Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2022 Matvælaráðuneytið

Samningar við Norðmenn standa - grein birt á mbl.is 23. febrúar 2022

Uppsjávarstofnar hafa ætíð verið sveiflukenndir. Nú þegar liðið er á seinni hálfleik í stærstu loðnuvertíð um margra ára skeið á Íslandi er búið að landa rúmum helmingi af heildaraflanum. Fram undan er verðmætasti tíminn, þegar hrogn eru unnin til manneldis. Þessi tími er spennandi þar sem kapphlaup er við tímann við að ná sem mestum verðmætum í land. Þessi vertíð hefur mikið að segja í samfélögunum fyrir austan en nú er þar allt á fullu eftir litlar loðnuveiðar síðustu ár. Þá er fjöldi erlendra skipa við veiðar á miðunum, flest þeirra frá Noregi. Norðmenn fá heimildir til þess að veiða í íslenskri lögsögu vegna tvíhliða bókunar við rammasamning um verndun loðnustofnsins. Þá fá þeir heimildir vegna Smugusamningsins, stöðu þeirra sem strandríkis gagnvart loðnustofninum og vegna skipta á veiðiheimildum Grænlendinga milli Grænlendinga, Evrópusambandsins og Noregs.

Samningar standa

Á því hefur borið undanfarna daga að óánægju gæti í Noregi hjá útgerðarmönnum vegna skilyrða sem þeir þurfa að sæta við veiðarnar. Þau skilyrði eru einfaldlega þau sem samið var um á milli ríkjanna á reglulegum samráðsfundum strandríkjanna. Þær snúa m.a. að fjölda skipa sem hér geta veitt, veiðarfæri, tímabil og hvar þeim er heimilt að stunda veiðar. Samskipti hafa verið milli mín og norsks kollega míns, Bjørns Skjærans, síðustu vikur varðandi þetta. En Norðmenn hafa farið fram á breytingar á því samkomulagi sem er í gildi á milli ríkjanna. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að breyta þeim reglum sem í gildi eru á miðri loðnuvertíð.

Samningar milli jafningja fara fram með formlegum hætti en ekki með þeim hætti að annar aðili breyti samkomulaginu þegar það hentar hverju sinni. Einnig er rétt að benda á að sumar þær takmarkanir sem eru á veiðum norskra fiskiskipa eru heimatilbúnar í Noregi. En norskar útgerðir þurfa að landa í Noregi ef að aflinn er yfir 300 tonnum. Það segir sig sjálft að það er lengra til Noregs en til Íslands frá miðum við Ísland. Þegar tíminn er af skornum skammti geta takmarkanir af þessu tagi haft mikið að segja.

Nauðsynlegt er að semja um deilistofna

Ég hlakka til að taka samtalið við Norðmenn á næstu mánuðum og þeir eru ekki einir um að vilja gera breytingar. Breytingar á samningum um loðnuveiðar þurfa alltaf að skoðast í samhengi við aðra deilistofna. Um árabil hefur reynst erfitt að ná samningum milli strandríkja Norður-Atlantshafsins um nýtingu deilistofna, makríl sérstaklega. Sóknin í suma þessa stofna er langt umfram vísindalega ráðgjöf og getur því vart talist annað en ósjálfbær. Sú sjálfsagða krafa um sjálfbæra nýtingu verður æ háværari. Það verður ekki gert öðruvísi en með samningum.

Höfundur er matvælaráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum