Hoppa yfir valmynd
05. mars 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Martröð í Úkraínu og biðraðir frá Múrmansk til Moskvu

Á mínum uppvaxtarárum var kalda stríðið í algleymingi og heimsstjórnmálin gengu út á það. Ég, líkt og önnur börn, hafði miklar áhyggjur af kjarnorkukapphlaupi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Eins undarlegt og það kann að hljóma, þá var ég mjög meðvituð um 5. gr. Stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins um að árás á eitt ríki væri árás á þau öll. Þetta létti ekki á öllum áhyggjum en í því var einhver huggun að Ísland stæði ekki eitt úti á ballarhafi. Því miður hafa öryggis- og varnarmálin aftur orðið meginviðfangsefni heimsmálanna eftir að Rússland réðst á Úkraínu. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með atburðarásinni og horfa á blóðugt mannfall og hundruð þúsunda flóttamanna yfirgefa ástkæra fósturjörð sína. Vesturlöndin hafa í sameiningu brugðist við með því að beita Rússland þyngstu efnahagsþvingunum sem gripið hefur verið til í nútímahagsögu.

 

 

Efnahagsþvinganir og áhrifin

Efnahagsaðgerðirnar sem gripið hefur verið til ná til um fimmtíu ríkja sem standa undir stórum hluta af heimsframleiðslunni. Rússneska hagkerfið er 11. stærsta hagkerfi veraldarinnar. Lokað hefur verið á greiðslumiðlunarkerfi heimsins gagnvart rússneskum viðskiptum, sem hefur mikil áhrif á alla þá aðila sem stunda viðskipti við Rússland og frystir greiðslur til og frá landinu. Að auki ná aðgerðirnar til hins umfangsmikla gjaldeyrisforða Rússlands, sem nemur um 630 ma.kr. bandaríkjadala. Stærsti hluti forðans er í reynd frystur. Þessi aðgerð er talin vega þyngst og áhrifanna gætti strax þar sem gjaldmiðillinn féll um 30% og verð á hlutabréfamörkuðum hríðféll á fyrsta viðskiptadegi eftir að aðgerðirnar tóku gildi. Seðlabanki Rússlands var knúinn til að hækka stýrivexti sína úr 9,5% í 20%. Almenningur finnur strax fyrir þessu í minni kaupmætti og vöruskorti. Frekari afleiðingar eru að sett hafa verið ströng gjaldeyrishöft og biðraðir myndast í bankaútibúum og í matvöruverslunum. Áhrifin á aðra markaði eru þau að olíuverð hefur hækkað mikið ásamt annarri hrávöru. Þrátt fyrir að Rússland framleiði um þriðjung alls þess jarðgass sem nýtt er í Evrópu og að það sé annar stærsti olíuframleiðandi heims er hlutur Rússa á hrávörumarkaðnum á heimsvísu aðeins um 3%, en á móti kemur að 85% af útflutningsafurðum Rússa eru hrávörur. Það þýðir að áhrifin af efnahagsþvingunum verða mun meiri á rússneska hagkerfið en á heimsvísu. Landsframleiðsla í Rússlandi er talin munu dragast saman um a.m.k. 11% og líklega verður samdrátturinn meiri en í kreppunni 1998. Öll þessi þróun mun leiða til hækkunar á verðbólgu til skamms tíma.

 

 

Staða Íslands

Hin efnahagslegu áhrif eru þó léttvæg í samanburði við þann mannlega harmleik sem á sér stað. Gæfa Íslands í utanríkismálum þjóðarinnar er að í nýstofnuðu lýðveldi var tekin ákvörðun um annars vegar að gerast stofnaðildarríki að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og hins vegar að gera varningarsamning við Bandaríkin árið 1951. Þetta eru meginstoðir í þjóðaröryggisstefnunni og hafa tryggt öryggi Íslands í áratugi. Það var framsýn þjóð sem valdi rétt á sínum tíma og hefur í krafti friðar og öryggis náð að blómstra sem eitt öflugasta lýðræðissamfélag veraldar. Mér þótti sem lítilli telpu ágætt að vita til þess að við ættum sterka bandamenn. Á móti nýtur Úkraína þess ekki að vera aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og því eru varnir ríkisins litlar við hliðina á Rússlandi. Okkur ber skylda til þess að styðja við Úkraínu og að vinna að því að þessum hildarleik ljúki sem fyrst!

Höfundur er viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. mars 2022

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum