Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2022 Matvælaráðuneytið

Vísindin eru skýr - grein birt á mbl.is 15. nóvember 2022

Skýrsla eftir skýrslu vísindamanna segir sömu söguna. Loftslagsbreytingar eiga sér stað núna. Ekki í fjarlægri framtíð heldur núna. Við sjáum vatnsskort vegna horfinna jökla, sjávarmál hækkar. Gróðureldar norðan heimsskautsbaugs og þurrkar skemma uppskeru víðsvegar um heim. Flutningar takmarkast á stórum fljótum Evrópu vegna vatnsskorts. Þetta eru veruleikin í dag en er bara forleikur af þeim hörmungum sem að okkur steðja ef við grípum ekki til aðgerða strax.

Markmið Parísarsáttmálans um að takmarka hlýnun við 1,5 gráðu eru í hættu. Í dag stefnir í að við skjótum mjög rúmlega yfir markið. Yfirskotið hefur afgerandi áhrif á þær náttúruhamfarir sem við munum þurfa að glíma við í framtíðinni. Íslensk stjórnvöld hafa sett fram metnaðarfull markmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð m.v. losun ársins 2005. Málflutningur Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hverfist um það að við verðum að halda 1,5 gráðu markmiðinu lifandi. En til þess að það sé mögulegt þurfa allir, stjórnvöld og fyrirtæki að axla sína ábyrgð og hefjast handa.

Aðlögun er þörf

Á sama tíma og við þurfum að draga skarpt úr losun gróðurhúsalofttegunda þá þurfum við að aðlagast þeim breytingum sem þegar eru orðnar og verða. Aðlögunin er nú þegar orðin mikilvæg fyrir Ísland, bæði innanlands og í alþjóðasamvinnu. Enda er Ísland sérstaklega viðkvæmt fyrir breytingum vegna loftslagsbreytinga. Súrnun sjávar, bráðnun jökla, breytingar á úrkomumynstri og hækkun sjávarborðs hafa mikil áhrif hér á landi. Áhrifanna mun gæta á vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika en á grundvelli þeirra byggjum við samfélagið. Nytjastofnar fiska, skilyrði til landbúnaðar, vatnsbúskapur vatnsorkuvera og svona mætti lengi telja eru ekki fastar heldur þjónusta sem heilbrigð vistkerfi veita okkur. Þess vegna leggjum við áherslu á að byggja upp þanþol og aðlögun að loftslagsbreytingum í alþjóðlegri samvinnu, meðal annars með því að auka framlög í slík verkefni í þróunarsamvinnu.

Áhrifin af loftslagsbreytingum eru bæði flókin og fjölþætt. Í heimsfaraldri kórónaveiru kom í ljós hversu mikli máli þanþol okkar samfélaga skiptir þegar tekist er á við afleiðingar alþjóðlegra áskorana. Ef við ekki aðlögumst þeim breytingum sem eru óumflýjanlegar samhliða því að draga skarpt úr losun verða áhrifin mikil. En samhliða þessari aðlögun þurfum við að hlusta grannt eftir röddum þeirra sem áhrifin snerta fyrst og hafa minni bjargir til að bregðast við þeim. Með því að hlusta á ungt fólk af öllum kynjum fáum við betri innsýn í veruleika þeirra sem þurfa að takast á við þær aðstæður sem aðgerðir okkar í dag skapa í framtíðinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum