Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Áfram Ísland!

Það er eftirvænting í samfélaginu nú þegar stelpurnar okkar spila sinn annan leik gegn Ítalíu á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu á Englandi í dag. Sameiningaraflið og krafturinn sem fylgir stelpunum smitar út frá sér. Fjöldi íslenskra stuðningsmanna hefur gert sér ferð á móti til að styðja dyggilega við bakið á íslenska landsliðinu og fjölskyldur og vinir koma saman á Íslandi til þess að horfa á leikinn og senda hlýja strauma út.

Velgengni íslensku landsliðanna í knattspyrnu hefur fyllt okkur stolti, gleði og tilhlökkun. Árangurinn blæs líka baráttuanda og krafti í fjölda barna og unglinga sem fylgjast spennt með sínum fyrirmyndum. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fastar og stefnt hærra. Íþróttafólkið okkar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnusemi. Það hefur sett sér markmið, keppt að þeim sama hvað dynur á og haldið í gleðina yfir stórum sem smáum sigrum.

Það að komast á stórmót sem þetta er ekki sjálfsagt. Að baki slíkum árangri liggur þrotlaus vinna stelpnanna okkar og þeirra sem standa þeim næst. Þessi árangur byggist einnig á óeigingjarnri vinnu samfélagsins í gegnum tíðina. Ber þar fyrst að nefna baklandið, en það er fólkið sem leggur sitt af mörkum með stuðningi sínum, elju og ástríðu. Þetta eru fjölskyldurnar, starfsfólkið í íþróttahúsunum, sjálfboðaliðarnir og aðrir velunnarar. Þau eru að uppskera ríkulega þessa dagana. Annað sem breytir höfuð máli er jafn aðgangur að íþrótta og tómstundastarfi á landinu okkar. Það er okkar sem samfélags að tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til þess að ná langt í því sem þau vilja taka sér fyrir hendur.

Fram undan eru spennandi og skemmtilegir tímar og ég trúi því að ævintýrið á Englandi sé er rétt að byrja. Til þess að gera umgjörð mótsins enn glæsilegri ákváðu íslensk stjórnvöld að blása til menningarkynninga í tengslum við leiki stelpnanna á móti. Að þeim koma öflugur hópur íslenskra listamanna sem koma fram fyrir hvern leik. Aukinheldur hafa menningar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið lestrarhvatningarherferðina sett á laggirnar lestrarhvatningarherferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyrir lesendur á grunnskólaaldri í sumar.

Hvatningin er skemmtileg og innblásin af þátttöku stelpnanna okkar á EM. Að þessu sinni snýst lestrarhvatningin um bæði lestur og sköpun. Börn og foreldrar gera með sér samning um ákveðinn mínútufjölda í lestri fyrir hvern leik og hvert mark sem að stelpurnar okkar skora á EM. Þá geta krakkar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sagan þarf að innihalda bolta. Nánari upplýsingar er að finna inná vefsíðunni www.timitiladlesa.is.

Það er gaman að geta samþætt íþróttir og menningu með þessum hætti til þess að auka hróður landsins og hvetja stelpurnar okkar enn frekar til dáða. Sem ráðherra menningarmála sendi ég stelpunum okkar baráttukveðjur fyrir leikinn í dag og óska öllum landsmönnum gleðilegrar fótboltahátíðar þar sem slagorðið verður tvímælalaust: Áfram Ísland!

 

Höfundur er menningarráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum