Hoppa yfir valmynd
20. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Land og skógur, MBL 18. mars 2023

Land og skógur, MBL 18. mars 2023

Landgræðslan og Skógræktin eru stofnanir sem eiga sér langa sögu. Verkefni þeirra og hlutverk eru tengd og af þeim sökum hefur verið skoðað oftar en einu sinni hvort sameina ætti stofnanirnar. Sameiningin hefur ekki orðið hingað til en eftir að ég tók við embætti matvælaráðherra hófst skoðun á kostum sameiningar á ný. Í maí 2022 skipaði ég starfshóp sem hafði það hlutverk að greina rekstur stofnananna og vinna áhættugreiningu vegna mögulegrar sameiningar og niðurstaða hópsins, sem skilaði lokaskýrslu í október 2022, var að bæði fagleg og rekstrarleg rök styddu ákvörðun um sameiningu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að setja eigi metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar og að áhersla skuli lögð á að efla náttúrumiðaðar lausnir í því samhengi, t.d. með hvötum til aukinnar landgræðslu og endurheimtar votlendis. Sameining Landgræðslu og Skógræktar í eina stofnun gæti styrkt framgang þessarar vinnu umtalsvert.

Auk þess gæti sameining stofnananna eflt þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra viðskiptavina, flýtt framgangi verkefna í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og tækifæri myndast til að hagnýta gögn og rekstur landupplýsinga sem stuðla að öflugra rannsóknarstarfi. Það er því ljóst að miklir kostir geta falist í sameiningu þessara tveggja stofnana.

Ríkisstjórnin hefur nú afgreitt tillögu mína að frumvarpi um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í nýja stofnun undir heitinu Land og skógur, sem sinna skuli verkefnum á sviði landgræðslu og skógræktar. Bráðlega verður frumvarpið lagt fyrir Alþingi. Verði frumvarpið um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar samþykkt sem lög frá Alþingi munu lög um landgræðslu og lög um skóga og skógrækt þó gilda áfram, með breytingum í tengslum við nýja stofnun. Síðan ég tók við matvælaráðuneytinu hefur einnig verið unnin sameinuð stefna í landgræðslu og skógrækt, Land og líf, sem er fullfjármögnuð aðgerðaráætlun í málaflokknum til ársins 2031.

Hvað staðsetningu hinnar nýju stofnunar varðar skiptir miklu að Landgræðslan og Skógræktin eru báðar landsbyggðarstofnanir. Hjarta skógræktar á Íslandi er á Austurlandi og hjarta landgræðslu á Suðurlandi og það verður óbreytt eftir sameiningu. Því er eðilegt að stofnanirnar verði landsbyggðarstofnanir áfram.

Með því að leggja saman þekkingu þessara tveggja lykilstofnana og setja á fót eina sameinaða stofnun skapast að mínu mati mörg tækifæri. Með vel undirbúinni sameiningu í sterka stofnun Lands og skógar er mögulegt að samþætta markmið um faglegan ávinning, samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum