Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Norðurslóðir á krossgötum

Málefni norðurslóða skipta Ísland höfuðmáli en málefni svæðisins hafa á undanförnum árum notið sívaxandi athygli ríkja heimsins. Ísland hefur gert sig gildandi í norðurslóðamálefnum. Þannig veitti Ísland Norðurskautsráðinu forystu á árunum 2019-2021 og Hringborð norðurslóða (e. Arctic Circle) hefur undir forystu fyrrverandi forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, fest sig í sessi sem alþjóðlegur vettvangur norðurslóðamála með þátttöku fjölmargra ríkja. Um liðna helgi tók ég þátt í sérstöku Grænlandsþingi Hringborðs norðurslóða þar sem um 400 þátttakendur frá 25 löndum komu saman til þess að ræða loftslagsvána og málefni norðurslóða.

Alls voru um 50 málstofur á þinginu þar sem meðal annars var fjallað um viðskipti, ferðaþjónustu, námuvinnslu, matvælavinnslu, vöruflutninga og framtíðarsýn út frá loftslagsbreytingum og grænum lausnum. Í ræðu minni lagði ég meðal annars áherslu á mikilvægi þess að samtíminn lærði af þeim mistökum sem norrænt fólk gerði á Grænlandi á 13.-14. öldinni þegar gengið var of nærri viðkvæmu umhverfi með ofbeit og ofnýtingu náttúruauðlinda, sem meðal annars er talið hafa valdið því á endanum að norrænt fólk gafst upp á Grænlandsbúsetunni.

Á norðurslóðum búa alls um fjórar milljónir manna í átta ríkjum en um tíundi hluti þeirra eru frumbyggjar. Flestir lifa í nokkuð miklu návígi við náttúruna líkt og við Íslendingar þekkjum vel af eigin raun. Samfélögin hafa að miklu leyti byggt afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda, allt frá sjávarfangi og fuglum til jarðefnaeldsneytis og málma. Þær umhverfisbreytingar sem eiga sér stað hafa í för með sér viðamiklar áskoranir fyrir samfélög á norðurslóðum, þar sem sum samfélög hafa minni viðnámsþrótt en önnur til þess að takast á við þær.

Það er mikilvægt að spornað sé við neikvæðum áhrifum þessara breytinga en að sama skapi tryggt að þau tækifæri sem geta falist í þeim verði nýtt með sjálfbærum hætti þar sem huga þarf að umhverfis- og öryggisþáttum sem og félagslegum og efnahagslegum þáttum. Sjálfbærni verður að vera meginstef í öllum aðgerðum á norðurslóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylgir hlýnun jarðar og afleiðingum loftslagsbreytinga – og þar gegnir aukin samvinna og samstarf ríkja á norðurslóðum lykilhlutverki. Fjárfestingar og viðskipti eru þar mikilvæg verkfæri til þess að takast á við áhrif loftslagsbreytinga og þar getur Ísland beitt sér með góðum árangri og miðlað af þekkingu sinni og reynslu til annarra ríkja á svæðinu.

 

Höfundur er viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum