Hoppa yfir valmynd
06. nóvember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Norrænt samstarf er málið!

Menningarsamstarf Norðurlandanna hefur mikil áhrif á umheiminn og endurspeglar þann grunn sameiginlegra gilda sem norrænu ríkin standa á. Samstarfið er mikilvægur drifkraftur grænna umskipta á sviði samfélagsþróunar með samræðum og áþreifanlegum lausnum og til að tryggja góð lífskjör núlifandi og komandi kynslóða.

Í vikunni sótti ég fund menningarmálaráðherra Norðurlandanna á Norðurlandaráðsþingi í Danmörku. Við fundum öll fyrir því hve mikilvægt, og gleðilegt, það var að hittast og fara yfir mikilvægi norræns menningarsamstarfs. Á fundinum voru samþykktar auknar fjárveitingar til norræns menningarsamstarfs en fyrirhugaður niðurskurður á því sviði hafði áður verið gagnrýndur.

Þetta er mikið fagnaðarefni enda höfðu íslensk stjórnvöld þegar gert athugasemdir við þennan niðurskurð og sérstaklega í ljósi áhrifa Covid-19-faraldursins á menningu um allan heim. Á fundinum var einnig ákveðið að ráðast í löngu tímabærar viðgerðir á Norræna húsinu í Reykjavík og taka höndum saman um aðgerðir vegna áhrifa tækni- og netrisanna á samfélagið. Netrisar á borð við Facebook og Google hafa gríðarlega mikil áhrif á samfélögin okkar, og var sérstaklega verið að horfa til sameiginlegrar skattlagningar á þessum miðlum. Á fundinum voru allir sammála um að ráðast þyrfti í frekari aðgerðir til að styðja við menningu þjóðanna, lýðræði, tungumál, máltöku og málþroska barna.

Við getum verið stolt af árangri Íslands á sviði lista og menningar. Í hvívetna vekur listafólkið okkar athygli, safnar til sín verðlaunum og er landi og þjóð til sóma. Það var sérlega ánægjulegt að vera viðstödd afhendingu menningarverðlauna Norðurlandaráðs. Alls voru 54 verk, verkefni og listamenn frá öllum Norðurlandaríkjunum tilnefnd til verðlaunanna fyrir umhverfismál, tónlist, kvikmyndir, bókmenntir og barna- og unglingabókmenntir. Það er mikill heiður að hljóta tilnefningu og óska ég öllum þeim frábæru listamönnum innilega til hamingju með árangurinn. Þau eru viðurkenning á því að öfluga menningarstarfi sem blómstrar svo fallega hér heima og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Ég trúi því innilega að fjölbreytt menningarlíf sé lykillinn að almennri velsæld og stuðli að jöfnuði og lífsfyllingu í samfélaginu. Aðgengi að menningu og listum er grundvallarþáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Talið er að menning og listir muni leika enn stærra hlutverk í framtíðinni þar sem samfélög sem drifin eru áfram af hugviti og nýsköpun verði leiðandi á meðal þjóða á komandi árum. Listafólk, sjónarmið skapandi fólks og þekking þess sem leynist í menningararfinum skapa tækifæri og leiðir til að öðlast skilning á stórum viðfangsefnum nútímans.

 

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum