Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. janúar 2018 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur við útskrift löggiltra endurskoðenda, 11. janúar 2018

Kæru útskriftarnemar og aðrir gestir. 

Í dag er full ástæða til að fagna, þegar sex nýjir einstaklingar bætast í hóp löggiltra endurskoðenda hér á landi. Þið sem nú hafið lokið öllum prófum með tilskilinni lágmarkseinkunn, og uppfyllið að öðru leyti skilyrði laga um endurskoðendur, eruð frá og með deginum í dag orðnir hluti af afar mikilvægri keðju heilbrigðs viðskiptalífs, sem samfélagið reiðir sig á.

Kröfur til endurskoðenda hafa verið að breytast og aukast mikið á undanförnum árum.  Meiri kröfur eru gerðar til fyrirtækja um að afkomutölur séu í rauntíma og með aukinni tækni og hraða verður starf þeirra sem koma að fjárhagsupplýsingum fyrirtækja að þróast, ef það á að þjóna því hlutverki sem því er ætlað.  Endurskoðunarstarfið verður að fylgja þessari þróun, sem á sér stað um allan heim. Viðskipti milli landa eru daglegt brauð og samanburður á fjárhagslegum upplýsingum er því mikilvægur. Vinna endurskoðenda milli landa þarf einnig að vera sambærileg.  Því skipta alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar máli í samanburðarhæfni milli landa og því viðskiptaumhverfi sem við lifum við í dag.

Eitt er þó ekki að breytast og það er hlutleysi eða óhæði endurskoðandans. Þið eruð samkvæmt lagabókstafnum sá hlekkur viðskiptakeðjunnar sem á að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum og mikil ábyrgð hvílir á ykkar herðum. Óhæði og gagnsæi í vinnu endurskoðandans eru meðal mikilvægustu forsendna fyrir tiltrú fjárfesta og annarra sem reiða sig á fjárhagsupplýsingar fyrirtækja.

Það er að sjálfsögðu brýnt að lögum og reglum sé fylgt og þar kemur þekking ykkar og reynsla hvað varðar reikningsskil fyrirtækja til skjalanna. Í því sambandi er ekki nóg að „tikka í boxin“ því endurskoðendur skulu, reynslu sinnar og þekkingar vegna, starfa sem fulltrúar samfélagsins og vera eftirtektarsamir og gagnrýnir í öllum sínum störfum. Það er ykkar hlutverk að hafa varkárni, óhæði og almennt gott siðferði að leiðarljósi – allt í þágu samfélagsins og í þágu heilbrigðs viðskiptaumhverfis.

Samfélagið og þeir sem lesa ársreikninga félaga reiða sig á að áritun endurskoðanda, um að ársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstri félagsins, sé rétt.  Ársreikningurinn og þær upplýsingar sem koma fram í honum eru hinar opinberu fjárhagsupplýsingar sem notaðar eru í viðskiptum og mati einstaklinga á afkomu og fjárhagsstöðu félaga.  Það fylgir því ábyrgð að árita ársreikning og þessi ábyrgð er nú ykkar.

Megi undirritun ykkar vera til þess að auka virði þeirra upplýsinga sem fram koma í ársreikningnum með gagnrýni ykkar og þekkingu. Að sá sem les ársreikning með undirrituðu áliti frá ykkur geti treyst því að í hvívetna hafi þið með árvekni og samviskusemi endurskoðað umræddan reikning.

Endurskoðendur þurfa að fylgjast með og laga sig að breyttum aðstæðum, en þeir þurfa samt að hafa í huga að vinna þeirra þarf ætíð að vera vel ígrunduð og faglega unnin á traustum grunni.

Í ráðuneytinu er nú unnið að breytingu að lögum um endurskoðendur sem stefnan er að leggja fram á vorþingi. Í þeirri vinnu er tekið mið af breytingum sem Evrópusambandið hefur lagt fram með bættri tilskipun um endurskoðun, og með reglugerð um endurskoðun eininga sem tengjast almannahagsmunum. Einnig er farið yfir reynslu af þeim lögum um endurskoðendur sem hafa verið í gildi frá 2009 með það að markmiði að bæta og skýra og einfalda eins og mögulegt er.

Frá og með þessum degi eruð þið orðin hluti af stétt 320 einstaklinga sem hafa löggildingu sem endurskoðendur. Þið hafið nú undirritað drengskaparheit um að þið munið af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna rækja það starf sem löggildingin veitir ykkur rétt til, og hlíta lögum og öðrum reglum sem um störf ykkar varða. Í framhaldi af því eru ykkur veitt réttindi með löggildingu til endurskoðunarstarfa, og jafnframt rétturinn til að kalla ykkur endurskoðendur.

Ágætu endurskoðendur og góðir gestir.

Þessi orð eru ætluð sem veganesti nú á þessum merku tímamótum í ykkar lífi. Ég óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar og færi ykkur hamingjuóskir í tilefni þessa áfanga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum