Hoppa yfir valmynd
23. mars 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samstöðutónleikar fyrir Úkraínu

kjölfar óverjanlegrar innrásar Rússlands í hina frjálsu og fullvalda Úkraínu gjörbreyttist sá friðsami veruleiki sem Evrópa hefur búið við. Borgir og bæir hafa nánast verið jafnaðir við jörðu og milljónir manna hafa neyðst til þess að flýja heimili sín til vinveittra nágrannaríkja. Þar hefur lofsvert framlag Póllands skipt gríðarlega miklu máli en Pólverjar hafa með hlýju tekið á móti mestum fjölda þeirra Úkraínubúa sem flúið hafa landið sitt.

Nýverið átti ég áhrifamikinn fund með Gerard Pokruszyñski, sendiherra Póllands á Íslandi, þar sem hugmynd að Samstöðutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands til stuðnings Úkraínu fæddist. Við ræddum saman um þann fjölda flóttamanna sem kemur daglega frá Úkraínu til Póllands og veltum því fyrir okkur hvernig við gætum sýnt táknrænan stuðning. Sinfóníuhljómsveit Íslands tók þessari hugmynd afar vel og setti tónleikana strax á dagskrá með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Sameiningar- og samtakamáttur menningar er mikill og við erum stolt af því hvernig menningarlífið á Íslandi getur sýnt stuðning sinn í verki fyrir þau sem eiga um sárt að binda. Samstöðutónleikarnir fara fram á morgun, fimmtudaginn 24. mars klukkan 19.30 í Hörpu og fer miðasala fram á vefsíðunni sinfonia.is þar sem einnig er hægt að nálgast frekari upplýsingar um dagskrána. Allur ágóði af tónleikunum rennur óskiptur til hjálpar fötluðu fólki í Úkraínu sem er sérstaklega berskjaldað í stríðinu sem nú geisar. Þessi hópur getur síður flúið og orðið sér úti um mat, lyf og aðrar nauðsynjar og því mikilvægt að leggja honum lið.

Ég hef trú á því að samtakamáttur í sinni víðustu mynd skipti máli í þeirri stöðu sem uppi er. Þannig hafa vestræn ríki sýnt fordæmalausa samstöðu við að refsa Rússum fyrir framferði þeirra sem og við að styðja Úkraínu á þessum erfiðu tímum með ýmsum hætti. Ég er þakklát öllu því fólki sem leggur málstað lið. Samstöðutónleikarnir eru þar eitt innlegg af mörgum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum