Hoppa yfir valmynd
05. mars 2022 Matvælaráðuneytið

Óbreytt kerfi skila óbreytti niðurstöðu

Innlendur landbúnaður á mikil sóknarfæri á næstu árum. En það er nauðsynlegt að sækja fram frekar en að horfa í baksýnisspegilinn. Staða hinna ýmsu greina landbúnaðarins er misjöfn og hefur þróast með misjöfnum hætti síðustu árin. Verðmætasköpun í t.d.
Innlendur landbúnaður á mikil sóknarfæri á næstu árum. En það er nauðsynlegt að sækja fram frekar en að horfa í baksýnisspegilinn. Staða hinna ýmsu greina landbúnaðarins er misjöfn og hefur þróast með misjöfnum hætti síðustu árin. Verðmætasköpun í t.d. ræktun grænmetis hefur aukist um 40% að raungildi síðan árið 2007. En í öðrum greinum, t.d. framleiðslu á kjöti, hefur afkoma verið verri. Sú sjálfsagða krafa er meðal bænda að það sé hægt að lifa með reisn af störfum í landbúnaði. Það eru raunar beinlínis markmið búvörulaga að „kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta“. Því þarf að huga að því hvort stuðningskerfið, þeir 15 milljarðar sem ráðstafað er í stuðning við landbúnað á ári hverju nýtist til þessa með fullnægjandi hætti.

Að lifa með reisn

Almennt má segja að óbreytt kerfi skili óbreyttri niðurstöðu. Þannig þarf að hafa þor til þess að gera þær breytingar sé á því þörf til þess að fá breytta niðurstöðu. Sérstaklega er þetta aðkallandi í sauðfjárrækt þar sem allar opinberar hagtölur sýna rautt. Það hrun sem varð á afurðaverði árin 2016 og 2017 hefur ekki gengið til baka nema að litlu leyti og í millitíðinni hafa laun á almennum markaði hækkað mikið og því ekki að undra að bændur og fjölskyldur þeirra lengi eftir því að fá laun af starfi sínu svo þeir geti lifað með reisn. Til viðbótar við þetta bætast svo kostnaðarhækkanir á aðföngum, sem skollið hafa á landbúnaði, t.a.m. með tæplega 90% hækkun áburðarverðs. Það er viðvarandi verkefni hvernig hægt sé að bæta árangur þannig að afkoma bænda vænkist. Í skýrslu um afkomu sauðfjárbænda, sem kom út síðastliðið vor, komu fram þrjú megintækifæri til þess að bæta afkomu þeirra; með áframhaldandi hagræðingu í búrekstri, hagræðingu í rekstri sláturhúsa og hagkvæmara fyrirkomulagi útflutnings. Þessi atriði verða öll tekin til skoðunar en misjafnt er hversu mikla aðkomu hið opinbera hefur í þessum efnum.

Árangur í loftslagsmálum þarf að launa

Í drögum að landbúnaðarstefnu er meðal annars lagt til að áherslum í styrkjakerfi landbúnaðarins verði breytt og að dregið verði úr framleiðslutengingu stuðningsins. Annars vegar verði horft til þess að styðja við búsetu í sveitum, óháð því hvaða framleiðslugrein er stunduð og hins vegar lögð aukin áhersla á jarðrækt og aðra landnýtingu, landvörslu og loftslagsmál. Í öllum greinum þurfa stuðningskerfin að launa árangur í loftslagsmálum. Þau sem drífa áfram þann árangur þurfa að njóta þess. Sá tími er liðinn þar sem engu máli skiptir hvernig vörurnar eru framleiddar.

Höfundur er matvælaráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum