Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. apríl 2017 MatvælaráðuneytiðANR Ræður og greinar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur

Ræða ráðherra á vorfundi Landsnets, 4. apríl 2017

Kæru fundargestir,

Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á árlegum vorfundi Landsnets.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets, kom í opnunarávarpi sínu meðal annars inn á íslenska orkustefnu. Ég fagna því og langar að fjalla aðeins um mikilvægi langtíma sýnar í ávarpi mínu.

Staðreyndin er sú að í raun er ekki til formleg orkustefna fyrir Ísland. Ég tel það bagalegt og mér finnst mikilvægt að stjórnvöld taki af skarið og marki formlega orkustefnu til lengri tíma. Sú vinna er raunar þegar hafin innan míns ráðuneytis.

Það er jafn mikilvægt að hafa langtímastefnu á sviði orkumála og annarra mikilvægra málaflokka þar sem slík stefna hefur verið mótuð, eins og samgöngumála, ferðamála, sjávarútvegs, heilbrigðismála og menntamála, svo dæmi séu tekin.

Með orkustefnu gefst okkur tækifæri til að setja í sameiningu fram ákveðna langtímasýn í orkumálum okkar Íslendinga, hvert við viljum stefna og hvaða áherslur við ætlum að hafa að leiðarljósi. Einnig gefst með henni tækifæri til að marka okkur sérstöðu í alþjóðlegum samanburði og gæti orkustefnan þannig án efa verið stuðningur við jákvæða ímynd Íslands og markaðssetningu.

Ég tel að í grunninn ríki almenn samstaða um þau meginsjónarmið sem koma myndu fram í orkustefnu Íslands. Almennar áherslur okkar í orkumálum, í dag og á undanförnum árum, hafa verið um aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í okkar orkubúskap, áframhald orkuskipta, sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, orkuöryggi heimila og fyrirtækja, nýsköpun í orkumálum, aukið afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni, virka samkeppni á raforkumarkaði, auknar orkurannsóknir, útflutning hugvits og þekkingar á sviði orkumála og að arður af nýtingu orkuauðlinda í opinberri eigu renni til eigenda þeirra, það er að segja þjóðarinnar. Fleira má telja til en allt eru þetta mikilvægir grundvallarþættir sem varða veginn.

Við erum hér í grunninn að ræða um ákveðið jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta til lengri tíma. Það er að segja: jafnvægi milli hinna þriggja vídda sjálfbærrar þróunar. Þetta ætti að vera kjarninn í okkar orkustefnu og forsenda sáttar um mikilvægi hennar í þjóðhagslegu samhengi.

Í slíkri orkustefnu gefst ennfremur tækifæri til að koma fram með áherslur um sjálfa orkunýtinguna. Það er, til hvaða hluta við ætlum að nýta orkuna.

Ég nefni sem dæmi að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á aukin orkuskipti í samgöngum. Til að mæta því þarf að tryggja að næg raforka, og fullnægjandi flutnings- og dreifikerfi raforku, sé til staðar á landsvísu til að taka á  móti aukinni rafbílavæðingu.

Sama á við um áherslur sem lúta að orkuöryggi fyrir heimili og fyrirtæki. Þau mál hafa talsvert verið í umræðunni og eru til skoðunar innan ráðuneytisins og Orkustofnunar. Brýnt er að regluverk raforkumarkaðarins tryggi ábyrgð og skyldur þegar kemur að orkuöryggi á heildsölumarkaði raforku.

Kæru fundargestir,

Fyrirtækið Landsnet tók formlega til starfa 1. janúar 2005. Samkvæmt lögum um stofnun Landsnets, og raforkulögum, er hlutverk fyrirtækisins að byggja flutningskerfi raforku upp „á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku“.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um þær áskoranir sem blasa við varðandi uppbyggingu á flutningskerfi raforku. Eins og ég kom inn á á nýafstöðnu Iðnþingi þá er hér um að ræða eina mikilvægustu innviði landsins. Vaxandi þörf er á uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku á landsvísu og ítrekað hefur verið bent á þjóðhagslegan kostnað sem hlýst af aðgerðaleysi í þessum efnum. Raforkunotkun og eftirspurn eftir raforku er í stöðugum vexti og ljóst er að álag mun halda áfram að aukast á flutningskerfið.

Eins og gengur eru skiptar skoðanir um hvernig skuli bregðast við. Að mínu mati er grundvallaratriði að við kveikjum á perunni varðandi hver er tilgangur flutningskerfisins.

Flutningskerfið er, á sama hátt og samgöngukerfin og fjarskiptakerfin, ein af lífæðum samfélagsins, sem saman mynda undirstöðu hagvaxtar og velferðar, skila fjölbreyttum störfum til samfélagsins, bæta samkeppnishæfni Íslands og efla byggðaþróun.

Við þurfum að byrja á að ná fram sameiginlegum skilningi um hlutverk og tilgang þessara sameiginlegu innviða okkar.

Ein leið til þess er að leggja fram skýra langtímasýn og -stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins. Vinna að henni er þegar hafin innan ráðuneytisins og verða drög að tillögu til þingsályktunar um slíka stefnu lögð fram til kynningar og umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að tillagan byggi að hluta á þeirri þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2015 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína en því til viðbótar mun hún einnig fela í sér aðrar stefnumótandi áherslur um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Það er mjög mikilvægt að vel takist til með þessa stefnumótun og að við vöndum til verka. Með þingsályktun getur Alþingi kveðið á um ákveðnar áherslur og meginreglur sem ber að taka mið af við uppbyggingu flutningskerfisins og við gerð kerfisáætlunar. Mikilvægt er að Alþingi leggi með þessum hætti línurnar um framtíðarsýn innan þessa málaflokks.

Sú áskorun sem blasir við okkur er að reyna að ná fram eins mikilli sátt og unnt er um þessa mikilvægu innviði – og að í því sambandi horfum við enn og aftur til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra sjónarmiða. Sáttin til lengri tíma felst í eðlilegu jafnvægi milli þessara þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, alveg á sama hátt og með orkustefnuna sem ég kom að fyrr í mínu ávarpi.

Við höfum ákveðið tækifæri núna til að taka ábyrga og upplýsta umræðu um mikilvægi þessara innviða. Opið samráð og samvinna skipta hér sköpum og mun ég hafa það að leiðarljósi í þessari vinnu.

Drög að þingsályktunartillögunni verða eins og áður segir lögð fram til kynningar og umsagnar á næstu vikum og í framhaldi af því verður farið vel yfir þær ábendingar og athugasemdir sem berast, áður en málið verður lagt fyrir Alþingi.

Góðir fundarmenn,

Umræða um eignarhald og sjálfstæði Landsnets skýtur í sívaxandi mæli upp kollinum. Þau mál voru meðal annars til umræðu í pallborði á Iðnþingi nýlega.

Ítrekað hefur verið bent á að til lengri tíma sé óheppilegt að Landsnet sé í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna, meðal annars út frá mögulegum hagsmunaárekstrum. Sem kunnugt er eru eigendur Landsnets í dag Landsvirkjun með 65 prósenta hlut, RARIK með 22%, Orkuveita Reykjavíkur með 7% og Orkubú Vestfjarða með 6%.

Samkvæmt núgildandi lögum geta þessir aðilar einungis selt eignarhluti sína í Landsneti sín á milli.  Komið er inn á þetta atriði í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2015, þar sem segir að mikilvægt sé að kannaðar verði „allar leiðir til að tryggja og efla sjálfstæði Landsnets gagnvart öðrum aðilum á raforkumarkaði“.

Ég tel að við eigum að ræða opinskátt hvernig við teljum eignarhaldi Landsnets best fyrir komið til lengri tíma. Tólf ár eru liðin frá stofnun fyrirtækisins og því ágætur tímapunktur núna til að endurmeta fyrirkomulag eignarhalds þess. Ég er sammála Ríkisendurskoðun um að mikilvægt sé að huga að sjálfstæði Landsnets og tel rétt að skoða vandlega hvernig það verði best gert.

Tekið skal fram að með því er ekki verið að opna á umræðu um einkavæðingu Landsnets. Með hliðsjón af hlutverki og tilgangi Landsnets tel ég mikilvægt að tryggt verði að fyrirtækið verði ávallt að minnsta kosti í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga.

Við þurfum fyrst og fremst að tryggja að rekstur og umhverfi flutningsfyrirtækisins sé í samræmi við markmið raforkulaga og að fyrirtækinu sé tryggt það svigrúm sem það þarf til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu með sjálfstæðum og faglegum hætti.

Góðir fundarmenn

Mér þykir leitt að hafa ekki tækifæri til að hlýða á þau erindi sem koma hér í kjölfarið, en samstarfsfólk mitt úr ráðuneytinu sér til þess að þau komist til skila og gagnist okkur í þeirri vinnu sem er framundan. Við munum eftir sem áður eiga reglulegt og gott samtal við Landsnet um þau mikilvægu mál sem við er að fást og ég þakka fyrir gott samstarf þann stutta tíma sem ég hef gegnt þessu embætti.

Yfirskrift þessa fundar er: “Kviknar á perunni?“ Það er góð spurning! Ég lít á það sem sameiginlegt verkefni okkar að koma því til leiðar að fleiri kveiki á perunni varðandi þau tækifæri sem öflugt flutningskerfi raforku felur í sér fyrir land og þjóð, ekki síst á vegferð okkar í átt að grænni framtíð, þar sem Ísland skerpir enn frekar á sérstöðu sinni sem leiðandi samfélag á sviði sjálfbærrar orku. Það er framtíðarsýn sem mér finnst hrein og klár forréttindi að fá að vinna að með ykkur. 

Takk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum