Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 2017 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á vorfundi Tækniþróunarsjóðs 6. júní 2017

Kæru gestir

Við Íslendingar kunnum þá list ágætlega að gagnrýna, og liggjum ekki á skoðunum okkar ef okkur mislíkar, en við erum gjarnan sparari á hrósið. Ég hef þó tekið eftir því að umfjöllun um Tækniþróunarsjóð er veigamikil undantekning frá þessu. Á þeim stutta tíma sem ég hef gegnt ráðherraembætti virðist mér sem sjóðurinn uppskeri almennt mjög jákvæð ummæli. Margir hafa látið þau orð falla að án hans hefði fyrirtæki þeirra ekki komist á legg heldur dagað uppi fjárvana í nýsköpunargjánni, ef svo má segja. Þetta á t.d. við um nokkur af okkar öflugustu nýsköpunarfyrirtækjum sem enginn vill nú vera án og lifðu að þeirra eigin sögn af vegna stuðnings Tækniþróunarsjóðs. Nýsköpun krefst nefnilega ekki aðeins úthalds og þolinmæði heldur líka fjármagns til þróunar.

Skilningur stjórnvalda á mikilvægi Tækniþróunarsjóðs hefur vaxið og árangur hans, sem og jákvætt umtal um þann árangur, á vafalítið talsverðan þátt í því. Sjóðurinn hefur eflst mikið á síðustu árum og ráðstöfunarfé hans er nú um 2,3 milljarðar á ári. Beidd í framboði styrkja hefur á sama tíma aukist og samræmist nú betur en áður þörfum frumkvöðla sem og fyrirtækja sem lengra eru komin. Styrkjaflokkarnir eru nú orðnir fimm. Fremst í virðiskeðjunni, eins og þið þekkið, er Fræ, sem er ætlaður frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þá koma Sproti, Vöxtur, Sprettur og Markaðsstyrkur - en heitin lýsa vel hlutverki og markmiðum hvers flokks um sig. Þetta finnst mér góð þróun og hún hefur stuðlað að því að viðskiptahópur sjóðsins hefur breikkað og meiri samfella hefur náðst í starfið en áður var.

Samhliða þessum breytingum og góðum árangri sjóðsins hafa fleiri en áður sýnt honum áhuga. Stjórn sjóðsins hefur reynt að mæta þeim væntingum með því að opna upp matskerfið, sem margir telja að hafi um of verið bundið við óljósar væntingar um framtíðar sölutekjur. Ég vil nefna það sérstaklega að skapandi greinar og ferðaþjónusta eiga, eins og allar aðrar atvinnugreinar, möguleika á að njóta styrkja úr Tækniþróunarsjóði. Starfsreglur sjóðsins verða aldrei greyptar í stein. Þær þurfa að geta tekið mið af samfélagsþróuninni til að svara þeim hröðu breytingum sem við stöndum frammi fyrir. Þannig mætti segja að þetta væri umbreytingasjóður fyrir atvinnulífið.

Til lengri tíma litið hlýtur metnaður okkar að standa til þess að auka fjármagn til rannsókna og þróunar. Hlutur fyrirtækja af heildarútgjöldum til rannsókna og þróunar er nú tæpir tveir þriðju hlutar en rúmur þriðjungur eru framlög ríkisins, meðal annars til háskóla. Hlutur fyrirtækja er í samræmi við þörf þeirra fyrir  aukið rannsókna- og þróunarfé, sem tengist umbótum og nýsköpun í eigin starfsemi til að standast alþjóðlega samkeppni. Við vitum að ríkisvaldið hefur hlutverki að gegna í stuðningi við frumkvöðla og sprotafyrirtæki og það hlutverk þurfum við að rækja og rækta.

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem tekin verður til afgreiðslu á fundi ráðsins í næstu viku, er leiðarljós að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái þremur prósentum af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024. Þetta er metnaðarfullt takmark sem ekki næst af sjálfu sér - og felur í sér talsverða aukningu frá þeim tveimur komma tveimur prósentum sem varið var til rannsókna og þróunar árið 2015. Þótt bilið hafi eitthvað minnkað frá þeim tíma er enn langt í land. Það er mikil áskorun að ná þessu takmarki en það er engu að síður skynsamlegt í ljósi þeirra hröðu tækniframfara og samfélagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir.

Tækniþróunarsjóður er framvörður þessara breytinga og á honum hvílir mikil ábyrgð. Honum er falið að ráðstafa miklum fjárhæðum til vel valinna verkefna sem falla að stefnu stjórnvalda eins og hún birtist í stefnu Vísinda- og tækniráðs. Ég er þakklát starfsfólki og stjórn sjóðsins fyrir þeirra góða starf, og öll erum við þakklát og stolt af þeim frábæru frumkvöðlum sem hafa lagt allt undir til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum