Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ferðaþjónusta í sókn

Eftir tvö undanfarin sumur sem lituðust af heimsfaraldri hefur fólk nú tök á að njóta sumarfrísins án takmarkana hér innanlands sem og erlendis. Við finnum fyrir ánægjunni sem fylgir því að hitta aftur vini og vandamenn án vandkvæða við fjölbreytt tilefni og upplifa stundir sem ekki var hægt í heimsfaraldrinum. Samhliða afléttingum sóttvarnaráðstafana hefur ferðavilji aukist til muna og sækja erlendir ferðamenn hingað að nýju í stríðum straumum til þess að upplifa allt það frábæra sem áfangastaðurinn Ísland hefur að bjóða.

Ferðaþjónustan hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, með getu til þess að skapa miklar gjaldeyristekjur á tiltölulega skömmum tíma. Þannig skapaði greinin 553 milljarða króna verðmæti fyrir samfélagið árið 2019 – og munar um minna! Þessa dagana berast okkur ánægjuleg tíðindi úr ferðaþjónustunni sem gefa okkur vísbendingar um að viðspyrnan eftir heimsfaraldur sé komin á fullt. Þannig var kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi 28,3 milljarðar króna í júní. Það er aukning um 27,4 prósent á milli ára og hefur veltan aldrei mælst hærri í júnímánuði frá því mælingar hófust árið 2012.

Þetta er vitnisburður um að tíminn í heimsfaraldrinum hafi verið vel nýttur, bæði hjá stjórnvöldum sem og hjá fyrirtækjunum sjálfum. Hvað varðar aðgerðir stjórnvalda ber til dæmis að nefna stofnun áfangastaðastofa í hverjum landshluta, stórauknar fjárfestingar í innviðum, bæði samgönguinnviðum og innviðum á ferðamannastöðum svo þeir verði betur í stakk búnir til að taka á móti auknum fjölda gesta á ný.

Í tíð minni sem ferðamálaráðherra hef ég lagt áherslu á að tryggja viðspyrnu ferðaþjónustunnar, meðal annars með því að veita 550 m.kr framlag í alþjóðlega markaðsverkefnið „Saman í sókn“ sem hefur það að markmiði að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar. Settur var aukinn kraftur í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum fyrir beint millilandaflug með góðum árangri. Tæpum 600 m.kr var úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta innviði, tvær reglugerðir undirritaðar til að koma móts við erfiða lausafjárstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu vegna afleiðinga heimsfaraldurs ásamt því að frumvarp mitt um breytingar á lögum um Ferðaábyrgðasjóð var samþykkt á Alþingi. Með breytingunum lengist lánstími lána úr 6 árum í 10 ár sem auðveldar ferðaskrifstofum að standa við afborganir.

Margir landsmenn kynntust því undanfarin tvö sumur hversu frábær áfangastaður Ísland er. Við höfum öll tækifæri til að halda áfram að byggja upp öfluga, arðsama og samkeppnishæfa ferðaþjónustu á heimsmælikvarða, í sátt við náttúru og íslenska menningu, sem við getum verið stolt af.

 

Höfundur er ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum