Hoppa yfir valmynd
19. október 2022 Matvælaráðuneytið

Sjór og land í Laugardal - grein birt á mbl.is 18. október 2022

Flestir Íslendingar þurfa ekki að rekja ættir sínar lengi til að finna tengingu við landbúnað eða sjávarútveg. Þjóðin átti afkomu sína og viðurværi alfarið að rekja til þessara greina fyrir ótrúlega stuttum tíma. Í dag er heimurinn annar og lífið er meira en saltfiskur. Það hefur því verið óumflýjanlegur hluti af þróun samfélagsins að sífellt stærri hluti þjóðarinnar hafi litlar tengingar við þessa gömlu höfuðatvinnuvegi. Nú til dags fara fá börn í sveit um sumur eins og svo margir upplifðu af minni kynslóð. Þá er fágætara að börnum sé smalað úr grunnskólum til að bjarga verðmætum þegar aflinn kemur í land. Það er þegar þessi tengsl rofna sem mikilvægi þeirra kemur betur í ljós.

Undirstöðurnar eiga fund við almenning

Það er gott að vita hvaðan fiskurinn og mjólkin kemur í búðunum og geta skilið áskoranir og viðfangsefni sem sjómaðurinn og bóndinn eiga við að etja. Þess vegna eru þær sýningar sem verið hafa í Laugardalshöll síðustu vikur mikilvægar. Þar gafst almenningi kostur á að kynna sér grunnatvinnuvegina og upplifa þá kraftmiklu nýsköpun sem á sér stað til sjós og lands. Báðar þessar atvinnugreinar hvíla á rótum djúpt í þjóðarsálinni og þess vegna er það mikilvægt fyrir almenning en ekki síður greinarnar sjálfar að eiga reglulega fund við almenning og segja sína sögu. Mér virtist sem almenningur á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið fundarboðinu fagnandi miðað við þann fjölda sem heimsótti sýningarnar.

Sömu áskoranir – ólík viðfangsefni

Báðar þessar atvinnugreinar glíma við sömu áskoranirnar þó að þær séu að öðru leyti afar ólíkar. Tækniframfarir hafa séð til þess að fjöldi starfa hefur farið fækkandi og framleiðniaukning hefur leitt til samþjöppunar. Færri sjómenn eru til sjós nú en áður var og færri bændur framleiða meiri mat en nokkru sinni. Báðar þessar greinar eru lykilgerendur í því verkefni að íslenskt samfélag nái markmiðum um kolefnishlutleysi, en samtals er losun frá sjávarútvegi og landbúnaði tæpur helmingur af losun á beinni ábyrgð Íslands. Báðar þessar greinar þurfa að ná þessum markmiðum samhliða því að vera í samkeppni á alþjóðavettvangi án þess að tryggt sé að skilyrði séu hin sömu.

Ég hef mikla trú á því að báðum þessum greinum muni takast ætlunarverkið, sitt í hvoru lagi og í sameiningu. Það er ljóst í mínum huga að greinarnar geta lært hvor af annarri, enda eru styrkleikar þeirra á ólíkum sviðum. Báðar greinarnar standa á gömlum merg, áskoranirnar eru ólíkar en sóknarfærin ótvíræð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum