Hoppa yfir valmynd
02. febrúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tími tækifæranna

Nýtt menningar- og viðskiptaráðuneyti (MVF) tók í gær formlega til starfa í samræmi við nýsamþykkta þingsályktunartillögu um skipan Stjórnarráðsins. Breytingar sem í henni er að finna eru róttækar en tímabærar og eru til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins. Undir hið nýja ráðuneyti falla málefni menningar, ferðaþjónustu og viðskipta og er hlutverk þess að skapa þessum málaflokkum umhverfi sem stuðlar að velsæld og verðmætasköpun fyrir samfélagið.

Því hlutverki mun ráðuneytið sinna með því að auka skilvirkni, bæta þjónustu og nýta samlegð málaflokkanna með öflugu samstarfi með áherslu á mikilvægi skapandi greina og samkeppnishæfni. Lögð verður áhersla á vandaða stefnumótun, virka samvinnu og upplýsingamiðlun ásamt því að auka traust á stofnunum og verkferlum stjórnsýslunnar og tryggja jafnræði og sjálfbærni. Innan hins nýja ráðuneytis verður aukin geta til hagfræðilegra greininga til að styðja mið markvissari stefnumótun í málaflokkum þess.

Það eru mörg sóknarfæri í samlegð þessara þriggja stoða sem menning, ferðaþjónusta og viðskipti eru í íslensku samfélagi og markmiðið er að hámarka þá samlegð á sama tíma og við stöndum vörð um kjarnastarfsemi og sérstöðu greinanna. Ferðaþjónustan og menningarlífið njóta gagnkvæms ávinnings af velgengni og hagsmunir þeirra eru samofnir á ýmsum sviðum. Þannig hafa íslenskir menningarviðburðir á borð við tónlistar- og kvikmyndahátíðir verið aðdráttarafl ferðamanna um árabil. Að sama skapi njóta skapandi greinar góðs af stærri markaði sem fylgir fjölgun ferðamanna og aukinni eftirspurn eftir íslenskri list og menningu.

Til grundvallar aðgerðum og áherslum nýs ráðuneytis verða mælikvarðar sem ná utan um efnahagslega, samfélagslega og huglæga þætti sem ganga þvert á málaflokka okkar. Mér finnst spennandi að hugsa til þessara mælikvarða sem einskonar sköpunarvísitölu en það er vísitala sem við keppum að því að hækka og höfum alla burði til. Umsvif þeirra atvinnugreina sem heyra undir nýtt menningar- og viðskiptaráðuneyti eru nú þegar mikil en framlag þeirra til vergrar landsframleiðslu er rúmlega 40%. Við ætlum okkur að gera enn betur. Okkar stærstu markmið eru að árið 2030 muni útgjöld ferðamanna hér á landi nema 700 milljörðum króna og að útflutningverðmæti menningar verði 20 milljarðar. Að auki viljum við koma Íslandi í hóp 15 efstu landa hvað viðkemur viðskiptaumhverfi og samkeppnishæfni.

Það er því til mikils að vinna fyrir þjóðarbúið ef rétt er haldið á málum. Tími tækifæranna er runninn upp og með samþættingu þessara málaflokka í nýju ráðuneyti menningar- og viðskiptamála eru skapaðar tryggari forsendur til að grípa þau og stuðla þannig að sókn í þágu samfélagsins alls með tilheyrandi vexti og velsæld til framtíðar.

Höfundur er ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Grein í Morgunblaðinu 2. febrúar 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum