Hoppa yfir valmynd
23. maí 2022 Matvælaráðuneytið

Eflum fæðuöryggi - grein birt á mbl.is 20. maí 2022

Í vikunni lagði ég tillögur fyrir ríkisstjórn sem miða að því að efla fæðuöryggi á Íslandi. Hugtakið hefur hlotið meiri þunga síðustu mánuði vegna stríðsreksturs á mikilvægum landbúnaðarsvæðum í Úkraínu. Sú heimsmynd sem var fyrir hálfu ári, um hnökralaust framboð á ódýrri kornvöru er fyrir bí í fyrirsjáanlegri framtíð. Þessi breyting hefur þegar skapað erfiðar aðstæður fyrir búfjárrækt hérlendis sem og erlendis þar sem hún byggir á þessu stöðuga framboði. En það voru þegar blikur á lofti til lengri tíma vegna áhrifa loftslagsbreytinga á ræktunarskilyrði víða um heim. Þurrkar drógu úr uppskeru í Kanada á síðasta ári, ógnarhiti gerir það í dag suður á Indlandi og svona mætti lengi telja. Allt er þetta í takti við það sem vísindamenn á sviði loftslagsmála hafa sagt árum saman, að með auknum styrk koldíoxíðs í andrúmslofti gerist veður enn vályndari.

Við uppskerum eins og við sáum

Tillögurnar sem ég kynnti fyrir ríkisstjórn voru unnar af Landbúnaðarháskóla Íslands og fela í sér 16 liði sem teknir verða til frekari skoðunar og þær verða byggðar inn í þá stefnumörkun sem þegar á sér stað í mínu ráðuneyti. Sérstaklega má vekja athygli á því hlutverki sem afkoma bænda hefur í fæðuöryggi. Undir það má taka, stjórnvöld taka almennt ekki ákvarðanir um verð á afurðum, sem ásamt kostnaði við framleiðslu eru grundvallarþættir sem ákvarða afkomu. Það gera aðrir aðilar á þessum markaði. En stjórnvöld geta haft mikil áhrif í gegnum stýritæki hins opinbera í landbúnaði, búvörusamninga og tollaumhverfi. Sá rammi sem búvörusamningar marka, setja stefnu og þróun landbúnaðar til lengri tíma. Því er full ástæða til að velta fyrir sér hvort að þetta stýritæki sé að ná markmiðum stjórnvalda.

Fáir akrar og slegin tún

Í greinargerð með tillögunum er bent á að innlend akuryrkja leggi aðeins til um einn hundraðasta af því korni sem nýtt er á Íslandi. Það er óásættanlegur árangur þegar það liggur fyrir að hér er hægt að rækta korn, hvort sem er til manneldis eða til fóðurgerðar. Raunar var stunduð kornrækt á Íslandi um aldir, en vegna breytinga í atvinnuháttum varð hagkvæmara að flytja það eingöngu inn. Fyrir liggja skýrslur og stefnur um að auka skuli akuryrkju. Til staðar eru rannsóknarinnviðir, þekking og reynsla bænda af því hvernig eigi að rækta korn við norðlægar aðstæður. Það sem þarf er aðgerðaáætlun sem virkjar þann kraft sem ég tel að búi í möguleikum akuryrkju. Greina þarf þá markaðsbresti sem komið hafa í veg fyrir að kornrækt eflist af sjálfu sér þannig að á næstu árum fari af stað metnaðarfull uppbygging í akuryrkju á Íslandi. Að þessu verður unnið á komandi misserum. Þannig verði bleikir akrar stærri hluti af landslagi íslenskra sveita.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum