Hoppa yfir valmynd
03. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Öndvegismaður íslenskunnar

Um liðna helgi fór fram málþingið Samvinna í nútíð og framtíð á Bifröst í Borgarfirði sem haldið var í minningu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Góðmennið, hugljúfinn, málamiðlarinn, skynsemismaðurinn; hinn ósvikni samvinnumaður. Ritstjórinn, kennarinn, doktorinn, rektorinn og seðlabankastjórinn eru allt orð sem hægt er að hengja á Jón. Þessi mikli hugsjónamaður var einnig íslenskufræðingur og var með meistaragráðu í kennarafræðum, málefni sem hann lét sig sérstaklega mikið varða.

Jón veitti mér innblástur í starfi mínu sem mennta- og menningarmálaráðherra og gerir enn. Mér er enn í fersku minni þegar ég las grein hans „Íslenska eða Ís-enska“ í fyrsta skipti – en hún birtist í Skírni árið 2017. Í greininni rekur hann þær áskoranir sem tungumálið okkar, íslenskan, stendur frammi fyrir. Inngangsorð Jóns í greininni kjarna staðreynd málsins, en þau hljóma svo: „Móðurmálið, þjóðtungan íslenska, lifir og dafnar, breytist og þroskast áfram ef almenningur í landinu vill, svo lengi sem sú afstaða er almenn og því aðeins að svo sé. Framtíð þjóðtungunnar er undir þessu komin. Vilji almennings um þetta mótast ekki síst af fordæmi og fyrirmyndum svokallaðra málstétta. Þær eru sjónvarps- og útvarpsfólk, blaðamenn, sönglistafólk, kennarar, rithöfundar og skáld, kennimenn, sviðlistamenn og margir sem gegna forystu á opinberum vettvangi.“

Þetta eru orð að sönnu og hugvekja sem hefur hvatt mig áfram í störfum mínum – þar sem ég hef lagt áherslu á að taka málefni íslenskunnar föstum tökum og hefur margt áunnist.

Árið 2019 samþykkti Alþingi þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi og aðgerðaáætlun sem henni fylgdi. Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð. Fjármunum var einnig forgangsraðað í að styðja við menningu og skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið, hvort sem um er að ræða bókaútgáfu, fjölmiðla eða annað. Til þess að setja umfang þeirra aðgerða sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili í samhengi, þá voru um 10 milljarðar króna settir í málefni íslenskunnar.

Okkur er alvara með því að snúa vörn í sókn fyrir móðurmálið okkar og það hefur svo sannarlega mikið vatn runnið til sjávar á aðeins fimm árum í þeim efnum. Það er margt sem kallast á við skrif og sýn Jóns við það sem stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd. En betur má ef duga skal enda verkefnið stórt sem kallar á samvinnu okkar allra. Í ráðuneyti mínu er nú unnið að uppfærðri aðgerðaáætlun fyrir íslenskuna, þar sem meðal annars verður lögð áhersla á aukið aðgengi að íslensku í atvinnulífinu með stórauknu framboði á íslenskukennslu fyrir útlendinga og að íslenskan verði í fyrsta sæti í almannarými svo eitthvað sé nefnt. Framlag og vitundarvakning öndvegismanns íslenskunnar, Jóns Sigurðssonar, mun hvetja okkur áfram í þeirri vinnu og koma tungumálinu okkar til góða um ókomna tíð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum