Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. júní 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Setning landsmóts hestamanna, Hólum, Hjaltadal 30. júní 2016

Ágætu landsmótsgestir og Skagfirðingar, gleðilega hátíð og til hamingju með íslenska hestinn. Velkomin heim að Hólum!

Heiðurinn er minn að fá að vera hérna með ykkur „heima að Hólum“ þar sem afi minn menntaði sig. Að vera hér sem landbúnaðarráðherra er mér sérstaklega ánægjulegt.

Sjálfum finnst mér fátt jafn gaman og að horfa á glæsileg hross, frábæra knapa.

Það er viðeigandi að landsmót hestamanna fari fram hér að Hólum enda eru Hólar Mekka íslenska hestsins þar sem nemendur geta tekið háskólapróf í reiðmennsku og reiðkennslu -- og í hestafræðum svo eitthvað sé nefnt, og Hólahrossin hafa lengi borið staðnum gott vitni.

Saga íslenska hestsins er einnig nátengd staðnum. Ekki langt frá þessum merka stað, þar sem biskupar norðursins höfðu aðsetur, er Kolkuós. Ein elsta frásögn um hross á Íslandi er einmitt frásögnin af því þegar skip sem hlaðið var búfé kom í Kolkuós.

Þar keypti Þórir dúfunef sér unghross sem hann kallaði Flugu og þótti „allra hrossa skjótast“. Fluga eignaðist hestfolald að nafni Eiðfaxi sem síðar var fluttur til Noregs, var mjög óstýrilátur og varð þar flokki manna að bana.

Eins og við sjáum er nú öldin önnur; íslenski hesturinn vekur alls staðar hrifningu og er hugljúfi eigendum sínum víða um heim.

Fluga hins vegar týndist í feni á Flugumýri.

Og sem betur fer fór þetta ekki á hinn veginn, Eiðfaxamýrarbrenna á sturlungaöld hljómar ekki alveg nógu vel.

Það er einnig vel við hæfi að afhjúpa hér á eftir minnisvarða hér að Hólum um leiðtogann Svein Guðmundsson. Sveini og reyndar mörgum öðrum eiga Skagfirðingar mikið að þakka er kemur að hestamennskunni. Við sem þekktum Svein vitum hversu hestamennskan, ræktunin, aðstaða og orðspor hestsins var honum mikilvægt. Hann barðist fyrir þessu öllu af sinni alkunnu eftirfylgni og ákefð og uppskar eftir því. Við starfi Sveins tóku Guðmundur, Auður og fjölskylda og áfram vex hróður starfs þeirra allra.

Kæru gestir

Hrossarækt, kennsla þjálfun og hvað eina sem kemur að þjónustu við Íslenska hestinn er sí- stækkandi atvinnugrein og vaxandi verðmætasköpun í útflutningstekjum sem við verðum að hlúa vel að. Það gerum við meðal annars með því að halda í sér-einkenni íslenska hestsins og hlúa vel að þeim mörkuðum sem nú þegar eru fyrir íslenska hestinn, í þeim efnum má nefna fjögurra ára verkefni ríkisstjórnar Íslands og hagsmunaaðila sem nefnist Markaðsverkefni íslenska hestsins og miðar að því aðstyrkja hina góðu ímynd íslenska hestsins með samhæfðum markaðsaðgerðum og kynningarstarfi. Því fylgir vonandi aukin verðmætasköpun, ekki síst vegna aukinnar sölu hesta sem og á vörum og þjónustu honum tengdum.

Ennfremur ber okkur að róa á ný mið í markaðssetningu og má þá nefna þann samning sem skrifað var undir við Kína í síðustu viku um sölu á lifandi hrossum. Íslensk hross uppfylla heilbrigðiskröfur kínverskra stjórnvalda og því getur útflutningur á grundvelli þess samnings hafist á næstu misserum.

Við vitum að íslensk hross munu vinna hug og hjörtu Kínverja eins og landsliðið í knattspyrnu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi hefur unnið hug og hjörtu heimsbyggðarinnar! Á landsmóti sjáum við knapa og hross keppa af mikilli alvöru og lítið er gefið eftir enda metnaður ykkar mikill. Þrátt fyrir þennan mikla metnað og oft á tíðum harða og óvægna keppni er andrúmsloftið gott og glatt yfir fólki.

Landsmót er enda stórviðburður, hátíð sem þúsundir sækja, atvinnumenn, áhugamenn, leikmenn og við sjáum flottar skepnur,fima knapa, við hlustum á sérfræðingana , sem eru ófáir hér, bera saman hross og knapa, segja sögur , sannar sem og ýktar og jafnvel örlítið skáldaðar af hrossum og mönnum.

Friðrik Pálmason heitinn frá Svaðastöðum var einn af gersemum okkar Skagfirðinga, orðheppinn, oft óheflaður en sá gjarnan hið skemmtilega í lífinu. Ekki veit ég hversu snjall ræktandi Friðrik var en ég hef þó lært að frá Svaðastöðum komu gjarnan gæða hross.

Í einni af bókum Björns Jóhanns Björnssonar , Skagfirskar skemmtisögur segir af Friðriki bónda en Friðrik var liðtækur í “braskinu” seldi jafnvel sama hrossið tvisvar!

Eitt sinn mun Friðrik þó hafa viljað losa sig við hest er var illur viðureignar en ekkert gekk að ná hestinum. Leiddist Friðrik bónda þófið og sagði við þá sem áttu að fanga hestinn “Æi , skjótiði bara hana gránu gömlu , hún er svo gæf”

Kæru landsmótsgestir. Enn og aftur hjartanlega velkomin í Skagafjörð, heim að Hólum í hjarta hestamennskunnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum