Hoppa yfir valmynd
02. febrúar 2023 Matvælaráðuneytið

Skilvirkara eftirlit með brottkasti, MBL 31. janúar 2023

Skilvirkara eftirlit með brottkasti, MBL 31. janúar 2023

Nýlega samþykkti ég tillögu Fiskistofu um að gera kerfisbundið mat á umfangi brottkasts á Íslandsmiðum. Fram til þessa hafa gögn um umfang þess verið takmörkuð. Kallað hefur verið eftir úrbótum í þessum efnum. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), hefur gagnrýnt að takmörkuð gögn liggi fyrir um hversu miklum afla sé hent á Íslandsmiðum. Stofnunin áætlar að brottkast hafi verið 10,8% af alheimsafla árin 2010 til 2014. Fiskistofa og Hafrannsóknastofnun hafa átt í samstarfi um sýnatökur vegna stærðartengds brottkasts síðan árið 2001 og benda niðurstöður til að brottkast sé um 3-5%. Það kann að vera vanmat.

Gögn skortir

Í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði árið 2018 á starfsemi Fiskistofu kom m.a. fram að eftirlit stofnunarinnar með brottkasti væri veikburða og ómarkvisst og raunverulegur árangur þess óljós þar sem hvorki liggi fyrir skýr árangursmarkmið eða árangursmælikvarðar. Ríkisendurskoðun benti jafnframt á að Hafrannsóknastofnun hafi ekki rannsakað tegundaháð brottkast í rúman áratug og að auki hafi gagnasöfnun um lengdarháð brottkast dregist saman undanfarin ár. Einnig hefur eftirlit með brottkasti verið takmarkað og því erfitt að meta umfang þess.

Fiskistofa brást við gagnrýni FAO og Ríkisendurskoðunar og hóf eftirlit með drónum árið 2021. Við það fjölgaði brottkastsmálum ört eða úr u.þ.b. 10 málum á ári í 142 mál fyrir lok nóvember 2021. Brottkast er ekki séríslenskt viðfangsefni. Að mati FAO er brottkast veruleg áskorun á alþjóðavettvangi og hefur áhrif á þá slæmu stöðu sem margir fiskistofnar eru í á heimsvísu. Á tímum þar sem að fjöldi fólks sem býr við skert fæðuöryggi fer í sögulegar hæðir er augljóst að draga þarf úr brottkasti og búa þarf til verðmæti úr öllum fiski sem veiðist. Við höfum ekki efni á matarsóun í heimi þar sem milljarður  sofnar svangur  á hverjum degi.

Skilvirkara eftirlit skilar árangri

Með þessu nýja verkefni verða stigin næstu skref, tölfræði verður nýtt til þess að þróa skilvirkari aðferðafræði til að leggja mat á raunverulegt umfang brottkasts. Þó að ekki liggi fyrir beinar mælingar á brottkasti má áætla það með því að kanna mun á veiðiferðum með og án veiðieftirlitsmanna. Niðurstöður munu einnig nýtast öðrum stofnunum, t.d. Hafrannsóknarstofnun í því að meta áhrif brottkasts á stofnstærð. Þá munu koma fram vísbendingar um hvort að brottkast sé mismunandi eftir veiðarfærum, svæðum eða tegundum. Gagnsæi og gagnadrifin ákvarðanataka verða til þess að varpa ljósi hvar við getum gert betur. Í bráðabirgðatillögum „Auðlindarinnar okkar“ er lögð áhersla á að skapa hvata til þess að allur fiskur komi að landi. Til þess að geta skapað hvata þurfum við að vita umfangið. Skilvirkt eftirlit skilar árangri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum