Hoppa yfir valmynd
09. október 2022 Matvælaráðuneytið

Fæðuöryggi í nýju ljósi - grein birt á mbl.is 8. október 2022

Umræða um fæðuör­yggi á Íslandi hef­ur færst ofar á dag­skrá stjórn­valda síðustu miss­eri. Bæði í heims­far­aldri kór­ónu­veiru og í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu hafa vaknað spurn­ing­ar um ör­yggi flutn­inga til lands­ins og aðfanga­keðjur. For­sæt­is­ráðherra skipaði starfs­hóp í mars á þessu ári sem fjallaði um nauðsyn­leg­ar birgðir til þess að tryggja lífsaf­komu þjóðar­inn­ar á hættu­tím­um. Mat­vælaráðuneytið átti full­trúa í þeim hópi, enda heyra mik­il­væg­ir þætt­ir fæðuör­ygg­is und­ir mat­vælaráðuneytið.

Orku­skipti eru for­senda fæðuör­ygg­is

Í skýrsl­unni er fjallað heild­stætt um þá ör­ygg­isþætti sem þarf að treysta á Íslandi. Ætla má að birgðir af jarðefna­eldsneyti séu veik­asti hlekk­ur­inn en skv. skýrsl­unni eru oft ekki til meira en 3-5 vikna birgðir. Án jarðefna­eldsneyt­is flytj­um við eng­in mat­væli milli staða og tog­ar­ar liggja bundn­ir við bryggju. Þá er einnig ljóst að land­búnaður er háður inn­flutn­ingi á áburði og fóður­korni. Án hnökra­lausra flutn­inga get­ur mat­væla­fram­leiðsla dreg­ist hratt sam­an hér­lend­is. Við búum svo vel á Íslandi að eiga end­ur­nýj­an­lega orku og því eru frek­ari orku­skipti aug­ljóst næsta skref. Miðað við hraðar fram­far­ir í orkumiðlun má ætla að inn­an ein­hverra ára verði raun­hæft að knýja tog­ara með ra­feldsneyti og nú þegar eru til drátt­ar­vél­ar sem ganga fyr­ir nýorku á borð við met­an.

Innviðir fyr­ir korn­rækt eru ör­ygg­is­mál

Sam­hliða því að halda áfram orku­skipt­um, þurf­um við að byggja upp nauðsyn­lega innviði til þess að efla korn­rækt. Slík­ir innviðir eru síst minna mik­il­væg­ir held­ur en ör­ugg­ir sam­göngu­innviðir, hafn­ir og flug­vell­ir. Aðgerðaáætl­un um að efla korn­rækt er í vinnslu hjá Land­búnaðar­há­skóla Íslands og er vænt­an­leg í mars á næsta ári. Ljóst er að til þess að korn­rækt geti vaxið á skyn­sam­leg­an hátt þarf að tryggja að hún bygg­ist upp á þeim svæðum sem henta best til korn­rækt­ar. Við höf­um ný­leg dæmi úr sög­unni þar sem stjórn­völd hlutuðust um að byggja upp bú­grein­ar án þess að hugsa út í hvar slík upp­bygg­ing ætti helst að fara fram. Þá hef ég í hyggju að ræða við bænd­ur um upp­skeru­trygg­ing­ar á korni og hvernig megi út­færa þær við end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga. En eins og dæm­in sanna úr Eyjaf­irði má ætla að áhætt­an við rækt­un dragi úr áhuga bænda, sé eng­in leið að tryggja lág­marks­af­komu. Slík­ar trygg­ing­ar þekkj­ast, þótt þær séu ekki al­menn­ar í þeim lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við.

Ég hef mikla trú á tæki­fær­un­um sem fel­ast í auk­inni korn­rækt á Íslandi. Til þess að grípa þau tæki­færi er mik­il­vægt að ryðja úr vegi hindr­un­um sem fel­ast í okk­ar eig­in kerf­um auk þess að byggja upp nauðsyn­lega innviði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum