Hoppa yfir valmynd
23. desember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Það styttir upp um síðir

Upp er runnin stund ljóss og friðar þar sem ástvinir koma saman og njóta samvista yfir jólin um heim allan. Þó svo að þessi jól, líkt og þau síðustu, litist af heimsfaraldri er ekkert því til fyrirstöðu að halda gleðileg jól og líta björtum augum til framtíðar. Á árinu sem senn fer að líða hefur Íslendingum tekist vel til að lifa með veirunni og spyrna við fótum. Þannig hefur til dæmis okkar frábæra skólafólki farnast vel í að halda skólum opnum í samfélaginu, sviðlistir og önnur menning hefur þrifist með ágætum, afkoma ríkisjóðs var mun betri en búist var við, atvinnuleysi hefur minnkað mikið og ferðaþjónustan hefur tekið við sér miðað við fyrra ár.

Erlendir gestir líta enn hýru auga til Íslands sem áfangastaðar en eins og sakir standa eru ekki merki um að verið sé að fella niður flug frá því sem plön gerðu ráð fyrir áður en þessi uppsveifla í faraldrinum byrjaði, þó svo að afbókanir í vélunum hafi aukist. Útlit er fyrir að talsvert verði að gera um þessi jól og áramót í móttöku erlendra ferðamanna. 46% nýting er á hótelum á höfuðborgarsvæðinu miðað við bókunarstöðu. Á sama tíma í fyrra var bókunarstaðan 3%. Talsverðar bókanir eru líka hjá afþreyingarfyrirtækjum á svæðinu. Þetta er til marks um hversu ríkur ferðavilji er fyrir hendi til þess að koma til Íslands þrátt fyrir uppsveiflu í heimsfaraldrinum.

Þessar jákvæðu vísbendingar og fleiri til gefa okkur fullt tilefni til þess að líta björtum augum til framtíðar. Við vitum nefnilega að faraldurinn mun ekki vara að eilífu, það mun stytta upp um síðir. Þangað til munum við halda áfram að styðja ferðaþjónustuna eins og þurfa þykir. Þannig höfum strax hafist handa við að tryggja aukna fjármuni í kynningu á Íslandi sem áfangastað undir heitinu Saman í sókn sem Íslandsstofa heldur utan um og búa þannig í haginn þegar að fólksflutningar hefjast að nýju. Einnig hafa stjórnvöld greint frá áforum um að verja milljarði í stuðning við veitingahús. Þetta eru mikilvægar aðgerðir sem munar um til lengri og skemmri tíma. Það er engin spurning í huga mér að ferðaþjónustan, og hennar öfluga fólk, verði burðarársinn í viðspyrnu þjóðarbúsins. Enda hefur ferðaþjónustan áður sýnt að hún geti skapað gríðarlegar gjaldeyristekjur fyrir landið á nokkuð skömmum tíma.

Það eru vonir mínar að allir okkar erlendu gestir muni eiga gæðastundir hér á landi yfir þessi jól, ekki síður en við sem hér búum. Ég sendi því öllum hlýjar jólakveðjur, full tilhlökkunar og bjartsýni á að bókunarstaðan verði 100% jólin 2022.

Höfundur er ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum