Hoppa yfir valmynd
02. apríl 2022 Matvælaráðuneytið

Styrkjum fæðuöryggi á Íslandi - grein birt á mbl.is 1. apríl 2022

Fæðuöryggi hefur verið sett rækilega á dagskrá í opinberri umræðu síðustu mánuði. Fyrst vegna hækkana á áburðarverði sem eiga sér vart sögulega hliðstæðu vegna orkuverðs í Evrópu síðasta haust. Þá núna vegna innrásar Pútíns í Úkraínu. Innrásin hefur sett alþjóðlega hrávörumarkaði í uppnám og núna birtast okkur verðbólgutölur frá Evrópu sem eiga sér ekki fordæmi á þessari öld. Tveggja stafa verðbólga er ekki lengur ómöguleg í Þýskalandi. Eðlilega hefur þetta vakið umræðu um það hver áhrifin kunni að verða hér á landi og jafnvel hvort við munum fá öll þau aðföng sem við þurfum. Það kann að vera að við verðum brátt vör við einhverjar raskanir, verðhækkanir eða jafnvel breyttar uppskriftir. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess á þessum tímapunkti að aðfangakeðjan rofni með þeim hætti að fæðuöryggi Íslendinga sé ógnað.

Hagkvæmni og öryggi

Um áratugaskeið höfum við Íslendingar byggt upp opið hagkerfi þar sem við flytjum inn aðföng þaðan sem þau eru ódýrust og notið þannig góðs af hnattvæðingunni.
Alþjóðavæðingin hefur haft í för með sér aukna hagkvæmni í mörgu tilliti en kannski á kostnað fæðuöryggis. Það hefur verið ódýrara að flytja inn maís frá Úkraínu heldur en að rækta bygg hér. Og það hefur verið ódýrara að flytja inn áburð úr rússnesku gasi heldur en að framleiða hann hér. Í þessum efnum þarf að ríkja eitthvert skynsamlegt jafnvægi. Sé farin leið sjálfsþurftarbúskapar lendum við í vandræðum. Meira að segja Finnar, sem hafa verið öðrum þjóðum framar í að hafa þjóðaröryggi til hliðsjónar við ákvarðanatöku og sem hafa haldið í sínar stóru korngeymslur og olíutanka, reikna ekki með að geta verið sjálfum sér nógir um allt í lengri tíma. Sú stofnun sem fer með þjóðarvá og birgðahald situr á eignasafni sem er u.þ.b. 1% af vergri landsframleiðslu Finnlands og hefur byggst upp um áratugi. Yfir þessi mál er nú farið á vettvangi þjóðaröryggisráðs hérlendis, þar sem sett verða viðmið um birgðahald á mikilvægum aðföngum, eldsneyti, matvælum og lyfjum. Þau viðmið þurfa að taka mið af þeim hættum sem eru hér á landi.

Ákvarðanir hafa afleiðingar

Það hefur verið ákvörðun að byggja upp landbúnaðinn á þennan hátt, á því að treysta á stöðugt framboð erlendis frá til þess að halda uppi framleiðslu á mikilvægum afurðum, ég nefni alifuglakjöt, svínakjöt og mjólk. Með því að treysta á það að við fáum þau aðföng sem við þurfum erlendis frá höfum við ákveðið að byggja ekki upp innlenda kornrækt, ekki fjárfest í kynbótum eða öðrum þeim innviðum sem til þarf. Þessu er hægt að breyta þannig að innlend kornrækt leggi til aukið hlutfall þeirra aðfanga sem þarf til þess að fæða Íslendinga. Til þess þarf að setja rétta hvata í kerfið. Með aukinni kornrækt eflum við fæðuöryggi.

Höfundur er matvælaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum