Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Flæðilínan sem gefur og gefur

Undanfarin sunnudagskvöld hefur hugur landsmanna sveimað vestur á firði til þess að fylgjast með uppátækjum þeirra Hörpu, Gríms, Jóns, Einars, Ellu Stínu og annarra við rekstur sjávarútvegsfyrirtækis í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni sem fengið hafa verðskuldaða athygli fyrir mikla fagmennsku og gæði. Þættirnir eru enn ein staðfesting á þeim mikla krafti sem býr í íslenskri kvikmyndagerð en greinin hefur verið áberandi í íslensku menningar- og atvinnulífi undanfarinn áratug og velta greinarinnar hefur þrefaldast á þeim tíma en vel á fjórða þúsund starfa við kvikmyndagerð.

Í takt við róttækar breytingar á samfélögum heimsins, sem gjarnan eru kenndar við fjórðu iðnbyltinguna, er kallað eftir því að fjölbreyttari stoðum verði skotið undir íslenskt atvinnulíf með áherslu á greinar sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Ekki fer milli mála að kvikmyndagerð fellur að öllu leyti að þessari skilgreiningu, enda er hún ört vaxandi skapandi grein sem hefur alla burði til að styðja enn frekar við verðmætasköpun og samkeppnishæfni þjóðarbúsins á næstu árum og áratugum.

Sífellt fleira ungt fólk vill starfa við skapandi greinar, eins og kvikmyndagerðina. Þá eru kvikmyndir mikilvægur þáttur í alþjóðlegri markaðssetningu Íslands sem lands lista og skapandi greina og í að laða erlenda ferðamenn til landsins. Af þessu má álykta að með aukinni fjárfestingu muni greinin geta skilað þjóðarbúinu talsvert meiri verðmætum en hún gerir nú.

Með þetta í huga kynntu stjórnvöld nýja kvikmyndastefnu til ársins 2030. Velta kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslunnar eru tæpir 30 ma.kr. á ársgrundvelli og tæplega 2.000 einstaklingar starfa í greininni. Um er að ræða fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnuna sem unnin hefur verið hér á landi en hún var afrakstur góðrar samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs. Stjórnvöld hafa einhent sér í að fylgja hinni nýju stefnu eftir af fullum krafti. Þannig voru til dæmis fjármunir strax tryggðir til þess að koma á laggirnar háskólanámi í kvikmyndagerð við Listaháskóla Íslands og á fjárlögum þessa árs má finna rúmlega 500 m.kr. hækkun til kvikmyndamála – sem að stærstum hluta rennur til framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsefni. Á kjörtímabilinu verða einnig stigin stór skref í að auka alþjóðlega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar hér á landi með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi með tilheyrandi tækifærum fyrir íslenskt menningarlíf.

Við höfum öll unun af því að horfa á gott sjónvarpsefni og ekki skemmir fyrir ef það er íslenskt. Frjór jarðvegur fyrir sköpun fleiri gæðasjónvarpsþátta og -kvikmynda hér á landi er svo sannarlega fyrir hendi – og hann á aðeins eftir að verða frjórri. Í raun er íslensk kvikmyndagerð er eins og flæðilína sem heldur áfram að gefa og gefa svo ég noti orðfæri í anda Verbúðarinnar. Ég er því sannfærð um að fleiri Verbúðir, eða þeirra líkar, muni líta dagsins ljós – okkur öllum til yndisauka.

 

Höfundur er menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum