Hoppa yfir valmynd
27. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Ávarp á ráðstefnu um fiskvinnslu og fiskeldi, haldið af launafólki innan matvælagreina, IUF í samstarfi við SGS, 27. mars 2022

Kæru fundarmenn
Það er sannarlega gott að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur hér í dag.
Það er ánægjulegt að vita til þess að okkar öflugu félög launafólks taki virkan þátt í alþjóðlegum umræðum um þá málaflokka sem eru hér til umræðu og af dagskránni að dæma er áhersla á að sem flestar raddir heyrist. Í þessari málstofu eru til umræðu stór mál; staða sjávarútvegs og fiskeldis á heimsvísu og bláa byltingin - og svo er varpað upp þeirri spurningu hver raunveruleg þýðing sjálfbærni sé.

Áskoranir í matvælaframleiðslu hérlendis eru til dæmis tengdar fjórðu iðnbyltingunni, hagræðingu í fiskvinnslum og miklum vexti fiskeldis, en þetta eru allt áskoranir sem tengjast málaflokkum matvælaráðuneytisins. Í þingsályktun um matvælastefnu, sem verður tekin til umræðu á Alþingi á næstunni, eru mörkuð stefnumið í framleiðslu matvæla til ársins 2040. Markmið stefnunnar er meðal annars að efla og styðja við íslenska matvælaframleiðslu þannig að hér á landi verði framleiðsla á matvælum í sátt við bæði umhverfi og samfélag. Stefnan verður því vegvísir fyrir öll sem koma að matvælaframleiðslu hér á landi.

Staða sjávarútvegs og fiskeldis í heiminum er á þann veg að aldrei hefur meira af matvælum komið úr sjó heldur en á síðasta ári, eða rúm 200 milljón tonn. Tugir milljóna vinna beint við þessa atvinnuvegi og hundruð milljóna reiða sig á greinarnar fyrir hluta sinna tekna. Neysla á sjávarfangi hefur vaxið hraðar en mannfjöldi um margra áratuga skeið þannig að sívaxandi eftirspurn er eftir vörunum. Jarðarbúum mun fjölga fram yfir miðja þessa öld og sennilega þarf að fæða rúmlega 10 milljarða eftir 25 ár. Á sama tíma eru stofnar villtra tegunda margir hverjir fullnýttir, en samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna er þriðji hver nytjastofn ofnýttur.

Því er í vaxandi mæli horft til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir sjávarfangi með lagareldi, en auðlindanotkun á hvert kílógramm prótíns í lagareldi er mun lægri en í landbúnaði, auk þess sem óhugsandi er að mæta þessari eftirspurn eingöngu með aukinni nýtingu villtra stofna. Það er aftur á móti ekki sjálfsagt að lagareldi byggist upp á sjálfbærum grunni, og þar eru margar áskoranir í veginum, bæði umhverfislegar, efnahagslegar og samfélagslegar. Þá skiptir máli að sterk verkalýðsfélög og sterk vinnulöggjöf verji hagsmuni verkafólks í þessum greinum.

Líkt og víðast hvar annars staðar er staða kynjanna í sjávarútvegi og fiskeldi ekki jöfn. Á Íslandi eru afar samkeppnishæf laun greidd við fiskveiðar, enda fá sjómenn og skipstjórnarmenn greitt hlutfall af aflaverðmæti. Þannig er innbyggt í samninga þessara stétta að þegar aflaverðmæti hækkar hækka laun. Þessar stéttir eru í miklum meirihluta karlastéttir. Fyrir því eru vafalaust ýmsar ástæður. Laun í landi eru mun lægri og fiskverkafólk fær ekki greitt hlutfall af aflaverðmæti, auk þess sem hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum útgerða og fiskvinnsla er alltof lágt - þó að teikn séu á lofti um að það sé að breytast. Við þurfum að ráðast í markvissar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna á þessu sviði og draga úr ójöfnuði, og á það legg ég áherslu. Fjölbreyttari vinnustaðir eru nefnilega betri vinnustaðir fyrir okkur öll, og jafnari samfélög eru betri samfélög.

Til þess að við náum að fæða heiminn er lagareldi nauðsynleg viðbót, en ekki nægjanleg ein og sér. Í grundvallaratriðum þarf neysla okkur á mat að endurspegla þær líffræðilegu takmarkanir sem eru á þolmörkum jarðar. Við þurfum í meira mæli að horfa til kolefnisspors fæðu og líta til fæðu úr plönturíkinu. Þessar breytingar eru þegar að gerast, þar sem neyslukannanir sýna svo um munar að neysla ungs fólks er frábrugðin neyslu fyrri kynslóða. Hjól tímans snúast í þá átt að æ meira máli mun skipta að geta sýnt fram á að framleiðsla sé umhverfisvæn, rekjanleiki afurða sé mikill og að stöðlum sé viðhaldið.

Þannig hefur verið talað um bláa byltingu sem leiðina fram á við fyrir sjávarútveg og lagareldi, byltingu sem snýst um það að efla hlutverk sjávarfangs í því að næra heiminn en tryggja að slík uppbygging verði á sjálfbæran hátt.
Nútímasaga Íslands er sumpart saga af síendurteknum bláum byltingum. Frá því að Jón forseti kom til lands við upphaf þarsíðustu aldar hefur á 20-30 ára fresti orðið einhvers konar bylting í atvinnutækjum, hvort sem er í landi eða til sjós, sem hefur haft geysilega mikil áhrif á atvinnulíf og samfélög.

Byltingarnar hafa aukið framleiðni starfsfólk svo um munar. Þannig hefur verðmætasköpun á hvern launamann aukist gríðarlega á sama tíma og störfum hefur fækkað, t.d. í fiskvinnslu, en ekki síður við fiskveiðar. Þessar tækniframfarir krefjast sífellt meiri fagþekkingar starfsfólks og meiri mannauðs. Í hinu íslenska vinnumarkaðslíkani hefur launafólk tekist á við eigendur framleiðslutækjanna, fyrirtækjaeigendur, um það hvernig þessari auknu verðmætasköpun skuli skipt.

Sú barátta er grundvallarbarátta þeirra sem eiga ekkert að gefa nema vinnuna og þeirra sem hafa stjórn á atvinnutækjunum, eiga tækifærin og bankabækurnar. Hér á landi er almenn þátttaka í verkalýðshreyfingum mikil, sem hefur þau áhrif að valddreifingin hefur verið jafnari en víða annars staðar. Það endurspeglast svo í þeirri staðreynd að hlutfall verðmætasköpunar sem fellur í hlut launamanna á Íslandi hefur verið hátt samanborið við önnur lönd. Sterk verkalýðshreyfing er með öðrum orðum ástæða þess að íslenskt launafólk hefur náð árangri í því að sækja aukinn hlut í verðmætasköpun sinni, og þar með í að bæta kjör launafólks.

Tækni og framþróun hennar hefur mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Tæknin er ekki hlutlaus og ég tel að í þeirri tæknibyltingu sem hefur orðið á síðustu árum felist djúpstæðar áskoranir hvað varðar jafnrétti. Við þekkjum hið skuggalega dæmi um spjallmennið sem byggt var á gervigreind, og var gefið það verkefni að ná mikilli útbreiðslu á samfélagsmiðlinum Twitter. Eftir að hafa greint urmul gagna varð spjallmennið á ógnarhraða að karlrembuforriti sem haldið var kynþáttafordómum. Gervigreindin lærði af þeim gögnum sem fyrir lágu á veraldarvefnum og þegar staðan er sú að tækni er þróuð af körlum og byggð á gögnum frá körlum er ljóst að það mun halla verulega á önnur kyn en karla.

Sú bláa bylting sem rædd hefur verið á vettvangi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna er einmitt hugsuð til þess að vinna gegn þessum ójöfnuði. Þar er áhersla lögð á það að nýting auðlinda í vatni stuðli að matvælaframleiðslu sem ekki bara fæðir stærri hluta mannkyns heldur einnig stuðli að auknu jafnrétti, og þá ekki eingöngu jafnrétti kynja heldur einnig milli hópa og landa.

Það er þó ekki sjálfgefið að svo verði. Um áratugaskeið var það sérstakt baráttumál Íslendinga að fá fullt forræði yfir fiskveiðiauðlindinni í kringum landið, þar sem erlendir aðilar höfðu nýtt talsverðan hluta af verðmætustu nytjastofnum í kringum Ísland. Þeim deilum lauk fyrir að verða hálfri öld síðan. Það er þó ekki þannig að með því hafi deilum lokið hér á landi, því eftir að við náðum forræði sjálf yfir auðlindinni fórum við að fást við það hvernig við gætum stýrt nýtingunni á hátt sem tryggði almannahag sem best og þau mál eru enn til umfjöllunar á vettvangi íslenskra stjórnmála. Þar hef ég haft forgöngu um breiða stefnumörkun sem lið í því að skapa aukna sátt um þessi mál hér á landi, með verkefninu Auðlindinni okkar. Aðkoma launafólks í samráðsnefnd um þau mál var mér mikilvæg til þess að rödd fiskverkafólks heyrðist með skýrum hætti í stefnumótunarvinnunni.

Það er því ekki úr vegi að spyrja sig í lokin hver sé raunveruleg þýðing orðsins sjálfbærni. Hvers virði er sjálfbær nýting frá sjónarhóli umhverfisins ef sú nýting leiðir til arðráns mismunandi hópa, verkafólks, tiltekinna þjóða eða þjóðarbrota? Hvers virði er jöfn dreifing nýtingar ef greinin er efnahagslega ósjálfbær og þiggur almannafé til stuðnings hennar?

Í mínum huga er staðan sú á Íslandi að ágætlega hefur gengið að tryggja efnahagsþátt nýtingar sjávarauðlinda en útgerðum gengur að jafnaði vel. Þó að víða séu sóknarfæri í að gera nýtingu umhverfisvænni hefur fiskveiðistjórnun Íslendinga skilað því að nytjastofnar við Ísland eru að mestu nýttir á hátt sem tryggir framgang þeirra. Okkur hefur hins vegar ekki tekist að tryggja sátt um auðlindina okkar á samfélagslegum grunni. Hjá mörgum ríkir djúpstæð tilfinning um óréttlæti, sú tilfinning að almenningur njóti ekki sanngjarns skerfs af arðinum sem fiskveiðiauðlindin skapar.

Mín skoðun er sú að við verðum að tryggja allar víddir sjálfbærrar þróunar til þess að hafa náð árangri. Það er ekki einfalt en ég held að með samtali og með gagnsæi, og með ákvarðanatöku sem byggir á þekkingu munum við þokast áfram í átt til aukinnar sáttar. Að því hef ég unnið í matvælaráðuneytinu, og mun vinna að því áfram - með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Ég þakka fyrir tækifærið til þess að fjalla um þessi mál hér í dag – gangi okkur öllum vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum