Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. nóvember 2018 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á morgunráðstefnu FRAMÍS, 1. nóvember 2018

Góðir fundargestir

Það er mér sönn ánægja að vera viðstödd morgunráðstefnu FRAMÍS,  nýstofnuðum samtökum framtaksfjárfesta á Íslandi.

Framtaksfjárfestar gegna þýðingarmiklu hlutverki í vistkerfi nýsköpunar og teljast sem ein af fimm meginstoðum nýsköpunar, í hópi með háskólasamfélaginu, frumkvöðlum, fyrirtækjaumhverfinu og opinbera stuðningskerfinu.

Nýsköpunarsamfélagið hér á landi er ekki stórt og því er okkur afar mikilvægt að allir aðilar vinni vel saman og að við náum fram skilvirkni og sveigjanleika í okkar starfi. Við þurfum að ná saman fólki úr ólíkum áttum og með mismunandi reynslu og þekkingu, til að skapa eitthvað nýtt og koma auga á nýjar leiðir og ný tækifæri. Þar sem ólíkir aðilar koma saman eru meiri líkur á að við náum einhverju nýju og spennandi fram. Þetta á við um samvinnu milli mismunandi atvinnugreina,  samvinnu milli háskóla og atvinnulífs, samvinnu milli opinberra stofnana og einkageirans og einnig samvinnu milli opinberra stuðningssjóða og framtaksfjárfesta.

Í fyrradag héldum við Nýsköpunarþing, þar sem helstu áherslur og áskoranir nýsköpunar voru til umræðu. Á því þingi kom einmitt fram sterkur samhljómur um mikilvægi samvinnu ólíkra aðila svo sem í máli Péturs Halldórssonar forstjóra Nox Medical, sem lagði áherslu á að árangur fyrirtækisins byggðist á framlagi sérfræðinga úr mismunandi áttum - til viðbótar við þann einstaka eldmóð, kjark og úthald sem einkennt hefur frumkvöðla fyrirtækisins.

Handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2018 er fyrirtækið Kerecis en Kerecis er einmitt annað dæmi um fyrirtæki sem hefur vaxið í gegnum samvinnu fagaðila á ólíkum sviðum.  Kerecis framleiðir lækningavörur úr fiskroði og tengir þannig saman á nýstárlegan hátt, þekkingu í sjávarútvegi, sjávarafurðum, læknavísindum og mörgum öðrum sviðum atvinnulífsins. Í máli Guðmundar Fertram Sigurjónssonar forstjóra Kerecis, kom einnig fram að stuðningur hins opinbera hefði verið grundvallaratriði fyrir tilurð og þróun fyrirtækisins.  Kerecis hefur náð að sækja veglega styrki úr Tækniþróunarsjóði og öðrum samkeppnissjóðum. Kerecis hefur fengið fjölda viðurkenninga að undanförnu og hlaut meðal annars Vaxtarsprota ársins 2017, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi, en þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu.

Þessi tvö fyrirtæki, Kerecis og Nox medical, eru tvö dæmi um fyrirtæki þar sem stuðningsumhverfi nýsköpunar hefur virkað vel og opinber framlög skilað sér til baka í öflugum fyrirtækjum. Hið sama má segja um mörg önnur fyrirtæki sem eru í lykilhlutverki í atvinnulífinu í dag, svo sem Marel, CCP, Völku, Orf líftækni og fleiri sem hafa náð fótfestu, meðal annars í gegnum stuðning frá opinberu stuðningskerfi.

Við vitum líka að úti í þjóðfélaginu erum við með fullt af öðrum reynslusögum um  frumkvöðlamennsku og sprota sem kannski ekki skiluðu sér í fyrirtækjum í vexti en skiluðu sér samt í mikilvægri reynslu og þekkingu hjá þeim aðilum sem þar voru að verki.  

Og við fulltrúar stjórnvalda þurfa sífellt að vera á tánum að skoða hvað við getum gert betur og hvernig við getum gert stuðningsumhverfi nýsköpunar skilvirkara og stuðlað að góðu starfsumhverfi, ekki bara fyrir fyrirtæki á fyrstu stigum heldur einnig fyrir fyrirtæki í vexti.

Fjármögnunarumhverfið fyrir nýsköpun hefur tekið stakkaskiptum hér á landi á undanförnum áratug eða svo. Fjárframlög til Tækniþróunarsjóðs hafa meira en þrefaldast á síðustu 5 árum og teljum við að sú efling hafi verið afar mikilvæg fyrir frumkvöðlastarf í landinu. Styrkupphæðir hafa hækkað og starfssvið sjóðsins víkkað. Samkeppnin er þó hörð um þessa styrki og minna en 20% umsókna fá styrk hverju sinni.

Ríkisstjórnin hefur einnig staðið fyrir stórauknum endurgreiðslum á rannsóknar- og þróunarkostnaði, sá stuðningur hefur mælst afar vel fyrir og ætlunin er að ganga enn lengra á þeirri braut. Og nú hefur einnig verið boðað frumvarp þar sem kveðið er á um að hluta af tekjum nýs Þjóðarsjóðs verði varið til að efla nýsköpun. Ég hef viðrað þá skoðun að einhvers konar áhersla á heilbrigðis- og velferðarmál í því samhengi myndi samræmast vel þeirri langtímahugsun sem kristallast í stofnun sjóðsins og væri samfélaginu okkar til gagns til framtíðar.

Til viðbótar við framlög úr ríkissjóði er tilkoma nýrra fagfjárfesta og aukin virkni í fjárfestingum mikið fagnaðarefni og afar mikilvæg fyrir vistkerfi nýsköpunar hér á landi.

Eitt af því sem við höfum lært af efnahagssveiflum fyrri ára er mikilvægi þess að stjórnvöld veiti aðhald og leiðsögn og setji fram skýra stefnu um markmið og leiðir í helstu áherslumálum. Í því samhengi hef ég sett af stað starfshóp um mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Í stefnumótunarvinnunni leggjum við áherslu á samtal við frumkvöðla á mismunandi stigum nýsköpunar sem og samtal við þá aðila sem mynda stuðningsumhverfi nýsköpunar hér á landi. Ég er þakklát fyrir allt það góða og hæfileikaríkafólk úr mismunandi öngum nýsköpunar sem hefur samþykkt að leggja stefnmótunarvinnunni lið og ég held að við gætum rambað á eitthvað mjög gott í þessari vinnu.

Í nýsköpunarmálum horfum við líka gjarnan til frændþjóða okkar á Vesturlöndum, ekki síst nágranna okkar á Norðurlöndum enda skora þau lönd hátt á „Global innovation index“ OECD ríkjanna. Við leggjum okkur fram um að læra af því sem vel hefur tekist til í öðrum löndum og við skoðum hvernig við getum aukið samkeppnisstöðu okkar í kompaníi með öðrum þjóðum.

Nú á dögunum var kynnt skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar um stuðningsumhverfi nýsköpunar á Norðurlöndum. Þessi skýrsla sem ber heitið: An integrated and effective Nordic ecosystem for innovation and green growth“ var unnin að beiðni norrænu ráðherranefndarinnar.  Athafnamaðurinn Idar Kreutzer fór fyrir vinnuhóp skýrslunannar og var hún kynnt á ráðherrafundi í Osló í fyrradag. Það er áhugavert að sjá að þau atriði sem sett eru á oddinn í skýrslunni eru einmitt atriði sem oft koma upp í umræðunni hér heima á Íslandi. Það yrði of langt mál að fara í gegnum efni skýrslunnar á þessum fundi en það eru nokkur atriði sem er vert að nefna.

Skýrsluhöfundar eru sammála um að mikilvægi aukinnar samvinnu á sviði nýsköpunar enda felist mikil tækifæri í sameiginlegri markaðsetningu og sameiginlegum aðgerðum landanna í norðri. Lagt er til að löndin taki mið af hvert öðru hvað varðar skattalegan stuðning, ívilnanir og annað regluverk á sviði nýsköpunar. 

Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á grænan hagvöxt enda er hagvöxtur á grundvelli sjálfbærni og grænnar tækni eitt af því sem Norðurlöndin geta státað sig af í alþjóðlegu samhengi.

Þegar litið er yfir stuðningskerfi nýsköpunar eiga Norðurlöndin það sameiginlegt að markaðsbrest fjárfestinga er helst að finna hjá sprotafyrirtækjum á seinni stigum og hjá fyrirtækjum í vaxtarfasa. Þessi ábending er mjög í takt við það sem við höfum séð hér á Íslandi.  Hér þarf að skoða hvernig hægt sé á grundvelli norrænnar samvinnu, að koma meiri hreyfingu á fjármagn í gegnum lífeyrissjóði, sjóðasjóði, eða aðrar fjármögnunarleiðir.

Þá benda skýrsluhöfundar einnig á að ákveðnar greinar innan nýsköpunar hafi mjög takmarkað aðgengi að áhættufjármagni. Hér er meðal annars um að ræða atvinnugreinar á sviði vísinda, heilsu- og líftækni, sem þurfa öðrum fremur þolinmótt fjármagn fyrir langtíma rannsóknir og prófanir á sinni vöru eða þjónustu.  Bent er á mikilvægi umræðu um fjárfestingar hins opinbera á þessu sviði.

Að lokum virðist það vera sameiginlegt þema hjá Norðurlöndum að samhæfing hins opinbera mætti vera betri hjá þeim stofnunum sem koma að nýsköpun. Skýrsluhöfundar leggja því til að hlutverk hins opinbera í fjárfestingum sprotafyrirtækja verði betur skilgreint og samstarf Norðurlanda eflt á því sviði.

Þessi skýrsla Kreutzer er mikilvægt innlegg í þá vinnu sem nú stendur yfir um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Á vettvangi Norðurlandaráðs verður að líkindum haldið áfram með samvinnu og aðgerðir byggðum á þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Þeirri vinnu mun að einhverju leyti vera stýrt af okkur Íslendingum, enda munum við gegna formennsku í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári.

Við sjáum því fram á mikið samtal og mikla vinnu í þágu nýsköpunar á næstu misserum og er samvinna milli ólíkra fagaðila lykilatriði til að vel takist á þessu sviði. Með samvinnu aðila úr ólíkum áttum úr samfélaginu og ólíkum áttum innan nýsköpunarinnar náum við að koma fram með nýjar lausnir, nýja sýn og ný tækifæri.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum