Hoppa yfir valmynd
26. mars 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Stríðið í Úkraínu hefur varað í rúman mánuð. Afleiðingarnar birtast okkur á degi hverjum, með myndum af mannfalli almennra borgara. Milljónir flóttamanna eru á vergangi, heilu íbúðahverfin hafa verið jöfnuð við jörðu, ungar fjölskyldur eru aðskildar – allt eru þetta birtingarmyndir miskunnarlauss stríðs í Evrópu, sem flest okkar þekkja einungis úr sögubókum. Við finnum fyrir afleiðingum stríðsins á hverjum degi; verð á bensín, mat, kambstáli og nikkel hefur hækkað verulega. Þessar hækkanir þýða að verðbólga eykst og neysla og hagvöxtur munu minnka. Lífskjör á heimsvísu rýrna! Þess má geta að Rússland og Úkraína framleiða 26% af hveiti, 16% af korni, 30% af byggi og 80% af sólblómaolíu. Ljóst er hagkerfi veraldarinnar munu finna fyrir miklum skorti á framleiðslu á þessum afurðum og því miður munu fátækustu lönd heimsins líklega finna enn meira fyrir þessu.

 

Þörf á samstilltum aðgerðum á heimsvísu

Það eru blikur á lofti og eftirspurnarkreppa gæti myndast vegna verðhækkana. Þessi þróun þarf ekki að raungerast ef efnahagsstjórnin er skynsöm. Til að kljást við Kremlar-ógnina verða leiðandi hagkerfi heimsins að stilla saman aðgerðir sínar sem miða að því að vera minna háð orkuframleiðslu Rússlands. Í hagsögunni eru dæmi eru miklar hækkanir á olíu, til dæmis eftir Yom Kippur-stríðið 1973 og írönsku byltinguna 1979 og svo þær hækkanir olíuverðs sem áttu sér stað 2010-2011 eftir fjármálakreppuna 2008. Áhrif þessara hækkana á heimshagkerfið voru þó gjörólík. Fyrri hækkanir höfðu mikil áhrif og urðu til þess að verulega hægðist á alþjóðahagkerfinu en þær seinni gerðu það ekki. Hver er þá munurinn?

 

 

Tímamótarannsókn Bernankes, Gertlers og Watsons

Árið 1997 birtu Bernanke, Gertler og Watson tímamótahagrannsókn sem fjallaði um áhrif hækkunar olíuverðs á bandaríska hagkerfið. Niðurstaða þeirra var að efnahagskreppa raungerðist ekki vegna þess að olíuverð væri að hækka, heldur vegna þess að seðlabankinn hefði áhyggjur af víxlverkun launa og verðlags, og hækkuðu því stýrivexti mikið sem viðbrögð við hækkun olíuverðs. Paul Krugman hefur nýlega bent á muninn á því hvað gerðist eftir olíuáfallið á 8. áratugnum annars vegar og hins vegar eftir fjármálakreppuna 2008 þegar Bernanke var við stjórnvölinn hjá bandaríska seðlabankanum og hélt aftur af vaxtahækkunum þrátt fyrir áköll um annað. Það ber þó að hafa bak við eyrað að aðstæður á hagkerfum heimsins eru ólíkar á hverjum tíma og þurfa viðbrögð stjórnvalda að taka mið af því. Við höfum lært af reynslunni að birtingarmyndir efnahagsáfalla eru ólíkar. Það er ljóst að verðbólga er stórskaðleg öllum hagkerfum og í ljósi verðhækkana undanfarinna mánaða er ekki að undra að vaxtahækkunarferlið sé hafið víða um heim. Það er þó afar brýnt að þær efnahagsþrengingar sem eru í vændum verði ekki of miklar og seðlabankar bregðist ekki of hart við. Í því sambandi er mikilvægt að samræmis sé gætt í stefnumörkun hins opinbera. Af þeim sökum er mikilvægt að hið opinbera gangi í takt og styðji við peningastefnuna, t.d. í ríkisfjármálum.

 

Horfurnar á Íslandi

Hnökrar í alþjóðaviðskiptum hafa hægt á endurreisninni í kjölfar Covid. Óverjanleg innrás Rússa í Úkraínu eykur enn á líkur þess að það hægi á hagvexti. Hrávöruverð hækkar mikið á alþjóðamörkuðum og því mun verðbólga aukast í kjölfarið. Það verður áfram óvissa um þróunina meðan stríðið varir. Óljóst er þó hvaða áhrif stríðið hefur á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins, þ.e. líklegt er að viðskiptakjör rýrni vegna hækkandi verðbólgu en á móti kemur að ferðaþjónustan virðist enn standa sterkt. Því ætti gengi krónunnar að haldast stöðugt að öllu öðru óbreyttu. Íslendingar þurfa ekki að leita í sögubækurnar til að kynna sér áhrif verðbólgu á heimilin. Stóra málið í efnahagsstjórninni hér á landi er að halda verðbólgunni í skefjum. Það er mjög sorglegt að horfa upp á að helmingurinn af 6,2% verðbólgunni á Íslandi er vegna mikillar hækkunar húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu. 22,4% hækkun mælist nú á höfuðborgarsvæðinu! Hér er ekki gengið í takt til stuðnings baráttunni gegn verðbólgunni! Það verður að auka framboð hagkvæmra lóða og fara í stórátak í húsnæðismálum ef þetta á ekki að enda með efnahagslegu stórslysi, því er afar gott að skipulagsmálin séu komin í innviðaráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar!

 

Það hafa orðið ótrúlegar breytingar í heiminum á einum mánuði og óvissan verður áfram ríkjandi á meðan stríðið varir og jafnvel lengur. Það er auðvitað hryllileg tilhugsun að heimurinn sé jafnbrothættur og raun ber vitni. Brýnast fyrir hagstjórnina bæði á heimsvísu og hér innanlands er að fara í aðgerðir sem miða að því að draga úr verðbólguþrýstingi og styðja Seðlabanka Íslands í sinni vegferð.

Höfundur er viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum