Hoppa yfir valmynd
20. október 2022 Matvælaráðuneytið

Lagarlíf 20. október 2022

Kæru fundargestir

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að ávarpa þessa ráðstefnu sem fjallar um lagarlíf. Um tækifærin sem felast í notkun á auðlindum sjávar, vatns og orku til verðmætasköpunar og matvælaframleiðslu. Ef við höldum rétt á spilunum getum við nýtt þau tækifæri og jafnframt stuðlað að því að Ísland hafi jákvætt framlag til loftslagsmála án þess að fórna öðrum hagsmunum. Fyrstu lögin um loftslagsmál voru sett í minni umhverfisráðherratíð á árinu 2012. Ég er ekki viss um að á þeim tíma hafi mörg okkar gert ráð fyrir því að tíu árum síðar væri raunveruleiki loftslagsbreytinga farinn að hafa sýnileg og alvarleg áhrif í raunheimum. Sjómenn og skipstjórar segja mér frá breytingum í hafinu, fiskgengd breytist, lífríkið verður fyrir áhrifum.Bændur segja mér frá nýjum áskorunum, vályndari veður, þurrkar og jafnvel gróðureldar. Skriður falla vegna úrhellisrigninga að vetri og svona mætti lengi telja. Náttúran er á fleygiferð.

Samhliða því að mannkynið hefur með hegðun sinni stórfelld áhrif á þær grundvallar breytur sem ákvarða líf á jörðinni, þá fjölgar okkur sífellt.

Við þurfum að borða, sífellt þarf að fæða fleiri og fleiri. Og við vitum að við munum ekki geta bætt við þremur milljörðum manna á jörðina á næstu þrjátíu árum og fætt þau á sama hátt og þá 7 milljarða sem búa hér í dag. Ef við gerum það þá munum við fara fram úr þolmörkum jarðarinnar á svo mörgum sviðum. Það er ekki til ræktarland til þess, það eru ekki til fiskistofnar til þess, það er ekki pláss fyrir línulega hugsun 20. aldar. Sem snerist um það að hluta til að bæta einfaldlega við framleiðsluna, meira land, meiri áburður, stærri fiskiskip og stærri dráttarvélar. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um grundvöll velsældar og öruggrar tilveru komandi kynslóða.

Á þessari öld þarf minna að verða meira. Við þurfum að hugsa auðlindanýtingu okkar út frá því hvernig við fáum sem mest verðmæti, sem mesta velsæld úr sem minnstu umhverfisspori. Hvernig hægt er að endurnýta sem mest svo að hringrás næringarefna sé innan þolmarka og hvernig við nýtum auðlindir landsins best; vatn, orku og lífmassa. Á þessum grundvelli byggir að mínum dómi spurningin um stefnumótun í lagareldi. Ekki um það hvort að það séu ekki tækifæri, það vitum við vel, það sjáum við vel á þeim fjárfestingaráformum sem við þekkjum fyrir vestan og fyrir austan. Spurningin er hvernig við náum markmiðum samfélagsins en ekki bara markmiðum markaðarins sem sífellt kallar á meira.

Veiðar á villtum fiski hafa staðið í stað síðustu áratugi eftir að hafa náð hámarki á tíunda áratug síðustu aldar. Þær munu ekki vaxa því flestir fiskistofnar eru fullnýttir og sumir hverjir því miður ofnýttir. Síðan þá hefur lagareldi, sem í erindi þessu verður notað sem yfirheiti yfir sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldi, nefnilega tekið yfir sem megin vaxtarbroddur alþjóðlegrar sjávarafurðarframleiðslu. Þannig eru tíu ár frá því að heimsframleiðsla lagareldis fór í fyrsta sinn fram úr villtum sjávarafla.

Hér á landi á lagareldi sér langa sögu en á undanförnum árum hefur atvinnugreinin vaxið hratt, sér í lagi þá sjókvíaeldishluti hennar. Framleiðslan hefur aukist úr því að vera nánast engin í tæp 55.000 tonn á áratug. Samfélagsleg áhrif þessarar framleiðsluaukningar má glöggt sjá á byggðarlögum Vestfjarða og Austfjarða þar sem umsvifin eru mest.

Landeldi er aftur á móti afar ung atvinnugrein með tiltölulega litla núverandi framleiðslu á heimsvísu. Þó er talsverð reynsla af bleikjueldi í landi hér á landi sem kann að nýtast vel við áform um landeldi á laxi. Atvinnugreinin hefur hins vegar marga ótvíræða kosti sem sést best í því að hérlendis eru áform um að framleiðsla geti náð 100.000 – 130.000 tonnum eftir áratug. Áskoranir landeldis eru annars eðlis en í sjókvíaeldi en spennandi verður að sjá hver framþróun greinarinnar verður á næstu árum.

Líkt og í tilviki landeldis, þá er úthafseldi enn smátt í sniðum á heimsvísu en með yfirfærslu þekkingar og reynslu kunna tæknilausnir að vera skemur undan en okkur virðist. Þær lausnir þarf síðan að laga að hagsmunum náttúrunnar og velferð eldisdýranna.

Þegar kemur að þörungaframleiðslu þá hefur Ísland einstakt náttúrulegt forskot sem felst í köldu loftslagi, ferskvatni, ásamt aðgengilegri og hagkvæmri endurnýjanlegri orku. Þessi atriði skapa sérstaklega samkeppnisforskot þegar kemur að ræktun örþörunga meðan að kaldur sjórinn umhverfis Ísland skapar hagstæð skilyrði fyrir stórþörunga.

Eins og við höfum hér farið yfir er lagareldi á Íslandi á fleygiferð um þessar mundir. Í efnahagslegu samhengi hefur greinin alla möguleika á því að skapa þjóðarbúinu grunn að nýrri efnahagsstoð innan 10 ára. Til þess að svo megi verða þarf grein af þessari stærðargráðu að búa við öfluga innviði, skýrt og sterkt regluverk en líka þarf að fara fram þekkingaröflun og vísindasamstarf og samvinna á milli landa. Í því sambandi gegnir menntun stóru hlutverk. Mikilvægt er að atvinnuveginum verði skapað umhverfi sem byggir á forsendum sjálfbærni. Það er ekki síður mikilvægt að slíkt umhverfi verði skapað fljótt og haldi í við uppbyggingu atvinnugreinarinnar um leið og stefnumótunin markar farveg greinarinnar til næstu áratuga.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að  þessi stefnumótun skuli unnin á kjörtímabilinu. Að mínu viti er slíkt ekki seinna vænna. Skýr framtíðarsýn stjórnvalda tryggir bæði að atvinnugreinin fari ekki fram úr samfélaginu og að meiri fyrirsjáanleiki sé fyrir hendi. Skýr stefnumótun tryggir með öðrum orðum að atvinnugreinin og stjórnvöld gangi í takt að sama marki. Þar bera stjórnvöld ábyrgð í því að segja skýrt við atvinnugreinina hvernig stjórnvöld vilja að hún þróist þannig að markmiðum sé náð.

Frá því að ég tók við málaflokknum hef ég þegar sett þrjú megin atriði á dagskrá innan matvælaráðuneytisins.

Í fyrsta lagi er um að ræða úttekt Ríkisendurskoðunar á stjórnsýslu málaflokksins í ráðuneytinu og undirstofnunum þess. Má segja að þar sé verið að líta í baksýnisspegilinn til að sjá hvað betur hefði mátt fara áður en hægt verður að bretta upp ermar og horfa fram á við.

Í öðru lagi óskaði ég eftir því að unnin yrði ítarleg úttekt á stöðu lagareldis á Íslandi, áskorunum og tækifærum. Í kjölfar útboðs féll það í skaut ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group að greina stöðuna í ítarlegu samráði við hagaðila greinarinnar. Í skýrslunni er ekki einungis horft til landslagsins hérna heima heldur einnig litið til landa sem eru komin með meiri reynslu af atvinnuveginum, s.s. Noregs og Færeyja. Greiningin mun vera öflugt tól í að hjálpa stjórnvöldum að forgangsraða verkefnum og að kortleggja helstu áskoranir, sem felast m.a. í hvernig hægt sé að tryggja áframhaldandi vöxt greinarinnar á sjálfbæran hátt í efnahags-, samfélags-, og umhverfislegu tilliti. Til þess að svo megi verða þarf lagaramma og stjórnsýslu sem tryggir virkt eftirlit, leggur áherslu á þróunarstarf og rannsóknir, og styður við nauðsynlega innviðauppbyggingu. Áherslan var á geira lagareldis þar sem regluverk skortir eða er verulega ábótavant og þar sem að umfang er slíkt að nauðsynlegt er að stefnumótun stjórnvalda liggi fyrir til langs tíma.

Í þriðja lagi hef ég sett á laggirnar tvo starfshópa. Annars vegar er að störfum starfshópur sem hefur verið falið að skoða smitvarnir og sjúkdóma í fiskeldi og vinna að tillögum um breytingar, ef þörf þykir. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki undir lok árs. Hins vegar er að hefja störf starfshópur um strok eldislaxa úr fiskeldi. Það er alveg ljóst að strok eldislaxa úr fiskeldi eru þau umhverfisspjöll sem geta valdið umfangsmiklu tjóni ef illa fer. Við höfum ótal dæmi um það þar sem lífverur hafa sloppið úr haldi og valdið spjöllum á vistkerfum, það er ekki helsta hættan hér þar sem langflestir eldislaxar drepast í náttúrunni. Þeir geta hins vegar blandast innlendum stofnum og breytt hæfni villtu stofnanna til hins verra ef að blöndun á sér stað yfir lengri tíma eða í miklum mæli.

Villtu laxastofnarnir hér við land eru ekki stórir mældir í fjölda fiska en hafa aðlagast ánum hér við land í tíu þúsund ár og hafa því ýmis sérkenni sem gera þá sérstaka. Þessir stofnar hafa gildi í sjálfu sér og okkur ber að vernda þá samkvæmt alþjóðasamningum. Þá hafa margir aðilar hér við land mikilla hagsmuna að gæta vegna nýtingu þeirra. Þess vegna er það algjört lykilatriði fyrir fiskeldi hér við land að hefja það yfir vafa að það sé allt gert til þess að lágmarka áhættuna sem fylgir því að rækta norskan eldislax í kvíum. Eftirlitið þarf að vera markvisst, viðurlögin þurfa að hafa fælingarmátt og þeim verður að beita ef að tilefni er til. Stjórnvöld hér þurfa að vera skýr með það að með þeim forréttindum sem það felur í sér að fá að nýta vistkerfaþjónustu íslenskra fjarða fylgja skyldur.

Hlutverk hópsins verður að fara yfir þær reglur sem um málefnið gilda hérlendis, skoða þá ferla og framkvæmd sem eru til staðar og gera tillögur að útbótum. Ég held að það sé til mikils að vinna fyrir stjórnvöld og greinina að gera betrumbætur á þessu.

Með þessu sem hér er nefnt þá lýkur ekki vinnu við uppbyggingu málaflokksins. Frekar á að líta á þetta sem upphaf þess kafla í uppbyggingu og framþróun lagareldis að greinin geti orðið ein meginstoð íslensks efnahagslífs með sjálfbærum hætti, í víðasta skilningi þess hugtaks. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum