Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. mars 2017 MatvælaráðuneytiðANR Ræður og greinar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur

Ræða ráðherra á málþingi um sveitarfélög og ferðaþjónustu, 3. mars 2017

Kæru fundarmenn 

Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að ávarpa ykkur í dag.

Því hefur verið fleygt að endurreisn íslensks efnahagslífs sé einum manni að þakka, ferðamanninum.

Þó segja megi að í þessari staðhæfingu felist kannski fullmikil einföldun er samt heilmikið til í henni. Greiningardeild Íslandsbanka benti á það í vikunni, að árið 2016 var fyrsta árið í hagsögu lýðveldisins þar sem þjónustuútflutningur var hærri fjárhæð en vöruútflutningur. Ástæðan er auknar tekjur af ferðamönnum, sem bankinn áætlaði að hefðu í fyrra numið hvorki meira né minna en þrjátíu og níu prósentum af útflutningstekjum. Það er mun meira en ál og sjávarafurðir samanlagt. Þetta er magnað svo ekki sé fastar að orði kveðið, og gera má ráð fyrir að þetta forskot ferðaþjónustu í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins aukist enn frekar á þessu ári.

Þjóðin hefur sannarlega notið góðs af sterkri innkomu ferðamannsins síðustu ár með aukinni hagsæld, fjölbreyttum heilsársstörfum og auknu framboði af allskyns þjónustu sem hefði þótt frekar fjarlæg fyrir ekki svo löngu síðan: Frá grunnþjónustu sem bætir hversdaginn, eins og lengri afgreiðslutími verslana, yfir í sérhæfða þjónustu á borð við það, að geta skellt sér á þyrluskíði í Fljótunum, snætt kvöldverð á Michelin stað og flogið beint til 80 áfangastaða erlendis. Þetta er breytt mynd … og hún er falleg, þegar á heildina er litið.

En þegar nánar er að gáð þá sést að myndin er dálítið skökk. Þó gistinóttum hafi vissulega fjölgað um allt land, líka utan háannatímans, þá er ferðaþjónustan einkum heilsáratvinnugrein á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og sums staðar Norðanlands, með tilheyrandi bættri nýtingu innviða og aukinni arðsemi á þeim svæðum.

Greinin er enn fjarri því að vera heilsársatvinnugrein á landinu öllu. Það þarf að rétta þessa mynd af svo að allir landshlutar njóti góðs af, og til þess að ferðaþjónustan geti orðið enn jákvæðara byggðaþróunarafl. Búa þannig um hnútana að ferðamenn bæði laðist í auknum mæli að fáfarnari byggðum landsins – en ekki síst að þær hafi burði til þess að geta tekið vel á móti þeim.

Í nýlegri rannsókn um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu, sem Rannsóknamiðstöð ferðamála vann með styrk frá ráðuneytinu, voru tekin viðtöl við íbúa á nokkrum stöðum á landinu. Í röddum þeirra birtist í hnotskurn í hverju þessi skekkja felst:

Einn þátttakandi segir: „Ég held að umgengni ferðamannanna sé almennt góð. Ég held að það sé frekar upp á okkur hin að klaga, sem sagt að það vanti ruslatunnur og klósett.“

Annar segir: „Það koma ekki tekjur í sveitarfélagið fyrir ferðamennina og sveitarfélagið er kannski frekar að leggja út fyrir þá og þetta pirrar fólk orðið dálítið mikið. Okkur finnst að fyrst við búum hérna, og með svona marga ferðamenn, að sveitarfélagið eigi að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Á meðan er sveitarfélagið illa sett og við fáum ekki nóg viðhald til dæmis. Þetta er ekki sú mynd sem við viljum sjá.“ – Tilvitnun lýkur.

Staða mála er eðlilega mismunandi eftir svæðum, en frásagnir og sjónarmið á borð við þessi eru eitthvað sem við hljótum að taka alvarlega. Að íbúar á vinsælum ferðamannasvæðum skuli þurfa að skammast sín fyrir að þjónustan sé ekki nógu góð til að geta tekið sómasamlega á móti gestum, eða séu fullir gremju yfir því að þurfa að standa straum af dýrri uppbyggingu af vanefnum án þess að fá tekjur á móti.

Í Vegvísi í ferðaþjónustu kemur fram að útfæra þurfi leiðir til þess að sveitarfélög hafi tekjur til að mæta kostnaði við uppbyggingu og rekstur áfangastaða ferðamanna sem lúta þeirra stjórn. Sveitarfélögum er í dag veitt umtalsverð hlutdeild úr sameiginlegum sjóðum til uppbyggingar í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sem mun úthluta yfir hálfum milljarði króna til verkefna um allt land á næstu dögum.

En það hefur legið fyrir um nokkra hríð að það þyrfti að hugsa þetta fyrirkomulag upp á nýtt. Koma upp skilvirkra kerfi sem kæmi þörfu fjármagni til uppbyggingar innviða á rétta staði á réttum tíma. Sjálfbærara kerfi sem yrði til þess að við gætum farið að vinna fram fyrir okkur í stað þess að vera sífellt í viðbragðs-gír. Sem færði aukin áhrif til þeirra sem búa næst verkefnunum.

Þið fenguð fyrr í dag kynningu á hinni nýju nálgun sem felst í Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Með henni er verið að innleiða löngu tímabæra langtímahugsun í skipulag og framkvæmd innviða-uppbyggingar vegna álags af völdum ferðamennsku. Landsáætlun lýtur aðallega aðgerðum til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, og hún lýtur aðallega að landi í eigu eða umsjón hins opinbera, þótt sveitarfélög og landeigendur geti gert tillögu um að fleiri ferðamannastaðir falli undir hana.

Um leið og þessi nýja nálgun er innleidd er ljóst að endurskoða þarf hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, enda væri annars umtalsverð skörun á milli þessara tveggja verkfæra. Sú vinna stendur yfir, en það er alveg ljóst að Landsáætlun nær ekki utan um öll þau markmið sem mikilvæg eru í uppbyggingu innviða vegna ferðaþjónustu. Framkvæmdasjóðurinn mun því áfram hafa hlutverki að gegna þótt það verði með breyttu sniði.

Í haust mun gistináttagjaldið þrefaldast þegar það fer úr 100 kr. í 300 kr, en tilgangur þess er sem kunnugt er að fjármagna framkvæmdir á ferðamannastöðum. Uppi hafa verið hugmyndir um að gistináttagjaldið renni beint til þeirra sveitarfélaga þar sem þau eru innheimt. Ekkert hefur verið ákveðið hvað það varðar en hafa ber í huga að með því væri ekki komið sérstaklega til móts við þau svæði sem fá mikla umferð dagsferðamanna, sem nýta þjónustu sem sveitarfélög veita en gista ekki á staðnum og skilja ef til vill lítið eftir sig á svæðunum. – Í því fælust heldur engin tækifæri til að stýra umferð.

Meðal annars þess vegna tel ég eðlilegt að sveitarfélög hafi heimildir til að leggja á þjónustugjöld til uppbyggingar og reksturs ferðamannastaða í sinni eigu og umsjá, eins og lagt er til í Vegvísinum. Stefna ríkisstjórnarinnar er að heimilt verði að leggja á bílastæðagjöld og unnið er að frumvarpi um það á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Taka þyrfti tillit til slíkrar innheimtu við úthlutanir úr Framkvæmdasjóðnum. Einnig þyrfti að sníða innheimtuna þannig að hún verði sem þægilegust fyrir bæði ferðaþjónustufyrirtæki og þá sem ferðast á eigin vegum.

Þetta er mín sýn á hlutina eins og staðan er í dag en brýnt er að halda áfram að skoða kostina ofan í kjölinn. – Ég hef sagt það áður og get sagt það aftur að mér finnst umhugsunarefni hversu mikil orka hefur farið í umræðu um fyrirkomulag gjaldtöku og aftur gjaldtöku. Tekjur þjóðarbúsins af ferðamönnum skipta hundruðum milljarða; það getur því ekki staðist að fjármögnun sé stærsta og flóknasta umræðuefnið, þótt það eigi vissulega rétt á sér sem eitt af mörgum úrlausnarefnum.

Góðir gestir, frá því ég hóf störf sem ráðherra ferðamála hefur það verið mér hugleikið hversu mikið landsbyggðin á inni í sókn ferðaþjónustunnar á Íslandi. Margt má gera til að umferð ferðamanna dreifist betur um landið. Það eru mikil tækifæri í vöruþróun og nýsköpun. Hvetja þarf til fjárfestinga í nýjum seglum, en horfa þarf meðal annars til slíkra þátta við endurskipulagningu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Sjóðurinn hefur jú einnig það hlutverk að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði, en uppfyllir það hlutverk sitt ekki á nógu skilvirkan hátt í dag. Svo má heldur ekki gleyma að hlúa að þeim samfélagslegu þáttum sem fela í sér aðdráttarafl fyrir ferðamenn – menningarinnar á hverjum stað.

Setja þarf aukinn kraft í markaðssetningu landshlutanna. Eins og kom fram á fundi Íslandsstofu í síðustu viku, fjalla erlendir fjölmiðlar í auknum mæli um aðdráttarafl einstakra landshluta og er það vel. Sem dæmi eru Vesturland og Norðurland á topp listum ársins í ár yfir staði til að heimsækja hjá miðlum á borð við Forbes og Condé Nast Traveler.

Ég þykist vita að þessi umfjöllun sé að miklu leyti ötulli starfsemi markaðsstofanna að þakka en styrkja þarf svæðisbundið stoðkerfi ferðaþjónustunnar til þess að nýta þennan meðbyr frekar. Einnig til þess að vinna á borð við stefnumótandi stjórnunaráætlanir, sem ferðamálastjóri mun segja okkur betur frá hér á eftir, skili sér sem best. Íbúar á hverjum stað þurfa að sjá ávinninginn af ferðaþjónustunni og hafa tækifæri til að hafa áhrif á hana með virku samráði, svo að þróunin sé á þeirra forsendum. En um leið og horft er á hvert svæði fyrir sig þarf einnig að huga áfram að heildarmyndinni. Samstarfsyfirlýsing Íslandsstofu og markaðsstofanna sem undirrituð var á áðurnefndum fundi í síðustu viku er jákvætt skref í því samhengi.

Okkur er tíðrætt um að við dreifum ekki ferðamönnum. Ferðamaðurinn fer þangað sem hann langar að fara – en þó ekki ef hann kemst ekki þangað. Til þess að vöruþróun og markaðssetning landshlutanna skili árangri er greitt samgöngunet allt árið um kring grunnforsenda. Ég bind miklar vonir við nýjan flugþróunarsjóð en nýlega voru reglur hans rýmkaðar til að styrkja einnig flug sem millilenda t.d. á Keflavíkurflugvelli en halda síðan áfram með beinni tengingu til Akureyrarflugvallar eða Egilsstaðaflugvallar. Þá hófst beint innanlandsflug Flugfélags Íslands milli Keflavíkur og Akureyrar í síðustu viku sem er fagnaðarefni. Einnig er hafin vinna í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu við að skoða leiðir til þess að stórbæta vegakerfið og þar með aðgengi að ferðamannastöðum í fáfarnari landshlutum. Við vitum vel að þetta þarf allt að spila saman til þess að árangur náist.

Kæru gestir, ég lít svo á að við séum að hefja næsta kafla í þróunarsögu ferðaþjónustu á Íslandi. Kafla sem mun fjalla um eflingu heilsárs ferðaþjónustu í dreifðari byggðum landsins og rétta af skekkjuna í þeirri annars jákvæðu þróun sem hefur þegar átt sér stað.

Það, að skrifa þessan kafla svo vel sé, kallar á samtakamátt sem ég skynja glöggt hér í dag í þessum sal. Stjórnsýslan mun ekki láta sitt eftir liggja. Við höfum nýlegt samhæfingar-verkfæri, Stjórnstöð ferðamála, þar sem stjórnvöld, sveitarfélög og greinin eiga öll aðkomu að verkefnunum framundan. Þá tel ég að við höfum stigið mikilvægt skref núna í vikunni með því að stofna nýja skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu, sem tók formlega til starfa í fyrradag.

Góðir gestir, ég vil þakka Sambandi sveitarfélaga fyrir að standa að þessu mikilvæga málþingi hér í dag. Ferðaþjónustan færir okkur öllum margvíslegar áskoranir um þessar mundir sem við þurfum að taka föstum tökum; ég tel að við séum á réttri leið og hlakka til að takast á við verkefnin með ykkur.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum