Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Erindi Framsóknar

Frjálsar kosningar eru hornsteinn þess lýðræðissamfélags sem við búum í. Það að búa í frjálsu og opnu lýðræðisþjóðfélagi er ekki sjálfgefinn hlutur eins og fjölmörg dæmi í heiminum sanna. Það er því hátíðarstund í hvert skipti sem gengið er til kosninga og kjósendur greiða þeim sem þeir treysta atkvæði sín til að vinna að þörfum málefnum fyrir samfélagið. Vel heppnaðar sveitarstjórnarkosningar um liðna helgi voru þar engin undantekning. Ég vil byrja á að óska öllum þeim sveitarstjórnarfulltrúum sem náðu kjöri fyrir hönd ólíkra flokka innilega til hamingju með kjörið. Það er mikil heiður sem fylgir því að vera valinn af kjósendum til trúnaðarstarfa fyrir samfélagið.

Sveitarstjórnarmál skipta miklu máli en á vettvangi þeirra stíga margir sín fyrstu skref í stjórnmálum og félagsstörfum. Sveitarfélögin eru ábyrg fyrir að veita mikilvæga og fjölbreytta þjónustu sem snerta hag fólks með beinum hætti á hverjum einasta degi. Það var ánægjulegt að sjá þann mikla meðbyr með frambjóðendum Framsóknar raungerast í glæsilegum fylgistölum um allt land. Frambjóðendur flokksins koma úr ýmsum áttum, nestaðir með fjölbreyttum bakgrunnum, reynslu og þekkingu sem nýtist með ýmsu móti til þess auka velsæld íbúanna. Sem varaformaður Framsóknar fylltist ég stolti að fylgjast með þeirri málefnalegu og uppbyggilegu kosningabaráttu sem frambjóðendur flokksins ráku á landsvísu.

Sá vaski hópur á það sameiginlegt að vilja vinna samvinnuhugsjóninni brautargengi og stuðla að uppbyggilegum stjórnmálum út frá miðjunni. Sem miðjuflokkur leggur Framsókn áherslu á praktískar og öfgalausar lausnir sem eru til þess fallnar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólíkum stjórnmálaflokkum til þess að bæta samfélagið. Það hefur flokkurinn margoft gert með góðum árangri; að brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða til þess að ná árangri fyrir land og þjóð. Við í Framsókn segjum gjarnan að samfélag sé samvinnuverkefni og í því er fólginn mikill sannleikur.

Fjölmargir kjósendur um allt land eru sammála þessum boðskap og til dæmis í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu náði flokkurinn sögulegum fylgistölum og jók styrk sinn verulega. Sérstaklega ánægjulegt var að sjá upprisu flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Mosfellsbæjar þar sem flokkurinn fór úr því að eiga enga fulltrúa yfir í það að eiga fjóra í báðum sveitarfélögum. Við í Framsókn erum þakklát kjósendum fyrir það mikla traust sem þeir sýna flokknum og frambjóðendum hans. Í því er fólgin mikil hvatning til þess að vinna að jákvæðum breytingum í sveitarfélögum um allt land. Undir þeirri ábyrgð munu sveitarstjórnarfulltrúar okkar rísa með glæsibrag og gera samfélagið enn betra en það var í gær.

 

Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum